20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (4628)

114. mál, Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég sé ekki í þessu nál. hv. allshn. né í umsögn veiðimálastjóra, hvað gert er ráð fyrir, að það kosti að gera þá athugun, sem fyrirhugað er að framkvæma. Ég hefði þó talið, að það væri ekki aukaatriði. Hér er sagt, að áður en ákveðið er, hvort byggja skuli fiskiveg, sem sé mikið mannvirki, þá þurfi fyrir að liggja allnákvæmt álit frá fiskifræðilegu sjónarmiði. Það er ekkert um það sagt í till. n., hver eigi að greiða þennan kostnað eða hve miklu skuli verja til þessara hluta. Ég mun því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt., sem hljóðar svo:

„Aftan við tillgr. á þskj. 418 bætist: Kostnaðurinn greiðist sameiginlega af þeim aðilum, sem veiðirétt eiga í ánni, enda verði athugunin framkvæmd í samráði við þá.“

Hér er ákveðið, hverjir skuli bera kostnaðinn af framkvæmdum þessum, og því um leið alveg slegið föstu, að hér verði ekki farið í aðrar eða meiri framkvæmdir en það, sem þessir viðkomandi aðilar telja, að eðlilegt sé. Og ég vil gera grein fyrir því, hvers vegna ég ber þessa brtt. fram. Á fjárl. fyrir árið 1946 er liður á 16. gr. (28. liður), þar sem kostnaður vegna laga nr. 112 frá 1941, um lax- og silungsveiði, er áætlaður 15 þús. kr., sem að mestu er laun til Ólafs á Hellulandi til leiðbeiningarstarfsemi. En á fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir þessu þingi, fyrir árið 1947, er þessi liður kominn upp í kr. 104.980, og þó er ekki bætt við kostnaði við laun þessa nýja veiðimálastjóra ásamt aðstoðarmanni hans, skrifstofukostnaði 8 þús. kr., ferðakostnaði 10 þús. kr. og öðrum kostnaði 10 þús. kr. Þess utan er um að ræða 30 þús. króna styrk, sem veittur er til fiskiræktar. — Ef þetta á að sex- eða sjöfaldast á hverju ári, tel ég, að það beri bráða nauðsyn til að breyta til í tilhögun þessara mála, þannig að þessi kostnaður verði endurgreiddur af þeim mönnum, sem tekjur hafa af ánum. Það er viðurkennt, að laxveiðiárnar gefi miklar tekjur. Það er skemmtiatriði þeirra, sem efni hafa á því að veiða lax í þeim, og þessir menn greiða oft 100 til 200 kr. fyrir afnot af laxveiðistöng á dag. — En hér er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði á annað hundrað þús. kr. á ári til þess að auka þessar miklu tekjur, sem menn hafa af laxánum.

En ég ber brtt. mína fram til þess að vekja athygli á þessu máli, til þess að hv. þm. athugi, hvort ekki sé rétt að stemma stigu fyrir meiri útgjöldum úr ríkissjóði en orðið er til þessara laxveiðimála. Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. og vænti þess, að hún verði samþ.