14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (4434)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Magnússon:

Herra forseti. — Ég verð að segja, að ég hefði ekki minnzt á kosninguna í Strandasýslu, ef ég hefði vitað, að það hefði komið svo í opna kviku hv. þm. Str. eins og raun ber vitni um, en hv. kjósendur þm. voru nú ekki svo mjög hrifnir af frammistöðu þm. í kosningunum.

Ég kvaddi mér hljóðs vegna eins atriðis í ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hann stagaðist á því, að valdið hefði verið tekið af bændum með l. um búnaðarmálasjóð. Ef Alþ. ákveður, hvernig fénu skuli varið, þá er um það deilt, hver félagssamtök bænda hafi rétt til þess að ráðstafa fénu. Og ef Búnaðarfélagið er stéttarsamtök bænda, þá eru búnaðarsamböndin það engu að síður, og hver einasti bóndi er í þeim félagsskap, sem má teljast þrengsti félagsskapur bænda, og er það því rökvilla ein, að ráðstöfunarvaldið hafi verið tekið af bændum, heldur finnst mér aðeins réttmætt, að Alþ. ákveði, hver félagsskapur bænda skuli. hafa réttinn til að ráðstafa fénu. Og þm. hefur heldur aldrei mótmælt því og engin rök mæla með því, að annar félagsskapur sé líklegri að inna þetta verk af hendi.