18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (4564)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Það var einhver, sem minntist á það í þessum umr., að þetta væri einfalt mál, en mér virðist það samt nokkuð flókið, því að það er búið að vera lengi á döfinni. Ef ekki hefði þurft að ræða málið svona mikið hér á Alþ. og það hefði ekki verið svona torvelt fyrir alþm., þá væri þegar búið að leysa húsnæðismál rektors. Það hefur verið farið um það mörgum orðum, hvað óviðunandi það sé fyrir rektor, nú þegar vetrarveður fara í hönd, að eiga heima 50 km. frá skólanum. En þetta mál væri nú þegar leyst fyrir nokkru, ef þessi till. hefði fengið afgreiðslu, eins og ég óskaði eftir, á tveimur dögum, og virtist málið það einfalt, að auðvelt væri fyrir Alþ. að taka ekki lengri tíma til þess en það. Hafa stærri mál verið leyst á miklu skemmri tíma. Ég hefði líka verið búinn að leysa þetta mál fyrir haustið og þessi vandræði ekki komið til, hefðu ekki aðrir aðilar staðið í vegi fyrir því, eins og ég hef þegar skýrt frá.

Ég þarf ekki að svara ræðu hv. þm. S-Þ. Mig furðar á því, að hægt skuli vera — í þó ekki lengra máli en ræða hv. þm. var, þó að hún væri að vísu nokkuð löng — að koma fyrir eins mörgum ósannindum og hann bar fram, því að það er auðvelt fyrir hvaða þm. sem er að sjá, að hann fer með rangt mál. Í fyrsta lagi heldur hann því fram, að ég hafi ekki skeytt neitt um það að útvega rektor íbúð, en rokið til, þegar hans till. kom fram. En ég gerði tilraun til þess á s.l. ári að leysa málið, og hefði það tekizt á s.l. hausti, hefðu ekki aðrir aðilar komið þar til greina. Enn fremur heldur hann því fram, að ég vilji helzt, að rektor búi sem lengst frá skólanum. Hann veit vel, að ég sótti fast, að það væri útbúin íbúð fyrir rektor nálægt skólanum, en fékk því ekki ráðið, og þar sem nú var svo komið, að það ekki tókst, varð að leita annarra ráða. Enn fremur eru þriðju ósannindin. Hv. þm. heldur því fram, að ég hafi flæmt rektor út úr þeirri íbúð, sem hann hafði í skólanum, á móti vilja hans. En þetta er öfugt við sannleikann. Rektor taldi ekki lengur viðunandi að búa í þessu húsnæði, og engum ætti að vera betur kunnugt um það en þessum hv. þm. Loks heldur hv. þm. því fram, að hann hafi átt tal við rektor um Amtmannsstíg 1 fyrir nokkrum árum og hafi hann þá talið, að hann mundi geta sætt sig við það, að þar væri útbúin íbúð handa honum. Ég fullyrði líka, að þetta eru ósannindi. Ég veit, að rektor mundi líta á það sem móðgun, ef þingið gerði einhverja samþykkt á þá leið, að hann skyldi búa í þessu húsi. Tvisvar sinnum hafa verið kvaddir til þess menn af hálfu stjórnarinnar að athuga möguleika á því að innrétta íbúð í þessu húsi, og í bæði skiptin hefur dómurinn verið á þá leið, að húsið sé með öllu óhæft til íbúðar. Þetta veit hv. þm. vel. Hann veit einnig, að þótt nú væri horfið að því að lappa upp á þetta hús, þá væru húsnæðismál rektors ekki leyst, og gæti hann þá ekki stundað starf sitt við skólann áfram. Þetta voru fjórðu eða fimmtu ósannindin í ræðu hv. þm. Svo koma enn ein ósannindin, svo sem auðvelt er fyrir hvern þm. sem er að ganga úr skugga um. Hv. þm. heldur því fram, að Reykjavíkurbær hafi bannað að nota landið í Laugarnesi, sem ríkisstj. hefur keypt, fyrir menntaskólann. Reykjavíkurbær getur ekki bannað að byggja menntaskóla á þessu landi. Reykjavíkurbær hefur þvert á móti veitt leyfi til þess að byggja menntaskóla, og það er ekki hægt að nota þetta land til annarra nota nema með samkomulagi við ríkisstj. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um ræðu hv. þm. S-Þ. Ég hef til gamans talið upp nokkuð af ósannindum, sem ég hjó eftir.

En viðvíkjandi þeim till., sem hér liggja fyrir, þætti mér bezt að samþ. væri till. meiri hl. fjvn., vegna þess að hún fer í þá átt, sem ég helzt hefði kosið. Ég álít bezt fyrir þessu máli séð, ef ríkisstj. gæti fengið íbúð í „Gimli“, auk þess sem hægt væri að nota þetta hús til annarra þarfa í þágu skólans. Ég veit ekki, hvort samkomulag næst um þetta, úr því sem komið er, en samt sem áður tel ég þetta svo mikilsvert, að ég mundi vilja gera þessa tilraun. Verði sú till. ekki samþ., vil ég mælast til þess, að till. verði samþ. eins og hún var borin fram, því að fyrir mér er það aðalatriðið, sem er mest aðkallandi, að rektor sé tafarlaust séð fyrir íbúð, og það er hægt að gera með því að kaupa það hús í Garðastræti, sem ríkisstj. stendur til boða. Mundi nokkur hluti þess húss nægja fyrir rektor, en hinn hlutann mætti nota til annarra þarfa, og eins og ég áður hef lýst, er full þörf fyrir allt húsið — og þótt meira væri — til ýmissa hluta.

Ef till. minni hl. fjvn. verður samþ., þá er málið alls ekki leyst með því móti. Að því er snertir fyrri hl. till., að gera tilraun til þess að útvega rektor leiguhúsnæði til bráðabirgða, þá get ég upplýst það, að í sumar voru gerðar ítrekaðar ráðstafanir og reynt að hafa öll útispjót til þess að útvega leiguhúsnæði fyrir rektor, eftir að útséð var, að „Gimli“ fengist ekki til þessara nota, en þetta mistókst algerlega, og ég geri ráð fyrir, að þm. geti rennt grun í það, hver ástæða var fyrir því, að svo erfitt var fyrir ríkisstj. að útvega leiguhúsnæði. Það er auðskilið mál og þarf ekki að skýra það. Það er þess vegna tómt mál að tala um. En síðari hl. till. er heimild fyrir ríkisstj. til að verja allt að 300 þús. kr. til byggingar eða kaupa á húsnæði fyrir rektor. Mér finnst þess vegna, nú þegar ég bið þingið um heimild handa ríkisstj. til að bæta úr þessu, að það sé furðumikið alvöruleysi af minni hl. að bera slíka till. fram. Samkv. þessari till. er að vísu heimilað að kaupa íbúð, en sá galli er á, að ekkert slíkt tilboð hefur legið fyrir undanfarið. Þó að reynt hafi verið að afla tilboða, hefur ekkert tilboð fengizt fyrir 300 þús. kr., sem rektor gæti við unað. Það gæti hugsazt, að innan skamms væri hægt að afla slíkra tilboða, en þá er engin trygging fyrir því, að það sé betra tilboð fyrir ríkisstj. eða hagkvæmara en það tilboð, sem nú liggur fyrir varðandi þetta hús í Garðastræti. Ég tel það efalaust, að þeir, sem hafa verið kvaddir til þess af hálfu ríkisstj. að skoða það húsnæði, sem á boðstólum er, séu á sama máli, og ég hugsa, að þeir menn viti það nokkru gerr en þeir þm. í fjvn., sem standa að þessari till. Ég tel það svona dálítið undarlega umhyggju fyrir hag ríkissjóðs að vilja endilega með ályktun frá Alþ. binda þannig hendur ríkisstj. í þessu máli, að henni sé ókleift að ganga að því tilboði, sem hún telur hagkvæmt. Við þetta bætist svo það, að ekki eru miklar líkur til þess, að hægt sé að fá íbúð fyrir þetta verð handa rektor, nema það sé í húsi með öðrum, en hæstv. fjmrh. hefur verið því andvígur og þótt það óviðkunnanlegt — og er ég honum þar sammála —, að ef keypt yrði íbúð, þá yrði það í sameign við einhverja aðra, ríkið keypti í sameign við einstaklinga. Ég treysti þess vegna því, að þessi till. minni hl. verði felld, vegna þess að hún leysir ekki málið. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að mikill meiri hl. Alþ. óski ekki eftir því, að ríkisstj. geti leyst þetta mál tafarlaust, þannig að rektor geti sinnt störfum sínum. Fyrir mér er það aðalatriðið, að það verði hægt tafarlaust að bæta úr húsnæði rektors. Mér er sama, hvort samþ. er till. meiri hl. fjvn. eða upprunalega till. Ég tel aðalatriðið, að önnur hvor till. verði samþ., enda þótt ég kysi frekar till. fjvn. af þeim ástæðum, sem ég hef áður nefnt.