14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (4435)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Við umræðurnar er það sérstaklega eitt, sem hefur skýrzt, sem skiptir máli, en það eru ummæli um skiptingu þess fjár, sem hér er um að ræða, að þeim, sem meira framleiða, beri ekki að fá meira í sinn hlut, og hefur Sunnlendingum verið brugðið um nirfilskap. Þetta er ómakleg árás, því að málið er flutt í öðru yfirskini en að taka til aðstöðumunar á milli landshluta. Þá væri orðalag laganna öðruvísi. Ég veit ekki, hvort Árnesingar yrðu verri en aðrir, ef miðla þyrfti vegna nauðsynja, en í þessu máli er grátega að farið, að segja að þeir taki frá öðrum, en þeir halda aðeins sínu og verja fénu til aukinna framkvæmda, og þessu ættu búnaðarfulltrúarnir í þessari hv. þd. ekki að vera fráhverfir. En ef semja á l. um það, að Sunnlendingar miðli vegna betri aðstöðu í landinu, þá er réttara að setja slíkt fölskvalaust inn í l., og væri þá um allt annað að ræða. Þetta virðist vaka fyrir hv. þm., en meðan Sunnlendingar ganga duldir þess, skammast ég mín ekki fyrir það að taka upp hanzkann fyrir þá. Þetta kemur úr hörðustu átt, og muna mega menn, að bóndi er bústólpi og bú er landstólpi, og varla skil ég, ef styrkur eins héraðs muni nægja öllum héruðum. Nei, Sunnlendingar forsvara sig sjálfir, og ég tek upp hanzkann fyrir þá líkt og hv. þm. Str. fyrir sína kjósendur á Ströndum og hv. 1. þm. N–M. fyrir kjósendur sína á Langanesi, og er því bezt að hvorugur lái öðrum.