18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (4562)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í álitum meiri hl. og minni hl. fjvn., þá hefur fjvn. ekki getað orðið að öllu leyti sammála um afgreiðslu þáltill. á þskj. nr. 93. Hv. frsm. meiri hl. n. hefur nú lýst sjónarmiðum meiri hl. n., og einnig n. í heild að því leyti, sem hún var sammála um málið. En n. er öll sammála um það, að eins og komið var um húsnæðisvandræði rektorsins, þá væri sjálfsagt að leysa það mál, eftir því sem heppilegast yrði fram úr því greitt. Það var heldur ekki mikill ágreiningur í n. um að hús það, sem getið er í grg. till. á þskj. nr. 93, væri ekki hagkvæmt fyrir ríkissjóð að kaupa, og því væri æskilegast að geta leyst þetta mál á annan hátt. Ég þarf ekki að fara út í þessi atriði, af því að ekki var ágreiningur um þau í fjvn., og hefur hv. frsm. meiri hl. n. skýrt frá því. Ég get þó í þessu sambandi tekið fram, að það hefur gengið lengra frá mínu sjónarmiði en æskilegt væri, að ríkið sjái opinberum starfsmönnum fyrir húsnæði á þann hátt, að ríkið byggi yfir þá, því að starfsmannafjöldi ríkisins er þegar orðinn geysimikill, og fer þeim starfsmönnum sífjölgandi. Gæti verið erfitt í upphafi að gera sér grein fyrir því, hvar ríkið ætti að hætta, ef það ætlaði út á þá braut að byggja yfir alla embættismenn sína og kannske fleiri opinbera starfsmenn. Það hefur ekki verið hægt fyrir ríkið að komast undan því að byggja yfir embættismenn sína, þegar svo hefur staðið á, að embættismenn hafa verið settir niður á staði, þar sem hús geta kannske orðið mjög verðlítil, eins og á afskekktum stöðum og í strjálbýli, og þegar tillit er tekið til þess, að embættismenn ríkisins eru sífellt að flytjast úr einum stað í annan, þá er ekki óeðlilegt, að ríkið taki að sér að eiga embættismannabústaði í þessum afskekktu eða strjálbyggðu stöðum, því að annars gæti það orðið svo, að embættismaður kostaði til að byggja hús, sem hann svo gæti ekki selt, þegar hann flytti sig til, en þegar þetta er farið að ganga lengra, og menn, sem líkur eru til, að sitji alla sína embættistíð á sama stað og hafa fengið virðuleg og vellaunuð embætti, er vafasamt, að ríkið ætti að eiga þessa embættismannabústaði. Það mætti á margan hátt annan styðja að því, að þeir gætu eignazt bústaði sjálfir. Nú er ekki um það að ræða í sambandi við þáltill. á þskj. 93, því að þar er sú breyting á orðin, að embættismaður, sem áður hafði að l. frían bústað, hefur misst þau réttindi í sambandi við nýju launal. og hefur ekki neitt húsnæði sjálfur, og er nú komið í þetta óefni fyrst og fremst af því, að hann taldi sér ekki skylt að sjá sér fyrir húsnæði og býr meira að segja í öðru héraði. Þetta er fullkomlega óhæft, og þótt ríkinu beri ekki skylda til að byggja yfir rektor, þá ber því siðferðislega skylda til þess, og er rétt að ríkið eigi rektorsbústað, sem annaðhvort sé í skólanum eða nærri honum, en sakir þess, að þetta ber svo brátt að, þýðir ekki að leysa þetta nema til bráðabirgða.

Að áliti minni hl. er lausnin sú, að ríkið kaupi ekki eða byggi í ár, heldur reyni að leigja fyrir rektor. Minni hl. hefur lagt til, að stjórnin leigi til bráðabirgða íbúð handa rektor á hentugum stað bænum, ekki mjög fjarri skólanum. Enn fremur leggur minni hl. til, að heimilað verði að verja úr ríkissjóði allt að 300 þús. kr. til þess að byggja rektorsbústað.

Mönnum er kunnugt um það, að nú á að fara að endurreisa menntaskólann og nokkrar deilur eru um það, hvort hann skuli byggður á sama stað eða fluttur. Ég hef tekið þátt í umr. um það mál, og er ég meðal þeirra, sem hafa talið, að skólinn eigi ekki að vera á sama stað og hann nú er, og tel ég það vafasama ráðstöfun að byggja eða kaupa, fyrr en alveg er ákveðið, hvar skólinn eigi að vera í framtíðinni. En þegar þar að kemur, sýndist okkur minnihlutamönnum ekkert vera því til fyrirstöðu að byggja rektorsbústað, sem væri ekki óhæfilega stór, og töldum, að hægt yrði að byggja sæmilega fyrir 300 þús. kr., og teljum við, að ríkið ætti ekki að fara ofar og sízt eins og till. er um, því að þar er talað um 650 þús. kr., og er sennilega þörf á að breyta húsinu eitthvað. Slíkt yrði meira en það, sem rektor þarf að nota, en út í það skal ég ekki fara, því að frá sjónarmiði minni hl. liggur það ekki fyrir.

En till. n. eru byggðar á því, að ekki sé hægt í bráðina að fá leigubústað með viðunandi kjörum, en sennilega yrði hægt að kaupa íbúð til bráðabirgða, og því viljum við, að þessi heimild sé til fyrir stjórnina og hún hafi eitthvert fé í þessu skyni. Við minnihlutamenn teljum, að hlutverk n. hafi ekki verið annað og meira en það að veita stjórninni stuðning og heimild til þess að sjá rektor fyrir bústað. Ég álít ekki okkar hlutverk að segja til um, í hvaða húsi eða jafnvel stofu rektor ætti að vera. Það verður að vera mál stjórnarinnar og rektors. Þess vegna leit ég og meðnm. mínir í minni hl. á það sem óviðkomandi og óviðeigandi að fara að gera till. um þetta efni, en meiri hl. var á öðru máli, og þar skildi milli okkar. Meiri hl. hefur lagt til, eins og það er orðað á þskj. 110, að biskup landsins skuli víkja úr því húsnæði, sem hann er í. Það er út af fyrir sig hraustlegt hjá meiri hl. að ráðast ekki á garðinn, þar sem hann er lægstur, heldur rífa upp biskup landsins og reka hann úr húsnæði sínu, og þetta gera þeir, án þess að þeir séu nokkuð um það beðnir. Þetta er bara fyrir röskleika þessara meðnm. minna. Biskup hafði verið húsnæðislaus lengi, og af miklum velvilja og vinsemd hafði honum verið séð fyrir húsnæði í einkaíbúð, sem átti að vera tekin fyrir eigandann, en hann sýndi ríkinu það tillit að láta þetta standa. Nú í vor var byrjað á viðgerð á „Gimli“ í samráði við biskup, sem átti að hafa þar bústað. Síðan hefur biskup fengið ráðherrabréf fyrir þessari íbúð. Nú er hann fluttur fyrir rúmri viku, þegar meðnm. mínir, meiri hl. fjvn., taka það ráð að leggja til, að hann sé látinn út. Það er nú séð, að hann víkur síðar, svo að hann fengi að vera í hálfan mánuð. Það leysir ekki húsnæðisvandræðin, þó að einn embættismaður sé látinn víkja og annar komi í hans stað. Ég vil benda á það, að það er ekki hægt að láta biskup fara, til þess þyrfti að fá útburðarleyfi, sem vafasamt er, að mundi fást. Svo er vafasamt, að rektor vildi flytja inn í íbúð, sem honum væri séð fyrir á þennan hátt. Þá er á það að líta, að þetta mun vera alveg einstök till., og ég efast um, að svona till. gæti komið fram á nokkru þjóðþingi siðaðra þjóða nema á Íslandi, að ætla að kasta biskupi landsins út úr húsnæði, sem hann hefur fengið ráðherrabréf fyrir. Þetta er atriði, sem ég vil biðja hv. þm. að athuga. Er ekki verið að misstíga sig hér á alvarlegu máli?

Ég þarf ekki að hafa um þetta langa ræðu. Þm. hafa oft haft með að gera torskildari og vandameiri mál en þetta er, svo að orðalengingar eru varla nauðsynlegar.

Að lokum vil ég fara fram á, að stjórnin fái nauðsynlega heimild og hvatningu frá þinginu til þess að leysa húsnæðismál rektorsins, og annað liggur ekki fyrir. Ég vil alvarlega biðja þm. að yfirvega þetta mál, svo að ekki blandist neitt í það, sem mætti teljast óviðeigandi og þinginu ósamboðið.