22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (4460)

160. mál, vatnsveita Reykjavíkur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki draga dul á þann beyg, sem ég ber í brjósti um áhuga dómsmrh. fyrir því að knýja hitt málið fram, sem leysir bæði vatnsveituþörf Reykjavíkur og landsins alls, ef Ed. hlypi til og greiddi götu vatnsveitufrv. Reykjavíkur. Þá væri hann búinn að fá það mál, sem Reykjavík snerti, og ég er sem sagt hræddur um, að þá yrði erfitt að knýja hitt málið fram. Ég tel því heppilegast að leggja höfuðáherzlu á, að málið, sem leysir vatnsveituþörf landsins alls, komist gegnum þingið. Ég veit ekki betur en ráðh. hefi undanfarna daga gengið milli manna og lempað ágreining um stór mál, sem ríkisstj. hefur barizt fyrir breyt. á, og hafi í mörgum tilfellum haft lag á að sníða agnúana af, og ég skil ekki, að þetta mál gæti orðið honum ofvaxið, ef hann legði sig fram um það. Ég vil, því skora á ríkisstj. að beita sér fyrir hinni nauðsynlegu lausn á þörfum Reykjavíkur og landsins alls með því að sníða. agnúana af hinu frv. Reykjavík er engu meiri nauðsyn að fá þessi l. en þorpunum úti á landi. Það geta ekki verið þau ósamkomulagsatriði, að ríkisstj. geti ekki, ef hún vill, numið burtu þann ágreining með einhverjum breyt., án þess þó að misþyrma málinu um of. Ég held því, að það sé rétt leið, að ríkisstj. beiti sér fyrir því að knýja hitt málið fram, og er þá ekki þörf á lausn þessa máls.