20.02.1947
Efri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (4497)

167. mál, olíueinkasala

Pétur Magnússon:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths., sem ég vildi gera út af ræðu hv. flm., og sérstaklega vildi ég leiðrétta missögn út af því, sem hann sagði, að ég hefði haldið fram, þegar mál þetta var fyrst hér til umr. Hv. þm. hefur haldið því fram frá öndverðu, að allmikill hluti — hann talaði um 4/5 — olíufélaganna væri undir erlendum yfirráðum. Það er síður en svo, að ég hafi kannazt við, að svo væri. Það, sem ég hef sagt, er, að mikill hluti af fjármagni eins stórs olíufélags væri í eign erlendra manna, en hins vegar ekki, að það væri undir erlendum yfirráðum. Þm. veit, að stjórn félagsins er innlend og innlendir menn ráða í félaginu. Hitt játa ég, að fjármagnið er ekki í eigu innlendra manna, og er ég þeirrar skoðunar, að æskilegt væri, að fjármagnið kæmist í innlendra manna hendur, en hins vegar á það ekki að skipta máli, þar sem stjórnin er einvörðungu í höndum innlendra manna.

Það er heldur ekki rétt hjá hv. þm., að ég hafi sagt, að olíuverð gæti aldrei orðið sambærilegt hjá okkur og Norðurlandaþjóðunum. Ég sagði, að við mættum ekki búast við því, að við gætum náð sama verði og þjóðir, sem kaupa í stórum stíl, og skiptir ekki máli, hvort það er á einu bretti. Flm. sagði, að hagkvæmt væri að flytja inn á skipum, sem lestuðu allt að 16 þús. smálestir. Ég er ekki dómbær á þetta, en efast um, að það væri heppilegt. Ég efast um, að vaxtatapið af því að flytja inn í svona stórum stíl mundi nema minna en sá sparnaður, sem væri að því að flytja inn á svona skipi til móts við skip, sem lestaði 8–10 þús. tonn. Ég held ekki, að ég hafi haldið því fram, að nauðsynlegt væri fyrir okkur að eiga skip til þess að annast flutninga til landsins. Þetta er náttúrlega mál, sem þarf meiri athugunar en við flm. getum lagt í það. Hitt er nauðsynlegt, að eiga skip til þess að annast dreifinguna innanlands, til þess að koma olíunni á þá staði, sem hún þarf að vera á á hverjum tíma. Hitt er fjárhagsatriði, hvort það borgar sig betur að eiga tankskip til þessa. Ég efast um, að eins og okkar siglingum er háttað nú, sé hagkvæmara að kaupa skip til þessa en að semja við erlend leiguskip. Aðalröksemdin, sem kom fram í ræðu hv. þm. — og hann hafði algerlega rangt eftir mér —, var um það, hvað ég hefði sagt í fyrsta skipti, sem ég talaði um þetta mál, þegar hann sagði, að ég hefði fullyrt, að ekki væri óhugsanlegt samkomulag um það, að nýja olíufélagið kæmi upp tönkum á þeim smástöðum, þar sem hin olíufélögin hefðu ekki séð sér fært að koma upp tönkum. Þetta er vitanlega rangt. Það, sem ég sagði, var, að eins og hv. flm. benti á, mætti búast við aukinni olíusölu á næstu árum, þar sem aukin útgerð væri í vændum. Þessi aukna olíusala mundi valda því, að nýir geymar yrðu settir upp, og mundi nýja félagið koma þeim þar fyrir, sem nauðsyn væri. Þetta er annað en að setja tanka þar, sem hinum félögunum hefur ekki þótt svara kostnaði. En á stærri stöðunum, svo sem Vestmannaeyjum og Ísafirði, og þar sem um aukna sölu er að ræða, sýnist, að heilbrigð samkeppni gæti hafizt. Ef það er rétt, sem hv. flm. sagði, að náið samstarf væri milli gömlu félaganna, gæti verið hagkvæmt, að eðlileg samkeppni myndaðist á þessum stöðum. Hv. flm. sagði í síðustu ræðu, að verðið gæti lækkað, og benti hann á, að starfsmenn væru fleiri nú en þyrfti og geymar fleiri en ef salan væri á einni hendi. Ég veit ekki, á hverju hann byggir þetta. Það er alls ekki víst, að færri starfsmenn þurfi, þó að salan sé á einni hendi, og verður því ekki slegið föstu fyrir fram. Hitt er ljóst, að ef salan væri á einni hendi, þá er samkeppni horfin og færri menn, sem leggja fram starfskrafta sína, þekkingu og reynslu til að gera sem bezt innkaup, og hætt er við, að mistök gætu orðið hjá þessari einkasölu eins og öðrum einkasölum. Má alltaf gera ráð fyrir slíku. En oft hefur verið bent á, að mistök eru því hættulegri, því stærra sem fyrirtækið er. Það er nokkuð langsótt hjá hv. flm. að vera að tala um, að það sé sjálfstæðismál okkar, að allt féð sé á íslenzkri hendi, því að upplýst er, að langmestur hluti þess er innlendur, og hv. flm. játar, að olíukostnaður hjá sjávarútveginum sé aðeins örlítið brot af útgerðarkostnaðinum, og er þá mjög hæpið hjá hv. flm., að sjávarútvegurinn standi og falli með olíuverðinu. Ég skal svo ekki tefja þetta frekar. Sjálfsagt er, að málið gangi til n.