10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (4591)

38. mál, virkjun Andakílsár

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 241 segir, hefur fjvn. orðið sammála um að mæla með samþ. þessarar till. Eins og sjálfsagt var, sendi n. till. til umsagnar rafmagnseftirliti ríkisins og fékk ýtarlega grg. varðandi þetta mál og hliðstætt fyrirtæki. Í þessari grg. var ræddur stofnkostnaður þessara tveggja fyrirtækja og auk þess ráðgert um framtíðarrekstur. Enn fremur fékk n. upplýsingar hjá Árna Pálssyni verkfræðingi og fékk ýtarlegt álit hans og skýringar um þetta mál, bæði um breyt. á stofnkostnaði fyrirtækisins og ýmsar bendingar um rekstur þess. N. hefur því fengið þær upplýsingar, sem leiða til þess, að hún mælir með, að þessi till. verði samþ. Sömuleiðis lagði forstöðumaður rafmagnseftirlitsins til, að till. yrði samþ. N. dylst ekki, að stofnkostnaður er svo mikill, að selja verður rafmagnið nokkuð dýrt, en miðað við kringumstæðurnar eru líkur til, að hægt verði að gefa upp það verð, sem þarf til að fyrirtækið geti borið sig fjárhagslega. Að vísu mun reksturinn verða erfiður fyrst í stað, eins og oft er með þess konar fyrirtæki, en nokkuð bætir það úr, að samið hefur verið um lán, sem er afborgunarlaust fyrstu þrjú árin. Ég vil enn fremur geta þess í sambandi við stofnkostnaðinn, sem er 12,3 millj., að búið er í haginn fyrir framtíðarvirkjun, og er nú hægt að auka orkuna úr 5 þús. hestöflum upp í 12 þús. hestöfl. Stíflan kemur að notum fyrir framtíðina og auk þess hluti af stöðvarhúsinu fyrir nýja vélasamstæðu. Það, sem þarf að gera til að bæta við ? þús. hestafla orku, er að fá nýja pípulagningu og nýja vélasamstæðu og auk þess stækkun á stöðvarhúsinu. Ég vildi taka það fram með tilliti til stofnkostnaðar, að í honum felst undirbúningur undir meiri hagnýtingu þessarar orku. Ég held, að ég hafi ekki meira að segja fyrir hönd n. að svo komnu máli, en n. leggur til, að till. verði samþ. 2. þm. N-M. hafði fengið fjarvistarleyfi, þegar gengið var frá afgreiðslu þessa máls, en hann mun sammála öðrum nm. um þessa till.