16.01.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (4608)

115. mál, innflutningur nýrra ávaxta

Jónas Jónsson:

Eins og hv. d. hefur tekið eftir, bæti ég vatill. við till. á þskj. 213. Þá vil ég og láta þess getið, að mér heyrðist á hv. 1. flm., að hann væri því samþykkur fyrir sitt leyti, að felldur yrði niður tollur á ávöxtum, en eins og kunnugt er, er talsverður tollur á sumum tegundum ávaxta, og verður það að teljast mjög slæmt að hafa tolla á þessari vöru fremur en á nauðsynjavörum.

Ég skal ekki fara út í það, sem allir vita, að mjög lítið er um ávexti hér á landi og þeir lélegir upp á síðkastið. Þess vegna er ekki nóg að leyfa nægan innflutning af þessari vöru til landsins, heldur þarf að komast á annað skipulag en verið hefur, að því er snertir geymslu, því að þetta er vara, sem erfitt er að geyma, og það er einmitt í sambandi við geymsluna fyrst og fremst, að ég legg fram þessa vatill.

Nú er svo mál með vexti, að búið er að byggja hér við bæinn, þ.e. við Elliðaár, nýja tegund geymslu, sem vel getur komið til greina í þessu sambandi. Er meiningin að geyma þar kartöflur, gulrófur o.fl., og þessi geymsla er á þann hátt sem ávaxtageymslur eru erlendis, og lítur út fyrir, að í þessari geymslu mætti geyma ávexti óskemmda í eina 6–8 mánuði, og því er þetta mikið atriði bæði fyrir Reykjavík og aðra staði, því að ef fá á góða ávexti, verður að kaupa þá á heppilegum árstímum og geta geymt þá, þannig að þeir haldist óskemmdir, og fæ ég ekki séð, að það verði tryggt með öðru móti en á þennan hátt. Í öðru lagi vita menn, að nú hafa hér verið byggð skip með kælirúmum, þannig að í náinni framtíð ætti að vera hægt að tryggja, að flytja megi hingað óskemmda ávexti á þann hátt, sem ekki hefur verið hægt til þessa. Ég held, að ekki megi koma þessu fyrir tryggilegar öðruvísi en að ríkisstj. hafi um þetta samráð við innflytjendur, hvar ávextirnir eru keyptir o.s.frv., og setji það skilyrði, að búið sé þannig um það hér heima, að varan sé ekki óæt, sem annars auðvitað yrði okkur til mikils tjóns, sbr. síðustu ávaxtasendingu. Ég tel það mikið óhapp, að ekki skuli flytjast til landsins nægilegt af óskemmdum ávöxtum. Einn maður úr læknastétt, Gunnlaugur Claessen, hefur oft reynt að sannfæra menn um, að ávextir væru ekki lúxusvara. Og smátt og smátt held ég, að menn séu að komast að raun um, að það eina, sem okkar vantar, til þess að fæðið hjá okkur geti talizt verulega gott, eru einmitt nýir, óskemmdir ávextir. Ef alltaf væru til á boðstólum hér á staðnum og annars staðar nýir, óskemmdir ávextir, á alveg sama hátt og t.d. kornvara, þá væri það ekki efninu að kenna, þótt við hefðum lélegt fæði, en þetta er einn þátturinn í því, að ávextir þurfa að koma í okkar mataræði sem fastur liður.

Ég vona svo, að þær góðu undirtektir, sem málið hefur fengið hér, verði byrjun á nýju viðhorfi í þessum efnum, að þjóðin láti sig vanta ýmislegt annað af því, sem flutt verður inn.