18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég gat þess í framsöguræðu minni, að n. hefði ekki tekið endanlega afstöðu til 7. kaflans, en ég get sagt hv. þm. Barð. það, að ég tel. að þennan kafla eigi að fella niður úr frv. og breyta 48. gr. eftir því.

En það er til stórskammar fyrir ríkið að hafa hvergi til einangrunarstöð fyrir innflutta gripi eða sjúka gripi og engin fyrirmæli um slíkt. Ég lít á það sem skilyrðislaust og sjálfsagt mál, að til sé í landinu einangrunarstöð fyrir innflutt dýr, en inn í landið koma mörg dýr árlega, t.d. hundar, sem flytjast inn eftir ýmsum leiðum, meira að segja með erlendum sendiráðsmönnum. En hér er hvergi staður, þar sem unnt sé að einangra dýrin. Sá staður á, að vera í sambandi við Keldur, og þar á að vera spítali fyrir sjúk dýr. Þessi 7. kafli og ákvæði hans eiga því ekki heima í þessum l. Hvað ofan á verður í n. í þessu efni. veit ég ekki, en ég lofa því, að niðurstöður n. skulu liggja hér frammi nægilega lengi, áður en þetta mál kemur til 3. umr., svo að hv. þm. Barð. hafi góðan tíma til að setja sig inn í þær og undirbúa brtt., ef honum lízt að bera þær fram. Og að þessu lofuðu vænti ég, að mál þetta geti fengið afgreiðslu í dag við 2. umr. Hv. þm. Barð. má treysta því, að hann skal fá að sjá till. í tíma og eins fá að vita með góðum fyrirvara, ef n. kemur sér ekki saman um neitt í þessu efni. svo að hann geti þá komið með sínar brtt. Með þessu móti vænti ég að hann krefjist þess ekki, að málinu verði nú frestað.

Ég hef ekki mikið að segja við aths. hv. 8. landsk. Hann gat þess, að landbn. legði til, að viðhald aukavarnalína kæmi á ríkið, en það er samkvæmt upplýsingum og tilmælum frá Sæmundi Friðrikssyni, að gerð er till. um breyt. í þessa átt, þar sem hann telur svo mikið sleifarlag á viðhaldi þessara lína, að öruggara eftirlit þurfi í því efni. Ég legg enga áherzlu á, að b-liður brtt. við 13. gr. verði samþykktur, eins og n. leggur til. Það má að mínu áliti alveg eins vera óbreytt. En það er rétt, að við erum sammála um í n., að heimild komi til, áður en maður er t.d. sendur um Vestfirði til að athuga þar um garnaveiki í búpeningi, því að með því er nánast verið að kasta peningum á glæ, því að ekki er neinn minnsti grunur um sýkt fé þar. Þar er ekki vitað um eina sýkta kind. Ég sæi því enga ástæðu til slíkrar athugunar. Annars er það ekki aðalatriðið í mínum augum, ef menn vilja leggja í þennan kostnað. Þá finnst hv. 8. landsk. óþarfi að breyta í heimild ákvæðum 36. greinar um rannsókn sauðfjár og leit á heimilum, eins og gert er í 13. brtt. landbn. á þskj. 407. í því sambandi vil ég fyrst benda á það, að ég efast um, að gr. samrýmist stjórnarskránni, eins og hún er nú í frv., því að stjórnarskráin mælir svo fyrir, að húsrannsókn megi ekki gera á heimilum manna nema að undangengnum sérstökum úrskurði. Ég tel líka litlar líkur til þess, að menn leyni þannig fé. Raunar hef ég heyrt eina sögu um það frá niðurskurðartíma fjárkláðans, að maður, sem átt hafði að lóga öllum sínum lömbum að hausti, hafi næsta vor látið gemling upp í landskuld, og þegar farið var að athuga þetta, hafði hann geymt lambið í hlöðugeil um veturinn. En þótt dæmi kunni að hafa verið til slíks atferlis í þá daga. eru engin líkindi til, að slíkt ætti sér stað nú, skilningur manna á þessum málum er orðinn svo miklu meiri. því þótti okkur alveg nægilegt að hafa í slíkum l. heimild til rannsóknar, sem nota mætti, ef kvittur kæmi upp um það, að einhver leyndi sýktu eða grunuðu fé, án þess að farið væri að rannsaka þetta almennt um allar sýslur. Þetta var nú um það, sem hv. 8. landsk. hafði við þessa brtt. að athuga.

En svo var það viðvíkjandi brtt. n. við 37. gr. Hv. þm. vildi láta þá gr. haldast óbreytta eða láta bætur, þ.e. framlag ríkisins til fjárskipta, miðast hverju sinni við fjártölu eigenda samkvæmt skattaframtali þremur árum áður, en ekki við fjártölu við næstsíðustu áramót á undan. En þessu ákvæði breytti n. einmitt samkvæmt ósk Sæmundar Friðrikssonar og sauðfjársjúkdómanefndar, og þetta er aðallega byggt á þrennu:

Í fyrsta lagi er það, að því skemmra sem farið er aftur í tímann með bæturnar, því hægara er að vita á hverjum tíma, hvernig málum er háttað og hve mikið ríkinu ber að greiða í bætur.

Í öðru lagi er öll fækkun sauðfjárins til óhagræðis. Hvar sem maður fer um landið, kemur það í ljós, að þeir bændur eru betur settir, sem setja á gimbrar sínar; en hinir eru fjárlausari, sem ekki setja á sínar gimbrar. Þessi munur kemur skýrt fram í Húnavatnssýslu og Þingeyjarsýslu. Í Húnavatnssýslu hafa gimbrarnar verið settar á, en í Þingeyjarsýslu hafa menn drepið lömbin af ótta við, að þau mundu drepast. því dugir engan veginn að hvetja menn til að fækka fé sínu, það mun koma þeim í koll. Ég legg því áherzlu á, að þessi brtt. verði samþ., og tel það vera öllum fyrir beztu, bæði einstaklingum og ríkinu. Það er nóg að hafa eitt ár upp á að hlaupa.

Viðvíkjandi kostnaðinum af framkvæmd þessa frv., ef að lögum yrði, sem hv. þm. Barð. var að minnast á, þá er það rétt, að þó mþn. hafi unnið vel að undirbúningi þessa máls, þá hefur hún ekki lagt sig sérstaklega fram um að gera grein fyrir kostnaðinum eða gefa hann upp. En ég skal nú athuga, hvaða upplýsingar við nm. getum fengið um þá hlið málsins milli 2. og 3. umr., og ég skal gefa hv. þm. þær upplýsingar fyrir 3. umr., það er sjálfsagt. Og ég beini því nú til hv. þm., að hann taki aftur ósk sina um frestun málsins. En ég hef lofað því, að hv. þm. Barð. skuli fá nægan tíma til að fylgjast með frv. og þeim breyt.. sem á því kunna að verða. En geti hann samt ekki af einhverjum ástæðum tekið aftur ósk sína um frestun málsins nú, verð ég að beina því til hæstv. forseta, að hann fresti ekki málinu á þessu stigi þess.