14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (4436)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. talaði um leiðinlega rökvillu, og ég skal viðurkenna, að hún er frá honum. Hv. þm. heldur því fram, að bændur hafi allt vald vegna skiptingar fjárins á milli búnaðarsambandanna, en l. leggja hömlur á, hvað gert er við féð. Búnaðarsamböndin eru því ekki frjáls, og er það sannað mál, að bændur landsins hafa óskað þess, að fénu yrði ekki svo skipt, en að það yrði lagt í sjóð til framdráttar Stéttarsambandi bænda, og hins vegar hafa þeir mótmælt, að fénu væri skipt þvert ofan í óskir bænda. Það er því alls fjarri sanni, sem hv. þm. heldur fram, og ég skil ekki, að svo vitur maður, sem þessi hv. þm. er, skuli halda slíku fram.

Úr því að ég stóð upp, þá ætla ég að bæta því hér við, hvað ég haldi um bændur í Barðastrandarsýslu. Bændum var kunnugt um það í síðustu kosningum, að þm. Barð. leit líkt á þessi mál og við framsóknarmenn, og eru það því sterkar stoðir, sem renna undir mál mitt, og ég er hissa á 1. þm. Reykv., og ég vil bæta því við, að þegar ég kom inn áðan var hv. þm. Barð. að tala, og minntist hann á, að við framsóknarmenn værum kröfuharðari í þessu en aðrir. (PZ: Hann sagði að við stæðum á móti tekjuöflunum.) Nú, þá hefur þetta verið misskilningur af minni hálfu, og ég hverf þá frá þessu, en ég ætlaði mér að leggja fram fyrirspurn, en sleppi því.