21.02.1947
Efri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (4503)

167. mál, olíueinkasala

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig undrar það ekki, þó að frv. eins og þetta mæti mótspyrnu hér í þessari d. Það eru nú nokkuð mörg ár síðan byrjað var að reka bæjarútgerð í Hafnarfirði. Þá heyrðist ýmislegt misjafnt um það fyrirtæki hjá þeim mönnum í Reykjavík, sem nú standa mest á móti því, að ríkið fari að sjá um olíusölu. En það eru fáir dagar síðan menn héldu sigurhátíð yfir, að nú væri byrjað á bæjarútgerð í Reykjavík. Það mun hafa þurft nokkur ár eða áratugi, til að þeir vitkuðust og sæju, hvað rétt væri í þessu efni. Og það var ekki nóg með það, heldur voru þeir svo hrifnir af hugsjóninni, að þeir fundu ástæðu til að halda sérstaka hátíð, þegar þeir byrjuðu þessa nýju stefnu, að reka togara fyrir reikning bæjarins. Ég held, að það verði eins hér. Það tekur kannske áratug, þar til þeir vitkast, þar til þeir halda sigurhátíð, þegar fyrsta skipið, sem ríkið á, kemur hingað til að flytja olíu til landsins og dreifa henni um landið, kannske þeir haldi enn þá atærri hátíð þá en þeir héldu nú. Þetta mál ætti að vera öllum augljóst, sem hugsa um það, hversu heimskulegt er að leggja í þann kostnað, sem því er samfara, að mörg olíufélög séu að byggja geyma víðs vegar um land til að dreifa olíunni í staðinn fyrir eitt. Þetta er svo augljóst mál, að ég held, að engum geti blandazt hugur um. Og þó að það sé vitnað í eitthvert fyrirtæki, sem ríkið hefur rekið, eins og hv. þm. Barð. mun hafa gert hér, og það hafi gengið misjafnlega vel, þá má hann eins vel vitna í það, að um margra ára skeið hafa hvergi í heiminum verið ódýrari útvarpsviðtæki en hér á landi, og reyna ætti hann að gera sér ljóst, af hverju það stafar. Það er viðurkennt alls staðar, að útsöluverð til einstakra manna á viðtækjum frá Viðtækjaverzlun ríkisins er lægra en nokkurs staðar annars staðar. Hann getur talað við þá, sem hingað hafa komið frá útlöndum á síðustu árum, og litið á tæki, sem þeir hafa komið með, sams konar tæki og seld eru hér, og fengið að vita, að þau eru seld hér tugum prósent ódýrara en þau hafa verið keypt í Svíþjóð, Englandi, Noregi eða Danmörku. Það sannar ekkert, þegar hann er að vitna í fyrirtæki, þar sem stjórnin hefur verið í ólagi og slælegt eftirlit frá þeim, sem hafa átt að sjá um það fyrir ríkisstj., og hefur þó stjórn landssmiðjunnar fengið starf sitt svo borgað, að hún átti að geta litið eftir. Það geta alls staðar orðið mistök, hvort sem það er opinber rekstur eða einkarekstur.

Ég vona, að þótt ég sé kominn á sjötugsaldurinn, þá lifi ég að sjá þá, sem andæfa nú mest gegn þessu frv., halda sigurhátíð, þegar olíueinkasala kemst á. Þegar hin nýafstaðna sigurhátíð var haldin til að fagna hinni nýju bæjarútgerð Reykjavíkur, þá var margendurtekið, „að varðar mest til allra orða, að undirstaðan rétt sé fundin: Nú var loks fundin sú rétta undirstaða. Ég gleðst yfir þessum sinnaskiptum í því máli, og ég vona, að það taki ekki heilan áratug fyrir íhaldið að vitkast í þessu máli, þó að það gerði það í hinu.