18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (4565)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Það er búið að tala mikið um þetta mál. Það er ekkert nýtt mál, því að nokkur ár eru nú, síðan fjvn. fór um þetta mál að fjalla, því að það hefur verið svo, að þetta húsnæðismál rektors er gamalt vandamál, sem verður að leysa. Ég held. hvað sem því líður, hvort það sé lagaleg skylda fyrir ríkið að sjá honum fyrir íbúð, að þm. séu allir á einu máli um það, að það sé nauðsynlegt, að rektor búi í skólanum eða fast við hann.

Þetta er 100 ára gamalt hús, eins og kunnugt er, og var teiknað á sínum tíma úti í Danmörku. Á þeim tíma var það ekki venja, að kennarar byggju í skólahúsinu, heldur í húsi fast við skólastaðinn, enda er það svo í þessu húsi, að ekki er gert ráð fyrir því á teikningunni, að þar yrði íbúð handa rektor eða öðrum kennurum. Fyrsti rektorinn, Sveinbjörn Egilsson, bjó ekki í skólanum, og allir muna nú, hvað fyrir kom í hans skólatíð, „pereatið“, og þarf ekki að leiða getum að því, að svo hefði ekki farið, ef hann hefði búið í skólanum. Svo þegar næsti rektor, Bjarni Jónsson, tók við, var búin til íbúð handa honum í suðurendanum, þar sem prestaskólinn var áður. Hann hefur litið svo á, að fyrst ekki var hægt að fá íbúð við skólahúsið, þá væri nauðsynlegt að búa í sjálfum skólanum, og allt frá þeim tíma, 1854, hefur flest eða öll árin einhver kennari, yfirkennari eða rektor búið í skólahúsinu. Þetta þótti nauðsynlegt, og þá voru nemendur ekki nema innan við 100, og ekki nema nokkrir tugir sum árin, en á seinni árum fór þeim heldur fjölgandi. Nú eru nemendur komnir á fimmta hundrað, og það er látið viðgangast, að rektor búi 50 km frá skólahúsinu. Það hefur verið þannig, að eftir því sem nemendum hefur fjölgað, hefur verið erfiðara að halda íbúð fyrir rektor, því að skólinn hefur keppzt svo við að auka húsnæði fyrir nemendur.

Í minni tíð í skólanum fyrir 30 árum bjuggu tveir kennarar í skólanum, en eftir því sem nemendum fjölgaði og þörfin varð meiri fyrir húspláss handa þeim, var alltaf verið að taka meira og meira af þessum íbúðum. Fyrst var tekið af íbúðinni niðri, svo var þrengd meir og meir íbúð rektors, þangað til kom að því, að hann hafði aðeins eftir tvö herbergi með sameiginlegum inngangi við allan skólann og svefnkompur uppi á háalofti án þæginda. Það var ekki vansalaust, að rektor varð að fara kl. 8 á hverjum morgni, ef hann átti að geta þvegið sér, niður í íbúð, áður en hann byrjaði að kenna í skólanum. Þetta sjá allir, að var gersamlega óhugsandi til frambúðar. Allir sjá, að rektor með fjölskyldu sína og ungbörn, gat ekki búið innan um mörg hundruð nemendur, en það var sama sem svo væri, þar sem hann hafði ekki sérinngang í íbúðina, og ekki gat hann heldur farið út á ganginn, þar sem var fullt af ryki eftir mörg hundruð nemendur. Auk þessa höfðu kennararnir ekki nema litla stofu á neðstu hæð fyrir kennarafundi, sem var algerlega ófullnægjandi, svo að það varð að taka af íbúð rektors til þeirra hluta. Þess vegna var það 1930, þegar umbætur voru gerðar á skólanum í þessum efnum, að það kom strax til umr., hvort ekki ætti að sjá rektor fyrir sérstöku húsnæði á skólalóðinni eða fast við skólann, en ekki varð úr því á þeim árum. Árið 1936 var svo komið, að þrengt var svo að rektor, að hann gat ekki lengur í skólanum búið, og bjó hann þá nokkur ár utan við skólann. En það kom brátt í ljós á þeim árum, að ekki var hægt að hafa rektor skólans langt frá skólanum, og þess vegna var horfið að því ráði aftur, að hann flytti inn í skólann. Árið 1940 var skólinn hertekinn af Bretum, og setuliðið settist þar að og var þar tvö ár. Menntaskólinn var þá fluttur í háskólann, og fékk þá rektor íbúð í nánd við háskólann og býr þar þau ár, meðan skólinn var þar. Svo þegar menntaskólahúsið var aftur afhent ríkinu og farið að kenna þar, þá komu strax upp sömu vandkvæðin á því, hvernig fara eigi með rektor. Það var ekki fýsilegt fyrir hann að flytja inn í skólann, en þó gerði hann það fyrir þrábeiðni ríkisvaldsins með því fyrir fram gefna loforði, að hann fengi sæmilega íbúð á skólalóðinni eða fast við skólann, og þannig hefur þetta mál staðið síðan og stendur enn í dag. En þó er það verst nú, þar sem rektor býr nú í 50 km. fjarlægð frá skólanum og fjallvegur á milli, og þó hefur skólinn aldrei verið eins fjölmennur og nú. Þá er það, að rektor snýr sér til fjvn. 1943 og biður hana ásjár, og fjvn. fer og skoðar þessa íbúð, og ég held, að öll n. hafi þá verið sammála um það, að íbúðin væri ófullnægjandi og ekki hægt fyrir rektor að búa í henni til langframa, og fjvn. fékk því áorkað, að í fjárl. 1944 var sett á heimildagr., 22. gr., till. um það að heimila ríkisstj. að reisa annaðhvort hús á sjálfri skólalóðinni eða útvega rektor hæfilega íbúð í nánd við skólann. Fjvn. var á einu máli um það, að þegar talað var um í nánd við skólann, þá sé átt við þau hús, sem ríkið átti við Amtmannsstíg 1, og „Gimli“. Það voru þau hús, sem n. átti alltaf við, þegar talað var um íbúð í nánd við skólann, lóðir, sem ríkið átti sjálft. Ekkert hefur verið gert enn þá nema það, að utanþings-menntmrh. var falið að útbúa rektor íbúð í turninum á Amtmannsstíg 1, en það gat aldrei orðið nein íbúð, enda var aldrei litið við þessu, hvorki af rektor né öðrum. En 19431944 gerist ekkert í málinu, og 19. júní 1944 skrifar fjvn. ríkisstj. og þykir seint ganga og getur um, að þar eð ríkisstj. hafi tekið „Gimli“ eignarnámi til sinna afnota, þá vildi n. benda á, ef hægt væri að rýma „Gimli“, hvort með því væri ekki leyst húsnæðisspursmál rektors, og væri þá vilji fjvn., að hann fengi íbúð á þeim stað. Ég segi fyrir mig, að ég bjóst við, að þegar „Gimli“ var rýmt, væri það gert til að leysa þetta vandamál, enda var það vilji fjvn. Mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, án þess að ég vilji blanda biskupi landsins nokkuð inn í þetta mál, því að auðvitað á hann enga sök þar á, hvað hv. þm. S-Þ. er lítið nákvæmur. Við förum hvergi fram á, að biskup sé rekinn út úr húsinu skilyrðislaust. Ég get ekki séð, að það sé neitt ljótt, þótt reynt sé að leita samkomulags við hann og honum útveguð, ef um semst, betri íbúð á öðrum stað, því að ekki þarf hann að búa hjá menntaskólanum, en það er nauðsynlegt fyrir rektor að búa sem næst skólanum. Við erum ekkert að níðast á biskupnum, heldur viljum við aðeins leita samkomulags við hann um íbúðaskipti, því að ef hann vildi flytja, þá er þetta mál leyst. Ef þetta tekst ekki, viljum við heimila ríkisstj. að veita fé til annarrar lausnar á málinu. Ég tel till. meiri hl. leysa málið, og ef hv. þm. telja, að rektor eigi að búa hér í Reykjavík, þá samþykkja þeir till. Það mun þá koma fram við atkvgr., hvort hv. þm. vilja, að rektor búi hér og geti haft eftirlit með skóla sínum, eða hvort hann á að vera kyrr í 50 km. fjarlægð frá skólanum, sem vitanlega torveldar og getur gert ókleift eftirlit frá hans hálfu, ef veður og færð versnar frá því, sem nú er.