09.05.1947
Efri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (4535)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. form. menntmn., 1. þm. Eyf., óskaði eftir því, að ég segði nokkur orð um þetta frv. fyrir n. hönd, og lofaði ég að verða við því. — Það er nú gerð grein fyrir því hér í grg. frv., að söngkennsla hafi farið fram á heimili söngmálastjórans, hann hafi orðið að leggja til þau tæki, sem lögð hafa verið til þessarar kennslu, og hann hafi haft til kennslunnar ónóg skilyrði. Mér skilst, að þessi kennsla hafi orðið umfangsmeiri, eftir því sem tími leið, þannig að nú eigi hann örðugt með að koma þeirri kennslu fyrir á sínu heimili. Enn fremur er talið, að kennslan sé orðin það umfangsmikil, að hann anni henni ekki allri einn og þurfi því að kaupa einhverja aukakennslu í viðbót.

Söngmálastjórinn mun hafa hreyft þessu söngmáli fyrir síðustu prestastefnu og flutt erindi á þeirri prestastefnu um þetta mál. Þar var síðan samþ. svo hljóðandi till., með leyfi hæstv. forseta: „Prestastefna Íslands telur nauðsynlegt, að stofnaður verði í Reykjavík söngskóli fyrir þjóðkirkjuna, þar sem kennt sé söngur og orgelspil nemendum guðfræðideildar háskólans og söngkennara- og organistaefnum, er síðar taki að sér söngstjórn og orgelspil í kirkjum landsins, svo og þeim barna- og unglingakennurum, sem söngkennslu mundu hafa á hendi í þeim skólum. Telur prestastefnan, að stofnun slíks skóla mundi ekki hafa verulegan kostnað í för með sér, þar sem einn liður í starfi söngmálastjóra þjóðkirkjunnar mundi verða sá, að veita skólanum forstöðu og annast þar kennslu að verulegu leyti. Fyrir því leyfir prestastefnan sér að beina þeirri ósk til kirkjumrh. og ríkisstj. í heild að beita sér fyrir því, að slíkum skóla verði komið á fót þegar á næsta hausti.“

Hæstv. menntmrh. hefur svo látið semja þetta frv., sem hér liggur fyrir, og beðið menntmn. að flytja það. Efni frv. er sem sé þetta í aðalatriðum, að það eigi að stofna hér og starfrækja skóla, sem nefnist söngskóli þjóðkirkjunnar, og þar eigi að kenna nemendum guðfræðideildar háskólans og væntanlegum kirkjuorganistum og söngkennaraefnum orgelspil og söng, tónfræði, tónlistarsögu, söngstjórn o.fl., er að tónmenntun lýtur. Þetta er verksviðið. Hér er gert ráð fyrir, að stjórn skólans verði með þeim hætti, að fræðslumálastjóri hafi á hendi yfirumsjón skólans í samráði við biskup, og að allur kostnaður við skólahaldið greiðist úr ríkissjóði. Stjórn skólans að öðru leyti, þ.e. dagleg forstaða hans, er fyrirhugað, að verði í höndum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og að hann annist þar kennslu að mestu leyti, en að því leyti sem hann gæti ekki annað kennslunni, yrðu fengnir til stundakennarar. Starfstími skólans á hverju ári er fyrirhugaður sex mánuðir, en námstíminn tvö til fjögur ár.

Ég skal játa, að ef hér hefði einungis verið um það að ræða að kenna guðfræðinemum háskólana tón og söng í sambandi við þeirra guðfræðinám, þá hefði ég talið langeðlilegast, að þessi kennsla færi fram sem einn þáttur í kennslu guðfræðideildarinnar í Háskóla Íslands. Í háskólahúsinu er nú húsnæði notað til ýmissa hluta annarra en kennslu í háskólanum sjálfum. Húsmæðrakennaraskóli Íslands er þar til húsa nú, en ekki eru líkur til, að hann verði þar til langframa, svo að þar virðist húsnæði vera fyrir hendi, t.d. fyrir þennan söngskóla. Nú á einnig fram að fara í þessum skóla kennsla fyrir væntanlega kirkjuorganista, og má segja, að guðfræðideildinni sé líka skylt að greiða fyrir þeirri kennslu. En svo kemur það þriðja, sem má segja, að sé utan við skyldu guðfræðideildar háskólans, sem er söngkennsla til handa söngkennurum við unglinga- og barnaskóla landsins. Þó hygg ég, að það færi í raun og veru bezt á því, að sú kennsla færi fram ásamt söngkennslu prestanna og organistanna.

Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. N-M. vék að því, að hér væri um það að ræða að eiga að kenna prestum söng og organistum sönglist til þess að syngja í tómum kirkjum. En ég hef gert grein fyrir því, að verkefni þessa skóla er nokkru rýmra ert þetta. Og það verður ekki um það deilt, að þörf er a.m.k. á því, að við eigum fleiri sérmenntaða söngkennara til þess að annast söngkennslu í skólum. Ég tel, að nú sé í miklum ólestri söngkennslan í mörgum skólum landsins og að mjög óvíða sé hægt að koma slíkri kennslu við. Verður þó ekki um það deilt, að fáar námsgreinar hafa meira uppeldislegt gildi fyrir unglinga en vel framkvæmd söngkennsla. Meira að segja er það svo í mörgum kaupstöðum landsins, að ekki hefur reynzt unnt að fá hæfa söngkennara til þess að annast söngkennsluna, og hefur söngkennslan því orðið að falla niður.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Einstakir nm. í menntmn. hafa óbundnar hendur um einstakar gr. frv. og um frv. í heild. Getur því vel verið, að ýmsum nm. í menntmn. sýnist að gera einhverjar breyt. á frv. Ég teldi æskilegast, ef hægt væri að koma því svo fyrir, að þessi skóli yrði í raun og veru einn þáttur í kennslustarfi guðfræðideildarinnar, þar sem meginkennslan, sem skólanum er ætlað að inna af hendi, á að vera til þess að mennta prestaefni á þessu sviði og sjá kirkjunum fyrir hæfum organistum. En það getur hugsazt, að einhver vandkvæði séu á því og að einhver rök verði færð fyrir því, að betur færi á að hafa þetta sérstakan skóla, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.