20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (4625)

114. mál, Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get látið nægja að fara fáum orðum um þetta mál. Ég get skírskotað til nál. og þess fskj., sem birt er varðandi þetta mál.

N. þótti ekki fært að fallast á till. óbreytta, eins og hún er fram borin, vegna þess að það, sem mestu máli skiptir varðandi þessa framkvæmd, er ekki upplýst nægilega vel af hálfu þess manns, sem n. bjóst við, að hefði aflað sér mestra kunnugleika um þetta efni bæði þarna og annars staðar. N. fannst rétt að fá fyrst upplýst um skilyrði til hrygningar fyrir laxinn fyrir ofan þessa fossa. Ef upplýsingar þessar, er þær liggja fyrir, leiddu það í ljós, að laxinn gæti þarna hrygnt og aukið kyn sitt við góð skilyrði, er n. því fylgjandi, að þá væri athugað um framkvæmd þessa verks í sambandi við virkjun árinnar, eins og getið er um í grg. hv. flm. Það er síður en svo, að n. vilji á nokkurn hátt hindra eða tefja fyrir þessu máli. N. vill aðeins, að áður en hafizt sé handa, skuli rannsaka, hvernig skilyrði séu fyrir laxinn þarna fyrir ofan fossana. Okkur í n. fannst ekki hægt að ákveða um þetta, fyrr en fyrir lægi einhver vitneskja um þetta atriði. Með hliðsjón af þessu skal litið á brtt. n. á þskj. 418. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar af hálfu n.