22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (4618)

123. mál, flutningur íslenzskra afurða með íslenskum skipum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Með þessari till. er farið fram á, að Alþ. skori á ríkisstj., að íslenzkar framleiðsluvörur verði fluttar með íslenzkum skipum til erlendra hafna. Það er almennt vitað, að Íslendingar vilja nota íslenzk skip til flutninga, svo sem kostur er á. En enn sem komið er, þá er íslenzkur skipastóll ekki svo stór, að hann geti fullnægt þörfum landsmanna, og hefur þess vegna orðið að notast við erlend skip. Nú gerir málsflytjandi ráð fyrir, að allmikill skipakostur muni bætast við skipastólinn í náinni framtíð. Hins vegar er allt á huldu um það, hvernig þessum ráðstöfunum skuli háttað. N. vill taka undir þá meginósk, sem felst í till., en vill breyta þar jafnframt því orðalagi, er ríkisstj. áhrærir, eins og brtt. á þskj. 297 ber með sér. Í stað orðanna „að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess“ komi: að stuðla að því. Það er sú leið, sem n. virtist vera fær, því að óhætt er að æskja þessa af ríkisstj., þar eð vitað er, að nú er svo háttað (og var á stríðsárunum), að ríkið og ríkisstofnanir er það mikill aðili að flutningum, að með góðri tilstuðlan og áhuga má töluvert að því stuðla, að íslenzk skip sitji fyrir um þá, og í þessu formi leggur n. til, að till. verði samþ. Hins vegar er það jafnan stórt spursmál, sem veldur örðugleikum, ef flutningar með íslenzkum skipum verða að vera svo miklum mun dýrari en með erlendum skipum, eins og verið hefur undanfarin ár. Það getur engin ríkisstj. eða Alþ. læknað það böl, ef það á svo til að ganga, að íslenzk skip séu miklu dýrari. Þá munu allir landsmenn reka sig á þá staðreynd, að það getur ekki gengið um óákveðinn tíma, að ríkið geri ekki sérstakar ráðstafanir til að draga úr vöruflutningakostnaðinum. Þeir kosta landið allt of mikið, og þetta verður óviðráðanlegt í framtíðinni, ef ekkert er gert. Fyrir hönd allshn. leyfi ég mér að mæla með því, að till. þessi verði samþ., og læt þá von og ósk í ljós um leið, að þeir, sem næst standa þessum atvinnuvegi, freisti þess fljótlega að gera Íslendinga samkeppnisfæra um flutninga, bæði okkar eigin flutninga og á heimsflutningamarkaðinum, ef svo má að orði komast. Hvort þetta tekst, og þá hve fljótt, verður ekki hér um dæmt. Hitt er vitanlegt, að það, sem siglingar Íslendinga eiga víst, er það, að þeim kemur til að farnast vel eða miður eftir því, hvort kostnaður þeirra helzt í sama horfi og annarra þjóða, sem nú keppa við Íslendinga, jafnvel um flutning þeirra eigin afurða og innflutningsnauðsynja.