18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Eiríkur Einarsson:

Ég hef að vísu skrifað undir nál. með fyrirvara, en þessi fyrirvari minn er ekki byggður á neinum verulegum ágreiningi við meðnm. mína um meðferð málsins. Það var öllu fremur hitt, sem fyrir mér vakti, að það er vitað, að þetta mál var mikið rætt í Nd. og nm. þar lögðu nokkuð að sér til þess að komast að samkomulagi. Auðvitað eru þetta ekki rök fyrir því, að ekki megi breyta einhverju í síðari d., ef eitthvað mætti betur fara, og á þá auðvitað að ræða það, en ekki fara eftir því hvað hafi orðið að samkomulagi í hinni d. Margt af því. sem hér kemur til greina á þskj. 407, kann að vera álitamál, en ég hygg þó, að margar af þeim brtt. séu til bóta. Það var eitt atriði, sem helzt kæmi til álita, þ.e. 15. brtt., hvenær framlag ríkisins skuli greitt. Það eru til þm., sem hafa lagt nokkurt kapp á það, að þetta verði greitt haustið eftir, að nýr fjárstofn er keyptur, en ekki haustið fyrir, og geta báðar málsástæður haft nokkuð til síns máls, en ég skal ekki rökræða það. En hitt er það, að menn, sem komast í þann krappa dans, sem þessar pestir valda, þeir þurfa mikillar aðstoðar við, enda er hér lagt til að verða þeim frekar til hagkvæmni, heldur en það gagnstæða.

Ég vil svo láta máli mínu lokið, og ég hef viljað láta skina í gegn, að fyrirvari minn var eingöngu gerður í því skyni, að ég hefði óbundnar hendur um að flytja brtt., ef mér svo sýndist, og þá ekki sízt varðandi 15. gr., er ég lít á með sérstökum hætti.