14.02.1947
Efri deild: 73. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (4493)

167. mál, olíueinkasala

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þegar hv. flm. endaði ræðu sína, óskaði hann eftir því, að þessu máli yrði vísað til fjhn. eða sjútvn. Af því að það kom ekki beint fram, í hvora n. málið ætti að fara, vil ég fara nokkrum orðum um þetta frv., ef það skyldi ekki fara til þeirrar n., sem ég á sæti í. Þegar olíumálið var til umr. 1943, var það látið ganga til sjútvn., l. um olíugeyma, sem samþ. voru það ár, fengu þá meðferð í sjútvn. beggja d., og ég mælist til þess við forseta, að máli þessu verði vísað til sjútvn., með því að þótt það sé mikið fjárhagslegt mál, er það líka stórkostlegt sjávarútvegsmál, og verði því vísað þangað, fæ ég aðstöðu til að athuga það nánar. Einnig styðja þessa till. mína ummæli hv. flm., að hann ber þetta nú fram sérstaklega til þess að bjarga ríkissjóði frá því að þurfa að greiða miklar fjárfúlgur fyrir sjávarútveginn, eins og hann minntist á í upphafi, því að þetta mál ætti að verða til þess að forða því, að mikið tap verði á útgerðinni í ár, eftir að búið er að taka ábyrgð á aflanum. En hvort sem málið fer til sjútvn. eða fjhn., vildi ég samt fá nokkru nánari upplýsingar um þetta atriði og fá nánari skilning um gr. frv. og vildi gjarnan biðja um þær skýringar hjá flm.

Mér skilst, að samkvæmt 1. gr. frv. sé eingöngu ætlazt til, að um einkasölu sé að ræða. 1. gr. kveður skýrt á um það. 2. gr. ákveður, að þessi vara, flutt inn af ríkisstj., skuli af henni seld olíusamlögum, kaupfélögum og öðrum verzlunarfélögum, kaupmönnum, félögum bifreiðaeigenda, fyrirtækjum, sem eru einn ríkis og bæjarfélaga, og iðnaðarfyrirtækjum, en eigi öðrum. Mér skilst, að ríkið megi ekki hafa á hendi smásölu, heldur beri því að selja þessum aðilum, en þeir skulu svo annast smásöluna. En ef svo er, skil ég varla ákvæði 3. gr., og varla getur verið, að ríkissjóður eigi að leggja fé til allra þeirra stofnana, sem um getur í 1. og 2. gr., en það kemur þó berlega fram í frv., að ríkissjóður á að leggja fram fé til þessa verzlunarrekstrar. Ég skil ekki, hvernig hv. flm. geta ætlazt til, að svo sé, og ég skil varla, að þetta sé virkilega meiningin.

Þá er sagt í 7. gr., að leggja skuli 10–40% á olíuvörur í heildsölu. Mér er það óskiljanlegt, hvernig þetta geti lækkað olíuverðið. Að vísu er sagt í 9. gr., að ef einhver ágóði verður af rekstri olíueinkasölunnar, þá skuli sá tekjuafgangur notaður til þess að lækka verðlag á þeim vörum, sem olíueinkasalan verzlar með, á sama ári eða því næsta. Ég vil benda á það, að menn, sem stjórna hverju sinni, hafa ekkert um það að segja, hvað gert er við tekjuafganginn, en þau ákvæði 7. gr., að leggja megi á 10–40%, eru fullkomlega skýr.

Í sambandi við þetta vil ég minna á umr. á Alþ. árið 1943 um olíumálin yfirleitt. Þá var því haldið fram, að ríkið ætti að taka að sér olíusöluna, og þá var komið með sama dæmi og nú, að hægt væri þá að selja olíuna með miklu lægra verði til útvegsmanna, og sýndi það reynsla áranna 1942–43. En hvernig var þessi verðlækkun til komin? Þegar farið var að athuga málið, kom það í ljós, að hún stafaði af því, að olían var keypt af birgðum ameríska hersins í Hvalfirði og flutt til Siglufjarðar í geymslur síldarverksmiðja ríkisins þar, en með þessu var komizt hjá öllum þeim kostnaði, sem af geymslu og afhendingu olíunnar leiðir. Síðar var það beinlínis upplýst af Jóni Gunnarssyni forstjóra, að hann vildi fá 40 kr. meira fyrir tonnið til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af olíusölunni leiddi, og þegar farið var að reikna verðið út á ný, þá kom það í ljós, að það var ekkert lægra almennt á landinu, og nákvæmlega sama máli gegndi um olíu, sem seld var í Hvalfirði. Það kom og í ljós, að olíuverðið yfirleitt var hærra en það þurfti að vera, og upplýstist, að það stafaði m.a. af því miðlunarverði, sem viðskiptaráð ákvað, að ætti að vera, hvort heldur selt væri af tunnum eða geymum. Þetta opnaði augu manna fyrir því, að nauðsyn bæri til þess að koma upp geymum, og skildi ríkið hlaupa undir bagga við að hrinda því í framkvæmd. M.a. var ákveðið, að byggðir skyldu geymar, sem tækju allt að 40 tonnum, og skyldu lagðar fram í því skyni 60 þús. kr., en það reyndist allt of lítið, og allar áætlanir í þessu efni fóru um koll. Ég hygg, að tvennt sé mest áríðandi í þessu máli. Annað það að hefja sókn til þess að lækka olíuverðið, en hitt að stefna að því, að olíuverzlunin sé á innlendri hendi.

Olíuverðið hvílir á fjórum meginatriðum. Í fyrsta lagi er það grunnverðið, en það er undirorpið áhrifum alheimsolíuhringanna. Það er ljóst, að Shell, B.P. og yfirleitt önnur olíufélög geta alveg ráðið grunnverðinu, svo lengi, sem ekki er hægt að fara út fyrir þessa hringa um innkaup. Ef hægt er fyrir ríki eða einstaklinga að fara út fyrir þessa hringa, þá má lækka verðið, ef þá er mögulegt að fá olíuna ódýrari annars staðar. Í öðru lagi er það flutningskostnaðurinn, og er hann ekki minna atriði. Hann fer mjög eftir því, á hve stórum farkosti flutt er. Í sambandi við þetta vil ég benda á það, að árið 1939 — heldur en 1938 — var gerð tilraun um innkaup á olíu af ríkisins hálfu, en sú tilraun mistókst svo hrapallega, og olíuverð hefði stórhækkað við þær ráðstafanir, ef samningum hefði ekki verið rift. Slíkt er alveg pósitívt dæmi og ekki til að ýta undir menn að fá verzlunina einum aðila í hendur. Í þriðja lagi er það dreifingarkostnaðurinn. Ef hægt væri að nota geymana í Hvalfirði, þá mætti spara mikinn stofnkostnað við olíugeymana. Ég hygg, að það sé áhugamál a.m.k. flestra útgerðanna að hafa hér í Reykjavík olíugeyma, svo að ekki þurfi fyrst að flytja olíuna til Hvalfjarðar og síðan til Reykjavíkur. Það er þess vegna, að útgerðarmenn eru að hugsa um að koma upp olíugeymum hér í Reykjavík til þess að minnka kostnaðinn. Ef geymarnir verða í Hvalfirði, verða skipin annaðhvort að tefja sig við að fara fyrst til Hvalfjarðar eftir olíunni, eða þá að hafa verður hér geyma til að flytja olíuna úr Hvalfjarðargeymunum í. Komið hefur til mála, að B.P., Shell og önnur olíufélög, sem hér verzla, byggi ásamt togaraeigendum geyma, sem jafnvel 16 þús. tonna skip gætu losað í. Þau rök, að betra sé að hafa þetta á einni hendi, falla við allt þetta í burtu. Olíuverðið úti á landi fer mjög eftir dreifingarkostnaði, og er það mikið spursmál, að strandferðabátar og skip flytji olíuna fyrir sem lægst verð. Auðvitað verður að umskipa olíunni hér, og bátarnir þyrftu að vera þannig útbúnir, að þeir gætu skipað olíunni upp úti á landi í geyma, sem þar væru. Með tilliti til þessa sé ég ekki, að ríkið sé undir það búið að svo komnu að hafa á hendi olíuflutninga og dreifingu út um landið. Í fjórða lagi er það álagningin. Svo lengi sem því verðar trúað, að olíuhringarnir geti ráðið heildsöluverði á olíu á markaðnum, þá verður grunnverðið ekki lækkað. Ég veit ekki, nema hægt sé að komast fram hjá þessum hringum. Mér er sagt, að það sé ekki hægt, ef skipt er við olíufélög í Texas, en kannske væri það hægt með því að verzla við Rússland. En þegar heim er komið, þá er álagningin alveg komin undir úrskurði Alþ. og viðskiptaráðs á hverjum tíma.

Ég vildi hér benda á eitt atriði; sem gengið hefur verið fram hjá, en það er það, að mér skilst, að þessi olíueinkasala ætti að vera skattfrjáls. Það má kannske segja, að það komi til góða útgerðarmönnum og bæjarfélögum, en það kemur ríkinu ekki til góða, þar sem með þessu móti mundi ríkið tapa þeim tekjum, sem það hefur af frjálsri verzlun með þessar vörur.

Ég vil benda á, hvort ekki væri fróðlegt fyrir hv. flm. að kynna sér rekstur landssmiðjunnar. Hún hefur búið við sömu kjör og frjálsir iðnrekendur með 40% álagningu á alla vinnu og 5–20% á efni. Hún átti að greiða útsvar og skatta eins og önnur járniðnaðarfyrirtæki hér — en hver er svo útkoman nú? Ég held, að hún skuldi ríkissjóði á 4. hundrað þús. kr., og henni hefur hvað eftir annað verið gefið eftir af þessum gjöldum, og mér er sagt, að nú sendi hún beint upp í ríkissjóð eftir fé til þess að borga með starfsfólki sínu, en af Héðni og Hamri eru aftur teknir skattar og útsvör. Hv. flm. ætti að kynna sér þetta, áður en hann leggur til, að komið sé á fót ríkiseinkasölu með olíu.

Hv. flm. hélt því fram áðan, að nauðsynlegt væri að koma á landsverzlun með salt, kol og veiðarfæri til þess að lækka verð á þessum vörum. Mér skildist, að landsverzlun með olíu ætti að vera byrjunin og næst stæði til að koma á landsverzlun með þetta. Í sambandi við það vil ég benda á, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur sett upp verzlun með kol, salt og veiðarfæri. Þeir telja, að þetta muni lækka verðið, og við gerum okkur von um, að þessu verði þannig stjórnað, að verðið verði lægra en hjá ríkisfyrirtæki. En um það, hvernig þetta mundi fara úr hendi hjá landsverzlun, nægir að minna á gömlu landsverzlunina og gömlu olíuverzlunina.

Það er sláandi dæmi, síðan lög voru sett um aðstoð ríkisins við byggingu olíugeyma, hversu fáir hafa notfært sér þetta, og mér er ekki kunnugt um, að olíuverð sé vitund lægra á þeim stöðum, þar sem þessir geymar hafa verið byggðir með aðstoð ríkisins, heldur en annars staðar, og samt er þetta undanþegið sköttum og útsvari. Þá minntist hv. flm. á verðið á smurningsolíu til þess að benda á þann mun, sem væri á verzlun ríkisins og einstaklinga. Það vill svo til, að mér er sérlega kunnugt um þetta. Nokkrir menn tóku sig saman um að kaupa birgðir af smurningsolíu. Með efnagreiningu hefur ekki verið hægt að greina nokkurn mun á þessum tveim tegundum, annars vegar þeirri tegund, sem olíufélögin selja út, og hins vegar þeirri, sem þessir menn selja, en sú olía er seld lægra verði en sú hjá olíufélög. unum. Þessar tegundir eru samt ekki sambærilegar, hvað gæði snertir, og árangurinn af ódýrari olíunni miklum mun lakari en svarar til verðmismunarins. Smurningsolíukostnaður er svo tiltölulega lítill hluti af rekstrarkostnaði útgerðarinnar, að menn vilja heldur kaupa betri smurningsolíu, þó að hún sé nokkru dýrari.

Ég skal svo ekki frekar ræða málið á þessu stigi, en vil, að tekið verði höndum saman við hvern þann aðila, sem á skynsamlegan hátt vill stuðla að lágu olíuverði, og veit ég, hvaða þýðingu slíkt mundi hafa fyrir útgerðina og almenning. Ég vil hins vegar, áður en svo stórt skref er tekið, eins og hér er ætlazt til, að rannsökuð verði öll atriði málsins, en það ekki barið fram í blindni, til þess að þannig verði hægt að bæta úr því, sem auðsjáanlega er hægt að bæta úr fljótt og með litlum kostnaði í því skyni að færa olíuverð niður. Það er síður en svo ótímabært að taka þetta mál upp, og vil ég vænta þess, að árangur af þessum umr. verði sá, að hægt verði að finna heppilega leið til lækkaðs olíuverðs.