14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (4433)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Það er raunar ekki ástæða fyrir mig að biðja um orðið, því að svona ræður svara sér sjálfar. Þær eru eins og sum vopn, sem kastað er að andstæðingunum og geta sært og drepið, ef þau hitta. En ef það er klaufi, sem á heldur, þá fer það venjulega til baka í hausinn á honum sjálf um.

Ég skil það vel, að hv. þm. Barð. sé úrillur þessa daga, þar sem hann er að afgreiða fjárl., en það verður nú að taka á þessum málum með þolinmæði, sem öðrum málum. Við framsóknarmenn erum nú að sitja okkur inn í fjármálasukk fyrrv. ríkisstj., en vitanlega er það fyrst og fremst hlutverk fjmrh. að koma með fjárl. Sjálfstfl. hefur markað fjármálastefnu ríkisins síðan 1939, og er það engin tilviljun, þótt réttmætt þyki, að Sjálfstfl. leiki hlutverk fjmrh. fyrir opnum tjöldum til enda.

Það var hæstv. fyrrv. fjmrh., sem byrjaði hér árás á mig út af kosningu í Strandasýslu, og ef hv. þm. Barð. heldur, að flutningur okkar í því máli eigi að ráða því, að ég svari ekki röngum ásökunum fyrir það eitt, að við flytjum þetta mál saman, þá fer hv. þm. þar alls fjarri. Og ég vil segja það, og alveg þykkjulaust, að ég býst við, að þessi hv. þm. Barð. hefði svarað hv. 1. þm. Reykv., ef hann hefði fengið slíkar árásir af hans hendi, og ég hefði talið hv. þm. Barð. minni mann, ef hann hefði ekki gert það. Ég bar hér aðeins af mér ásakanir, en að ég stæði í móti afgreiðslu fjárl. vegna þess, að ég fengi ekki nóg fé persónulega, þá er ég undrandi yfir því af form. fjvn. að láta slík ummæli út úr sér, og ég skil varla, að jafngreindur maður og hv. þm. Barð. er mundi gera slíkt nema vegna þess, að hann væri viti sínu fjær af geðofsa og reiði, og er það sannast að segja alveg óþarfi fyrir hv. þm. að láta svo, þótt ég hefði hér ummæli um viðskilnaðinn við fyrrv. ríkisstj.

Ég mun nú láta þetta nægja og ég beið aðeins hér vegna þess, að hv. þm. Barð. hafði tilkynnt, að hann mundi hefja hér heiftarlega árás á mig.