20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (4632)

114. mál, Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Af hálfu hv. flm. kom ekki fram eiginlega neitt sérstakt nú, sem við vorum ekki búnir að tala um áður.

En út af brtt. hv. þm. Barð. vil ég segja, að það finnst mér mjög óréttlátt, að héraðsbúar greiði kostnað við þessa athugun. Sú athugun í þessu sambandi, sem að ánni sjálfri lýtur, heyrir undir starf þess manns, sem ráðinn er m. a til slíkra starfa eins og þess að athuga um slík mál. Og ætti þess vegna ekki að verða vegna þessarar rannsóknar um neinn aukinn kostnað að ræða fyrir ríkið nema einhvern smávægilegan ferðakostnað. Gæti þessi maður að sjálfsögðu athugað fleiri ár, um leið og hann athugaði Laxá, sem mundi líka minnka ferðakostnað við það að rannsaka Laxá út af fyrir sig. En viðvíkjandi virkjun og þess konar er það að segja um þennan stað, að það eru alveg sérstakir kunnáttumenn, sem rannsaka aðstæður frá sjónarmiði virkjunarinnar, sem þá vinna á vegum þeirra, sem ætla sér að standa að virkjuninni. Og fiskiræktarráðunauturinn og verkfræðingur eða verkfræðingar, sem athuguðu þennan stað, yrðu þá að bera ráð sín saman. Þess vegna er það, að sá litli kostnaður fyrir ríkissjóð, sem kemur til með að verða af athugun á þessari á í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, hann telst beinlínis til þess, sem heyrir starfi þessa trúnaðarmanns til, og er því algert aukaatriði. — Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. þm. fari ekki að samþykkja þessa brtt., sem hér er nú fram komin og mér finnst, að sé ekki réttlát og heldur ekki þörf á henni í þessu máli. En það þarf hv. þm. Barð. ekki að furða, þó að ekki standi í nál. áætlun um kostnað við framkvæmd þessa verks, athugunarinnar á Laxá í þessu tilliti, sem hér er um að ræða, vegna þess að það hefur engin slík athugun farið fram enn þá. — En rannsókn í sambandi við virkjun þarna snertir náttúrlega ekkert þetta mál, sem hér liggur fyrir, út af fyrir sig.