09.05.1947
Efri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (4536)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. menntmn. fyrir, að hún hefur brugðið fljótt við og flutt þetta frv. að minni beiðni. Ég þarf ekki að skýra efni málsins, því að síðasti ræðumaður, hv. frsm. menntmn., hefur gert það tæmandi. Ég ætla aðeins í sambandi við þetta að nota tækifærið til þess að láta í ljós þá skoðun mína, að söngmálastjóri, sem hefur starfað hér um nokkurt skeið og ætlazt er til, að standi fyrir þessum skóla, hefur að mínum dómi unnið mjög merkilegt og þýðingarmikið starf, ekki aðeins fyrir hina íslenzku þjóðkirkju, heldur líka til eflingar söngmenntar víðs vegar um land. Nú er það álit hans og fleiri manna, sem þessum málum eru kunnugir, að eigi nú að vera áframhald á því, sem byrjað er á í þessum efnum, þá sé nauðsynlegt að fá skóla til þess að halda áfram slíkri söngkennslu. Það er ekki við því að búast, að söngmálastjóri geti framvegis veitt tilsögn í söng við þau skilyrði, sem hefur orðið að búa við í þessum efnum. Og verður því, ef þessu á að halda áfram, að koma þarna upp skólastofnun. Hitt er annað mál, að þess verður að gæta, að þessi stofnun þenjist ekki of mjög út, svo að hún verði ekki um of kostnaðarsöm. En í frv. er settur nokkur rammi um þetta, og í framkvæmd verða menn svo að þreifa sig áfram um það, hve marga kennara þurfi við þennan skóla. En ég geri ráð fyrir, að það verði reynt að komast af með lítið í þeim efnum, a.m.k. til að byrja með, fyrst og fremst söngmálastjórann sjálfan og svo einhverja aðstoð, en þá minnstu, sem hægt er að komast af með.

Ég vildi svo segja út af því, sem hv. 1. þm. N-M. var að. tala um, hvort ekki væri hægt að sameina þessa stofnun við tónlistarskólann, að ég átti sérstaklega tal um þetta við söngmálastjórann, og hann telur það ekki fært. Ég vildi því óska þess, að hv. þdm. ættu tal við hann um þetta atriði, áður en þeir ákveða nokkuð í þá átt, til þess að hann geti komið sínum skoðunum á framfæri í þessu sambandi. En ég hygg, að það sé rétt hjá .honum, að ekki sé rétt að sameina þetta.

Ég vil einnig segja það út af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að þetta er ekki aðeins gagnlegt fyrir kirkjulífið, að efla söngmennt, heldur hefur það einnig stórkostlega almenna menningarlega þýðingu, og er ekki vanþörf á því að hafa fjölbreyttara menningar- og skemmtanalíf en er víða, og það er hægt með því, að menn læri söng og hljóðfæraslátt, og kirkjusöngurinn gæti verið mjög þýðingarmikil undirstaða í þeim efnum og hefur verið það. Það mun sýna sig, að þegar búið er að koma honum í sæmilegt horf, þá mun hann verða mönnum til mikillar ánægju, ekki aðeins í kirkjunum, heldur einnig við önnur tækifæri, þar sem söngfólk og kirkjukórar geta lagt til skemmtun og stuðlað að aukinni ánægju.