18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég get vel skilið varasemi hv. fjmrh., hún er mjög eðlileg, en hér er að miklu leyti á misskilningi byggt viðvíkjandi aðalvarnarlínunum, sem eru um 4/5 hlutar af lengd allra girðinganna. Ríkissjóði ber að kosta viðhald þeirra samkvæmt 8. gr., eins og hún er nú, það ber vel að athuga, en aðrir aðilar eiga að annast viðhaldið og gefa ríkinu reikning fyrir því. En þar er óþarfa milliliður, sem annast framkvæmd viðhaldsins, og ég held því fram, að með því móti verði það kostnaðarsamara. því einu skal breytt samkvæmt brtt. við 8. gr., varðandi aðalvarnarlínurnar, þeim skal viðhaldið á kostnað ríkissjóðs, eins og segir í brtt., en það þýðir ekki aðra breyt. en þá, að framkvæmdastjóri ríkisins, eða í þessu tilfelli sauðfjársjúkdómanefnd. annist beint viðhaldið í stað þess að láta aðra gera það og gefa ríkinu reikning fyrir kostnaðinum. Þetta ákvæði verður því fremur til aukins sparnaðar, en kostnaðarauka fyrir ríkið.

Það er aftur á móti nýtt í brtt. við 8. gr., að ríkið skuli annast viðhald aukavarnalinanna. En þær eru ekki nema um 1/5 hluti allra girðinganna, og brtt. okkar er í því fólgin, að þetta viðhald tökum við af héruðunum og leggjum það á ríkissjóð. Það er tæplega einn fimmti hluti viðhaldsins, þannig að upphæðin, sem þarna færist yfir á ríkissjóðinn, er ekki stór. En ég skal á milli umr. afla mér upplýsinga um það, hvað hún er stór, og leggja þær upplýsingar fram við 3. umr. málsins. Ég get gjarnan tekið þessa brtt. aftur, ef hæstv. ráðh. vill, og athugað það nákvæmlega á milli umr., hversu þessi upphæð er stór, sem mundi eftir þessari brtt. færast af herðum sýslufélaganna og fjárskiptafélaganna og yfir á ríkissjóðinn. Ég get hugsað mér, að sú upphæð sé eitthvað um 50 til 60 þús. kr. Meiri verður hún ekki í sambandi við aukavarnarlínurnar. Hitt væri annað mál, ef brtt. væru um það að færa þannig til yfir á ríkissjóð viðhaldskostnað vegna aðalvarnarlínanna líka. En það eru ákvæði um það í frv., að ríkissjóður eigi að halda við aðalvarnalínunum, en um það eru ekki ákvæði í brtt. okkar. — Ef hæstv. fjmrh. óskar þess, skal ég fyrir hönd n. fúslega taka aftur þessar brtt. um viðhaldskostnaðinn til 3. umr. og skal fá upplýsingar á tímanum þangað til um það, hve stór upphæð það er, sem hér mundi færast yfir á ríkissjóðinn eftir brtt. okkar, og láta þær upplýsingar liggja fyrir við 3. umr. málsins hér í hv. þd. Og með því móti vænti ég, að hæstv. ráðh. leyfi málinu nú að halda áfram, þannig að þessari umr. verði lokið nú á þessum fundi.

Forseti (ÞÞ): Með því að hv. þm. Barð. hefur óskað eftir frestun á þessari umr. og sérstaklega af því að hæstv. fjmrh. hefur eindregið óskað þess, að þessari umr. sé frestað nú um málið, sé ég mér ekki fært að halda áfram þessum umr. Verður því umr. um málið frestað og það tekið af dagskrá.