18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (4563)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Ég hef ástæðu til að þakka mörgum þm. fyrir vinsamlegar till. í þessu máli, er ég benti á það, að óviðunandi væri, að rektor væri búsettur austur í Ölfusi fyrir aðgerðir menntmrh.

Það fyrsta var, að menntmrh. bar fram rösklega till., um að kaupa hús í Garðastræti fyrir 650 þús. kr., og skilst mér, að góðir menn telji, að það verði að bæta við 150 þús. kr., þannig að það kosti 800 þús. kr. Síðan var þessu vísað til fjvn., og get ég ekki neitað því, að n. hefur gert minni till. miklu betri skil en till. ráðh., og mun þar ráða málefni, en ekki kærleikur til mín, því þó að n. klofnaði, þá eru í báðum nál. svo veigamikil atriði, að ég hef ástæðu til að þakka.

Ég vil segja, að sú fyrirhöfn, sem hv. þm. Barð. hefur haft fyrir að útvega rektor húsnæði nálægt skólanum, er virðingarverð. Hitt get ég ekki lofað, þau úrræði, sem hann hefur fundið, því að ég álít, að þau mundu ekki leiða til heppilegrar úrlausnar. Það hefði verið mjög gott fyrir menntmrh. að hlusta á ræðu og rök hv. þm. Barð., því að hann flutti gagnrýni á því, að rektor byggi ekki í skólahúsinu. Þetta er eitt af þeim axarsköftum, sem menntmrh. hefur smíðað í skólamálum landsins og þm. fá að sjá fleiri af. Þm. Barð. sagði, að það að hafa skóla með 450 nemendum alveg eftirlitslausan sýndi einmitt þá skoðun ráðh., að skólar ættu að vera eins konar verksmiðjur, en ekki annað, og er það gagnrýni á þeirri skólalöggjöf, sem hann stóð fyrir, þótt ekki verði út í það farið hér. Ég vil bæta við einni röksemd viðvíkjandi erfiðleikunum á því að láta biskup fara úr húsnæði því, sem ráðh. var búinn að ákveða, að hann skyldi hafa. Ég hygg, að ef biskup vildi, gæti hann setið, því að hann mundi vera kominn undir húsaleigul., og þó að ég viti ekki, hvort biskup mundi beita þrásetu, væri honum ekki nema vorkunn. Úrræði meiri hl. hljóta því að stranda á tvennu. Í fyrsta lagi, að ráðherrabréf er fyrir húsnæðinu og húsaleigul. mundu ekki leyfa, að biskup væri látinn fara, og í öðru lagi mundi rektor ekki fara í húsnæði, sem fengið væri með svo harkalegu móti.

Þá kem ég að till. minni hl., sem mér finnst mjög heppileg, að útvega rektor húsnæði til bráðabirgða. Ég álít, að það sé það eina úrræði, sem til greina geti komið, og hef leyft mér að bera fram viðbótartill. við till. minni hl., sem ég mun koma að síðar.

Þm. finnst, að rektor eigi að búa sem næst skólanum, og eins og ég hef tekið fram, lét rektor það í ljós við mig fyrir fáum árum, að hann yrði ánægður með landlæknishúsið gamla, ef gert yrði við það á sæmilegan hátt. Rektor vildi gjarnan fara úr íbúð sinni í menntaskólanum, af því að honum virtist erfitt að hafa íbúð í nútímaskóla, þar sem ekki er nema einn stigi. Það skilja allir, að þetta var annað fyrir 100 árum en nú. Svo er annað, Þar sem er fjöldi nemenda og lítil börn, er ekki hægt að hafa þau börn veik, ef ekki með því að hafa þau samvistum við slíkan hóp af fólki, þar sem hver hefur sitt kvef. Á Akureyri er allt öðru máli að gegna. Þar er alveg sérstök rektorsíbúð. Hún er eins og gerist í nútímaskólum, aðskilin, og hefur ekki þessa annmarka, sem ég hef minnzt á. Það kom fyrir nokkrum árum til orða að laga hús landlæknisins þannig, að það gæti verið rektorsbústaður, og rektor vildi það vegna legu hússins, af því að það lá að menntaskólanum. Nú á einhvern tíma að rífa þetta hús, en það verður ekki fyrr en eftir 10 ár, sem bæði það og „Gimli“ verða rifin, en þau standa á lóðinni, þar sem landið hlýtur að byggja framtíðarbyggingar sínar og m. a. alþingishús. Það er þó ekki hugsanlegt, að þetta verði mjög fljótt. Nú er allt í óvissu um það, hvort menntaskólinn verði fluttur, og ef hann yrði fluttur suður í Fossvog eða Öskjuhlíð, yrði byggður rektorsbústaður í sambandi við hann.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það yrði dýrt að gera gamla landlæknishúsið upp, en ég sannfærðist ekki af þeirri ræðu, sem hann flutti. Ég átti tal við smið um þetta, og hann sagði: „Ef ég ætti að gera gamla landlæknishúsið upp, mundi ég geta gert það fyrir 100 þús. kr. Ég mundi setja upp vírnet og múrhúða það til þess að taka af allan súg. Ég mundi þilja það innan með krossvið og setja ný gólf, og yrði það þá eins góð íbúð og til er í bænum.“ Það er ekkert hús til, sem er jafnvel sett. Það er ekki alveg í húsinu, en svo nærri, að hægt er að hafa fullkomið eftirlit. Ég vil enn fremur segja það í framhaldi af þessum orðaskiptum mínum og ráðh., að fyrir nokkrum árum, þegar ég hafði meðgerð með þessi mál, fór fram viðgerð á menntaskólanum. Sumar stofurnar voru klæddar með pappa, en aðrar með krossvið. Niðurstaðan varð sú, að eftir nokkurn tíma voru nemendur búnir að setja göt á pappann, en báru hins vegar svo mikla respekt fyrir krossviðnum, að hann stóð óskemmdur.

Um leið og ég þakka hv. þm. Barð. fyrir þann stuðning, sem hann hefur veitt mér, vil ég benda á, að þessi möguleiki er enn fyrir hendi. Bifreiðaeftirlitið er eins illa sett þarna og mögulegt er með sína starfsemi, og þeir, sem þar vinna, vildu gjarnan komast á annan stað utar í bænum og yrðu afar ánægðir.

Þar sem svo er komið, að enginn maður í n. vill samþykkja till. ráðh. og kaupa húsið í Garðastræti, og þar sem komið hefur í ljós, að máli rektors er engin stoð að till. meiri hl., og þar sem minni hl. hefur lagt til, að rektor verði útvegað húsnæði til bráðabirgða, hygg ég, að vandfundið sé bráðabirgðahúsnæði handa rektor, sem sé eins heppilegt og getur dugað eins lengi og þörf er á, þegar málið er á hverfanda hveli.

Ég vil benda á það, að till. ráðh. um að kaupa húsið í Garðastræti er fram komin af því, að hann vill láta flytja skólann. Hann hafði gert ráðstafanir til þess að kaupa lóðina milli Laugarness og Klepps til þess að hafa skólann þar. Það er fljótræði af ráðh. að vilja flytja skólann, en það virðist samræmi í því að vilja flytja skólann og flytja rektor upp í Garðastræti. Það lá við borð, að skólinn yrði fluttur burtu, en borgarstjórinn í Reykjavík bannaði að taka lóðina undir skólann. Nú hefur verið borin fram till. um að hallast að því ráði að kaupa lóðina við menntaskólahúsið til þess að byggja menntaskóla. Það mál er ekki komið fyrir aftur, og fer ég ekki út í það, en vil benda á það í sambandi við bráðabirgðaúrræði, að ef skólinn er fluttur, gildir annað um rektorsbústaðinn en ef hann er ekki fluttur. En ég vil koma að þeirri viðbótartill., sem ég flyt við till. á þskj. 109, en sú till. er um það að veita rektor frí frá kennslu og störfum við skólann, meðan hann hefur ekki íbúð í bænum. Ég vil taka undir það, að það mun vera dæmalaust í allri skólasögu veraldarinnar, að það sé búið þannig að stærsta skóla landsins, að rektor sé heimilisfastur í 50 km. fjarlægð frá skólanum og yfir erfiðan fjallveg að fara að vetrinum. Ég þykist vita, að þm., sem allir þekkja rektor, sem er skyldurækinn, mikill ferðamaður og mun í lengstu lög þreyta þennan leik við fjallið og hálkuna í vetur, skilji það, að það eru fjörráð við hann að ætlast til þess af honum, að hann leggi þetta á sig. Þess vegna legg ég til, að þetta verði ekki gert. Það er búið að gera nóg axarsköft í þessu máli, þó að því sé ekki bætt við, að skyldurækinn maður neyðist til þess að vera í stórhríðum tvisvar á dag á ferð yfir erfiðan fjallgarð. Ég sé því ekkert saknæmt við það, þó að rektor fengi frí frá þessum störfum um tíma, þar sem þetta er ekki honum að kenna, heldur aðstöðunni.

Ég þykist svo viss um það, eftir því sem málefni standa til, að Alþ. samþykki viðbótartill. mína við till. á þskj. 109.