21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (4543)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég virði mjög þann áhuga, sem hefur komið fram, bæði hjá hæstv. menntmrh. og menntmn. Mér þykir þó nokkuð á skorta, að málið hafi verið undirbúið eins mikið og hefði mátt, þegar um er að ræða nýja stofnun, sem hlýtur að kosta miklu meira fé en látið er í veðri vaka hjá frsm. og í grg. hjá menntmn., sem flutti málið. Því er hér haldið fram, að það sé einkum og sér í lagi lítill kostnaður við að útvega skólanum húsnæði. En sannleikurinn er sá, að mikill kostnaður liggur einmitt í því að fá húsnæði til að kenna í, vegna þess að til þess þarf alveg sérstakt húsnæði, sem ekki er hægt að nota til neinnar hljómlistar. Auk þess þarf ekki annað en líta á fjárlögin, hvað hver skólastofnun kostar í byrjun og hleður svo um sig svo að segja árlega. Við umr. kom fram hjá hæstv. menntmrh., að hann hefði talað um þetta við formann tónlistarfélagsins, og hafði ég gert mér vonir um, að það samtal hefði leitt til samkomulags um að ná betri árangri með minna fé en mögulegt er að ná með því að stofna til þessa skóla, eins og gert er með frv. Nú hef ég hins vegar fengið upplýst, að um þetta hafi ekki verið rætt, hvorki af menntmrh., fræðslumálastjóra né menntmn., og hefði þó verið ástæða til þess að ræða þetta mál nokkuð við tónlistarfélagið, og í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að lesa upp bréf frá tónlistarfélaginu, og skal ég lána frsm. það gagn, ef hann hefði áhuga á að kalla saman fund í n. til að athuga málið nánar, með leyfi hæstv. forseta: 1)