18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (4495)

167. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. — Þær umr., sem fóru hér fram, síðast þegar málið var til umr., fyrst við 1. umr., þóttu mér dálítið með sérkennilegum hætti. Flest af því, sem ég upplýsti viðvíkjandi málinu, var reyndar viðurkennt af þeim, sem þátt tóku í umr. En samt var látið svo, sem það orkaði mjög tvímælis, að breytt fyrirkomulag á olíuverzluninni yrði til bóta eða að nokkuð ynnist við þá breyt. — Hv. 1. þm. Reykv. talaði allmikið um málið og gerði aðallega að umræðuefni þau þrjú meginatriði, hvort það mundi rétt vera, að erlendir aðilar réðu meira eða minna yfir olíuverzluninni hér á landi nú, hvort fjárfesting yrði óeðlilega mikil, ef tekin yrði hér upp olíueinkasala, og hvort verðlag mundi lækka á olíunni, ef einkasölufyrirkomulagi væri á komið.

Það er rétt, að þetta eru meginatriði í þessu máli. Viðvíkjandi fyrsta atriðinu, hvort það sé rétt, að erlendir aðilar hafi mikil ítök hér um olíuverzlunina, komst hv. 1. þm. Reykv. að þeirri niðurstöðu — eins og ég hafði haldið fram —, að helmingur af hlutabréfum h/f Shell á Íslandi væri í eigu erlendra manna, og staðfesti hann líka, að ekki hefði þó sannazt, að hinn hluti hlutabréfanna væri ekki í eigu erlendra manna. Þannig er þá óumdeilanlegt, að helmingur hlutabréfanna hjá h/f Shell á Íslandi er í eigu erlendra manna, og ekki sannað, að hinn hlutinn sé það ekki einnig. Að því er Olíuverzlun Íslands snertir, þá er það upplýst, að Olíuverzlun Íslands sjálf er íslenzkur aðili, en allt það dreifikerfi, sem Olíuverzlun Íslands notar í sambandi við verzlun sína, sé í eigu erlends aðila, British Petroleum. Og ég lýsti því, að það væru erlendir aðilar, sem ættu allt þetta kerfi, sem starfsemi þessa olíufélags byggist á, og að segja mætti því, að þetta félag lyti erlendum yfirráðum. Þess vegna sagði ég, að allt að því 4/5 hlutar af olíuversluninni, eins og hún er nú, væru undir erlendum yfirráðum. — Hv. 1. þm. Reykv. viðurkenndi, að það væri metnaðarmál Íslendinga að gera þessa verzlun íslenzka. Með því viðurkenndi hann, að hún væri ekki íslenzk, en taldi æskilegt, að hún væri það. Ég fullyrði, að það er miklu meira en metnaðarmál fyrir Íslendinga, að þessi verzlun verði innlend. Ég fullyrði, að það sé hreint og beint sjálfstæðismál. Skal ég rökstyðja það með því, að hér er um að ræða einn meginþátt íslenzkrar verzlunar, þann þátt, sem höfuðatvinnuvegur íslenzku þjóðarinnar á svo mikið undir, að sé ekki í höndum erlendra aðila, að hér er bókstaflega háski á ferðum, ef erlendur húsbóndi t.d. á að vera yfir þessari verzlun, sem sjávarútvegurinn á svo gífurlega mikið undir. Mér finnst það a.m.k. alveg óþolandi að hugsa til þess, að þessi þáttur íslenzks verzlunarlífs sé að meira eða minna leyti undir erlendum yfirráðum, yfirráðum svo sterks aðila, sem hæglega getur orðið íslenzkum valdhöfum erfiður við að eiga, ef þar slægi í brýnu á milli.

Ein af staðhæfingum hv. 1. þm. Reykv. var sú, að við gætum nú ekki búizt við því, að verð á olíum hér yrði nokkurn tíma sambærilegt við verð á olíum hjá stærri þjóðum, t.d. Norðmönnum, þar yrðum við að gjalda smæðar okkar. — Ég er ekki viss um, að þetta þyrfti svo að vera, ef öll íslenzka olíuverzlunin væri á hendi eins aðila, sem gerði innkaup á allri olíu, sem við þurfum á að halda, á einu bretti. Það er talið, að það væri nokkurn veginn búið að koma kostnaðinum við flutning á olíuvörum til landsins niður í það lægsta, sem geti verið, ef þessir flutningar færu fram í 8–16 þús. smálesta tankskipum. Og hvað er í veginum fyrir því, að við framkvæmum innflutning á olíuvörum okkar í slíkum skipum, þar sem ársnotkun okkar á olíu er 52 þús. smálestir — fjórir skipsfarmar á 13 þús. smálesta skipi? En til þess að geta tekið við farmi úr slíku skipi þyrfti svo að vera heildarsölukerfi með allstórum tönkum, og væri auðvitað ekki nema sjálfsagt, ef ríkið hefði þessa verzlun með höndum, að það kæmi upp slíkum birgðastöðvum. Ég get ekki ímyndað mér annað en að við gætum þarna haft beztu aðstöðu, þannig að við þyrftum ekki að lúta neinum slæmum kjörum þess smáa, ef þessi verzlun væri á einni hendi. Þá værum við orðnir einn stór viðskiptaaðili: En ef þessi verzlun er á höndum 4 eða 5 aðila, þá gæti ég trúað, að við færum að gjalda smæðar okkar og að aðflutningar á olíuvörum gætu þá orðið óhæfilega dýrir, þegar olían væri flutt með smáum tankskipum til landsins. — Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að við þurfum að eiga stórt tankskip til aðflutninganna á olíuvörum okkar og enn fremur að eiga smærra tankskip til flutninga á olíuvörunum til verstöðvanna kringum landið. Og það skip, líklega nokkurn veginn nothæft, á nú íslenzka ríkið, þar sem það hefur keypt það með Hvalfjarðareignunum. En aftur á móti á íslenzka ríkið ekki olíugeymakerfi kringum landið. — Það á aðeins birgðastöð, sem mundi vera nothæf til að byrja með, í Hvalfirði, en ekki olíusölutækjakerfi kringum landið. Það á nú erlendur aðili, British Petroleum, og h/f Shell, sem við skulum segja, að sé að hálfu leyti íslenzkur og að hálfu leyti erlendur aðili. — Ég held, að það sé einmitt nú rétta augnablikið til þess, að íslenzka ríkið taki einkasölu á steinolíu. Nú hagar þannig til, að í Bretlandi er jafnaðarmannastjórn við völd, stjórn, sem hefur þjóðnýtingu og stórkostlegan ríkisrekstur á stefnuskrá sinni, hefur þjóðnýtt kolanámurnar brezku, og ekki er ólíklegt, að næsta skrefið hjá brezku ríkisstj. verði að þjóðnýta annan atvinnurekstur, svo sem þungaiðnaðinn þar í landi. Þess vegna yrði af Bretum litið á ríkisrekstur hjá okkur á olíuvörum kannske nokkuð öðrum augum nú, þegar þannig stendur á í þeirra atvinnuháttum, hvað ríkisrekstur snertir, heldur en oft hefði verið litið á slíkt í Bretlandi.

Hins vegar er það, sem er aðalatriði í þessu máli, sem hv. 1. þm. Reykv., fyrrv. hæstv. fjmrh., eðlilega spurði um. Getur ríkissjóður snarað út því fé, sem til þess þarf að taka þessar eignir eignarnámi? Ég hygg, að þjóðin hafi aldrei verið betur fjáð en nú. Þær eignir, sem hér er um að ræða, hljóta að hækka í verði ár frá ári, ef þær eru ekki teknar nú, verða sífellt meiri. Ef þær eru ofjarl ríkisins nú eftir ágæta fjármálastjórn hæstv. fyrrv. ríkisstj. og ágætt árferði, þá má slá því föstu, að það yrði íslenzka ríkinu ofjarl að kaupa þessar eignir, þegar þessar eignir verða miklu meira bákn, og kannske verður þá verri fjárhagsaðstaða hjá ríkinu.

Þá ræddi hv. 1. þm. Reykv. nokkuð um þá fjárfestingu, sem ég fullyrti, að hlyti að leiða af því, ef ríkið tæki þessi mál í sínar hendur undir einkasölufyrirkomulagi. Þessi hv. þm. sagði, að tankakerfinu, sem nú er til í kringum landið, væri komið upp í samráði við ríkisstj., og hann taldi, að ekki væri víst, að það þyrfti svo mikil fjárfesting að eiga sér stað, þó að ríkið tæki ekki einkasöluna í sínar hendur. Það væri hugsanlegt, að íslenzkir aðilar fengju samkomulag um það við erlendu félögin að fá að byggja tanka á smástöðunum, þar sem h/f Shell og British Petroleum hafa ekki talið það borga sig. (PM: Þetta hef ég ekki sagt.) Það getur verið, að það verði talið eðlilegt, að við Íslendingar byggjum upp í skörðin í þessu efni og byggjum geyma á smæstu stöðunum, þar sem erlendu félögin hafa ekki talið það borga sig. Ég tel óviðunandi að hugsa til þess, að íslenzkir aðilar sætti sig við slíkt. En með þessu móti væri þó óhjákvæmilegt að festa fé í þessum tækjum allt í kringum landið. — Það, sem ríkið þyrfti að gera í þessu efni, er að fá eignarrétt á þeim tönkum, sem fyrir eru í landinu, og drepa svo í þau skörð, þar sem þessa tanka vantar, — og ríkið þyrfti ekki að festa annað fé en sem til þess færi, ef það tæki þessa verzlun í sínar hendur.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að ég hefði slegið niður mín eigin rök, þegar ég hefði talað um þá gífurlegu aukningu á olíusölunni, sem orðið hefði undanfarið. En þar sem upplýst var, að sú sala hefur meir en tvöfaldazt á síðustu 6 árum, þá held ég, að það sé síður en svo, að ég hafi slegið niður mín eigin rök, því að því meiri aukning sem er hér á verzlun með þessar olíuvörur, því meira er í húfi fyrir íslenzku þjóðina, að þessi verzlun sé rekin eftir hagkvæmu heildarkerfi. Nú blasa málin þannig við, að ef ekki verður komið á einkasölu í þessari grein með eins einföldu tankakerfi kringum allt landið og kostur er á, þá eru allar líkur til þess, að það verði 4 til 5 aðilar, sem allir heimta rétt til þess að búa um sig sem allra bezt til þess að koma sér fyrir með þessa verzlun og mundu svo allir vilja koma upp hver fyrir sig heilsteyptu tankakerfi kringum landið, h/f Shell, British Petroleum, jafnvel Nafta, Olíufélagið h/f og togaraeigendur, sem hafa komið fram með sínar óskir um að fá að hafa olíuverzlun. Ég sé ekki, að það sé hægt að neita þessum innlendu aðilum um það að koma upp tönkum fyrir sig, ef ríkið tekur ekki olíuverzlunina í sínar hendur, því að ef þeim væri neitað um þetta, þá væri þeim gert mun lægra undir höfði en þeim erlendum aðilum, sem búnir eru hér á landi að búa um sig á undanförnum árum, einmitt í samráði við ríkisstj., eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur upplýst í þessum umr. Mér skilst, að það sé ekki mjög vel hægt að hnekkja því, að hér verði um að ræða, ef ekki verður tekin upp ríkiseinkasala á olíuvörum, gífurlega fjárfestingu, sem jafnvel skipti milljónatugum, ef margir aðilar hafa hér á landi olíuverzlunina með höndum, því að það er ekki hægt nema með allmiklum kostnaði að koma upp tankakerfi um landið, ef sæmileg aðstaða á að fást til olíusölunnar.

Þriðja atriðið, sem hv. 1. þm. Reykv. ræddi um, var, að hann dró í efa, að nokkur veruleg lækkun fengist á olíuverðinu, þó að sú breyt. væri á gerð, að ríkið tæki í sínar hendur einkasölu á olíuvörum. Ég hygg þó, að það dyljist ekki fjármálamanninum, hv. 1. þm. Reykv., að verði olíuverzlunin áfram í höndum 4 eða 5 aðila hér á landi, sem allir hafi sitt sérstaka starfslið, sínar sérstöku skrifstofur, sínar sérstöku afgreiðslur, lagerpláss og tankskip og sína olíugeyma starfrækta úti um allt land — á smástöðunum væru þannig 2–4 afgreiðslumenn, þar sem í mörgum tilfellum væri þó ekki meira verk að afgreiða alla olíu en einn maður gæti annazt — ég hygg, að fjármálamanninum, hv. 1. þm. Reykv. og fyrrv. hæstv. fjmrh., dyljist það ekki, að það hlýtur að verða stórkostlega miklu dýrara að reka verzlun með olíuvörur handa atvinnuvegum landsmanna með því að reka þá verzlun á 4 eða 5 höndum en ef þetta allt væri undir einum hatti rekið af ríkinu sjálfu. Þegar svo vitað er, að hver þessara aðila, ef margir rækju þessa verzlun, en ekki ríkið, mundi verða að sæta óhagstæðari kjörum með því að flytja olíuna á smærri tankskipum og ef til vill gera óhagstæðari innkaup í verði, af því að það er ekki nema hluti af olíuþörf landsmanna, sem hver þessara aðila fyrir sig mundi flytja inn, en svo þyrfti auðvitað hver að taka álagningargróða af vörunum — en ríkið ætti að reka ágóðalausa einkasölu á olíu, ef það tæki þá verzlun að sér —, þá hygg ég, að það sé ekki hægt um það að deila, því að allt þetta hlýtur að leggjast á vörurnar, að verðið á olíuvörunum hlýtur að verða óhæfilega og óþarflega hátt, ef verzlun með þessar vörur er rekin af mörgum aðilum, kannske 5 aðilum. Og það hlýtur að vera frámunalega illa rekin ríkiseinkasala á olíuvörum, ef hún skilar ekki miklu lægra verði á þessum vörum en ef sölukerfið með þessar vörur er fimmfalt kringum allt landið.

Í sambandi við olíuverðið gat hv. 1. þm. Reykv. þess, að olíukaupin væri hverfandi útgjaldaliður hjá útgerðinni, samanborið við t.d. beitusíldarkostnaðinn. Þessi hv. þm. taldi, að olíukostnaðurinn væri fyrir útgerðina ekki nema einn sjötti hluti á móts við beitukostnaðinn. Ég hygg, að sú tala sé fulllágt sett um olíukostnaðinn. Ég hygg, að olíukostnaðurinn að meðtalinni smurningsolíu muni vera hlutfallslega stærri kostnaðarliður, miðað við beitukostnaðinn, en það. En beitukostnaðurinn er vitanlega gífurlega mikill hjá útgerðinni, með því líka, að okrað hefur verið á beitu til bátaútvegsins. Það hefur nú um langan tíma verið af frystihúsunum okrað á beitunni handa vélbátaflotanum. Ég er þeim málum mjög vel kunnugur.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi æskilegt að fá upplýsingar um það, hversu mikið fé mundi til þess þurfa að taka eignir olíufélaganna og til þess að kaupa tankskip og þess konar, sem nauðsynlegt væri, eða um kostnaðinn yfirleitt við að koma olíueinkasölu á fót hér. Ég játa, að ég hef ekki látið gera kostnaðaráætlun yfir þetta, og ég efast um, að nú væri hægt að gera slíka áætlun svo, að á henni væri byggjandi. En ég tel það auðsætt mál, að við ættum að vera vel undir það búnir nú að gera þetta átak að taka verzlun þessa á hendur ríkisins, bæði vegna þess góðæris, sem verið hefur hér á landi undanfarin ár, og þess fjárflóðs, sem yfir þetta. land hefur gengið, og svo enn fremur vegna þess, að það er alveg vitað, að með þeirri gífurlegu aukningu á olíunotkun á þessu landi, þá verður hér um stórkostlega aukningu á mannvirkjum að ræða á næstu árum í sambandi við sölu og dreifingu olíuvara, og því enn erfiðara viðfangs að gera það síðar að taka þessar eignir af ríkisins hálfu. Það verður því áreiðanlega ekki eftir betra að bíða í þessu efni, ef ekki verður nú komið á ríkiseinkasölu með olíuvörur hér á landi. Ég geri varla ráð fyrir, að það þyrfti heldur að snara þessu fjármagni út öllu í einu af ríkisins hálfu. Ef ríkið tæki þetta að sér, mundi það verða að gera það með samningum og með ríkisskuldabréfum á ef til vill nokkrum tugum ára.

Ég vil því heldur spyrja að því: Getur ríkið dregið þetta? Er það forsvaranlegt að draga það lengur og láta þennan þátt íslenzkrar verzlunar vera lengur en orðið er að meira eða minna leyti undir áhrifavaldi erlendra auðhringa? Mér finnst ekki gerlegt að draga það, af því að það er ekki aðeins metnaðarmál — ekki hreint metnaðarmál —, að við höfum þessa verzlun ekki í höndum útlendra aðila, heldur er þetta einnig sjálfstæðismál okkar Íslendinga, að verzlun með þessar vörur verði innlend. Menn hafa nú talað um það árum saman, að við Íslendingar höfum unnið þann sigur að gera íslenzka verzlun innlenda. En þetta tel ég ofmælt, meðan við horfum á, að allsterk erlend yfirráð eru ennþá yfir þessum þætti verzlunarlífsins hér á landi, þess þáttar, sem meir en flest önnur verzlun grípur inn í velferð höfuðatvinnuvegar Íslendinga, sjávarútvegsins. Ég vil gera mér vonir um það, að hv 1. þm. Reykv., sem lítur á þetta sem metnaðarmál, telji nokkuð brýna nauðsyn bera til þess að fullnægja þeim metnaði Íslendinga að gera þennan þátt verzlunarinnar innlendan. Annar hv. þm., sem ræddi þetta mál, sagðist taka í höndina á hverjum þeim, sem vildi gera ráðstafanir til þess, að sem hagkvæmast olíuverð fengist. Ég vil líka vænta þess, að þar sé góðs liðsinnis að vænta. Og ef allir þeir, sem líta á þetta sem metnaðarmál íslenzku þjóðarinnar og líka sjálfstæðismál hennar, hafa líka fullan vilja til þess að tryggja sem bezt olíuverðið, held ég, að mætti treysta því, að þetta mál fengi sína réttu lausn, því að það er til þess tvenns, að gera olíuverzlunina innlenda og tryggja sem bezt olíuverð við allt íslenzkt atvinnulíf, og sérstaklega er það vegna sjávarútvegsins, að þetta frv. er fram borið.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en finnst þetta mál, eins og það liggur fyrir, þar sem um er að ræða að taka eignarnámi stórkostlegar eignir og koma upp umfangsmiklum verzlunarrekstri, vera fyrst og fremst í eðli sínu fjárhagsmál á þessu stigi. Í öðru lagi er verið að tryggja sem hagkvæmast verð á olíunni, sem að mestu leyti er í þágu útgerðarinnar, en einnig íslenzks iðnaðar, og fyrst og fremst lít ég á þetta sem fjárhagsmál og legg því ákveðið til, að málinu verði vísað til fjhn.