20.02.1947
Efri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (4498)

167. mál, olíueinkasala

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. flm. fagnaði því síðast, þegar þetta mál var til umr., að ég hefði lýst fylgi mínu við hvern, sem vildi stuðla að lækkun olíuverðs, og dró svo þá ályktun, að ég mundi fylgja þessu frv. Ég vildi minna hv. flm. á, að ég gerði veigamikla athugasemd, sem hann hefur gengið fram hjá að svara. Ég tel það meginatriði, að hægt sé að tryggja grunnverð olíunnar sem lægst og einnig að tryggja flutningskostnað sem lægstan, en um þessi atriði er ekkert orð í frv., heldur aðeins traust til ríkisstj. á hverjum tíma, að hún nái hagkvæmum kjörum. Þarna er ég á annarri skoðun, og nefndi ég dæmi til sönnunar máli mínu. Auk þess langar mig til að fá upplýsingar um 1. og 2. gr. frv., einkum ef málið fer til sjútvn., en ekki til fjhn., og það, hvort flm. hugsar sér, að ríkið flytji aðeins inn olíu og hafi á hendi heildsölu. Það bendir 1. gr. á. Í 2. gr. segir, að einkasalan selji síðan til samlaga og verzlunarfélaga. Ef þetta er rétt, þá er salan ekki á einni hendi. Þá er heldur ekki tryggt, að ekki þurfi jafnmarga starfsmenn, og þá geta komið samkeppnisfélög á hverjum stað. Ef hins vegar einkasalan hefur á hendi alla smásölu, þá mætti kannske skipuleggja þetta betur, en þá skilst mér, að 2. gr. þurfi að breytast gersamlega. Sé hér aðeins um heildsölu að ræða, verður 1. mgr. 3. gr. að breytast, því að ekki er hægt að leggja fé úr ríkissjóði til verzlunar, sem rekin væri af öðrum. Ríkið ætti þá að útvega verzlunum nægilegt rekstrarfé til að reka smásöluverzlun á olíu. Þetta vildi ég fá upplýst, áður en ég tek afstöðu til málsins og áður en það fer í n. Ég vildi svo að gefnu tilefni frá hv. flm. mótmæla fullyrðingu hans frá í gær, að það hafi verið óhóflegur gróði hjá frystihúsunum og að þau hafi okrað á beitu til útvegsins. Ef hann hefur kynnt sér þetta mál, þá veit hann, að frystihúsin eru undir ströngu verðlagseftirliti, mati um gæði, frystingu og hámarksálagningu. Hann veit líka, að til eru tvenns konar aðferðir við sölu á beitu, önnur er að selja við kostnaðarverði og taka áhættu, ef beitan selst ekki. Þessi áhætta hefur stundum orðið tugir þúsunda, og hefur þá verðlagseftirlitið orðið að taka tillit til þess og bæta það upp. En hafi beitan selzt upp, þá er það hagur, annars stórkostlegt tap. Þetta er ekki okur, en ósæmandi af þm. að kasta slíku fram.