05.11.1946
Sameinað þing: 7. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (4585)

38. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Eftir ósk stjórnar Andakílsárvirkjunarinnar höfum við hv. þm. Mýr. borið fram þessa þáltill. til ríkisábyrgðar á viðbótarláni til virkjunar Andakílsár. Það hefur nú farið svo, síðan virkjunin var hafin nokkru fyrir mitt sumar 1945, að allmiklar breyt. hafa orðið bæði á verðlagi þeirra vara, sem notaðar eru við virkjunina, og einnig á kaupgjaldi, sem allt hefur hnigið í hækkunaráttina. Af þessu leiðir það, að í ljós er komið, þegar mjög er farið að síga á seinni hluta þessarar virkjunar, að sú áætlun, sem gerð var snemma á árinu 1944, fær ekki staðizt og kostnaðurinn er þegar kominn verulega fram úr því, sem þá var gert ráð fyrir. Orsökin til þess er í stuttu máli sú, að vísitalan, sem hluti af kaupinu er reiknaður eftir, er hærri nú en þá. Einnig hefur grunnkaup hækkað nokkuð á þessu tímabili. Einnig var nokkuð af efni til virkjunarinnar keypt, eftir að virkjunin hófst, en verðlag á slíku efni hefur farið mjög hækkandi á heimsmarkaðinum og heldur enn þá áfram að hækka. Greiðsla véla og virkjunarefnis var yfirleitt þannig, að greiddur var 1/3 hluti kaupverðs, þegar kaup voru gerð, en 2/3 við afhendingu vörunnar. Flestar vélarnar komu í sumar, eftir að gengi sænsku krónunnar hækkaði, og kemur þar til gengistap á 2/3 hlutum kaupverðsins. Hefur þetta haft mikil áhrif á kostnað við virkjunina.

Fullnaðaruppdrættir að vélum og undirstöðum þeirra bárust ekki til landsins fyrr en í apríl 1945, en þetta olli því, að ekki var hægt fyrr en þá að ákveða til fullnustu nákvæma stærð orkuvers og undirstöðu véla. Þá hefur það einnig haft veruleg áhrif á kostnaðinn við þessa,r framkvæmdir, að allt útlit er fyrir, að virkjunin standi allmiklu lengur en gert er ráð fyrir í upphafi. Þannig var ætlazt til, að vinna yrði hafin snemma á árinu eða vorið 1945, og stóðst það, vinna var þá hafin. En hins vegar var gert ráð fyrir, að framkvæmd þessa verks yrði lokið um 1. okt. 1946, en þetta hefur reynzt ókleift, og er sýnt, að virkjuninni verður ekki lokið fyrr en seinni part þessa vetrar eða fyrir næsta vor, þannig að virkjunin verði tiltækileg til nota, en þetta hefur einnig mikil áhrif á framkvæmd verksins og hlýtur að hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka. Kemur þar margt til, og í því sambandi má nefna vaxtatapið, sem verður náttúrlega því tilfinnanlegra sem virkjunin stendur lengur yfir og getur ekki farið að svara vöxtum. Þá felst þessi hækkun og í því, að gerðar hafa verið nokkrar breyt. á mannvirkinu, er miða að því að auka rekstraröryggi þess. Á það bæði við um vélar orkuvers og háspennuleiðslur, en auk þess eru gerðar ráðstafanir nú í upphafi til, að hægt verði að leggja fleiri línur út frá orkuverinu, og með því skapaðar betri aðstæður til að tengja orkuverið við önnur langlínukerfi. Árni Pálsson verkfræðingur, sem er trúnaðarmaður virkjunarinnar um allar þessar framkvæmdir og hefur staðið að áætluninni, gerir grein fyrir því í stórum dráttum, í hverju aðalhækkanirnar eru fólgnar, og er þetta sundurliðað hér í þeirri grg., sem Árni Pálsson hefur skrifað og er prentuð hér með grg. Mér þykir ekki ástæða til að fara út í þá sundurliðun frekar en felst í þessu erindi hans. En samkv. þeirri niðurstöðu, sem hann hefur fengið, þá hefur sú áætlun, sem gerð var snemma árs 1944 og var 8820 þús. kr., komizt upp í 12340 þús. kr. og á þá að vera tekið með allt, sem gæti leitt til aukins kostnaðar við framkvæmd þessa verks. Það er að vísu lítils háttar af efni enn þá ókomið til landsins, en talið af mönnum, sem bezt þekkja til í þessum efnum, að það verði tæplega sá dráttur á því, að þetta efni komi til landsins, að sú áætlun, sem nú er gerð um að ljúka verkinu, geti ekki staðizt þeirra hluta vegna, og þær verðlagsbreyt., sem þar gæti orðið um að ræða, er einnig talið af kunnáttumönnum, að geti ekki valdið verulegum breyt. frá því, sem felst í þessari nýju áætlun.

Alþ. hefur ákveðið að veita ábyrgð fyrir 85% af hinni fyrri áætlun, sem veitt var í tvennu lagi, og hæstv. ríkisstj., bæði sú, sem var hér áður, og núverandi hæstv. ríkisstj., hafa greitt fyrir þessu máli á allan hátt eftir beztu getu. — Vil ég svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til fjvn.