11.03.1947
Sameinað þing: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (4680)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég veit það vel, að það er nauðsynlegt, að Alþ. styðji hreppsfélög og bæjarfélög til að koma á hjá sér togaraútgerð.

Það verður að gera þær aðgerðir, sem duga, þegar fátæk bæjarfélög eiga í hlut, sem ekki geta lagt peningana á borðið, eins og menn í Reykjavík. Í þessu augnamiði samþykkti síðasta Alþ. þál., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið ábyrgist 10% af kostnaðinum til viðbótar því, sem stofnlánadeild sjávarútvegsins veitir.

Í þessari þáltill. er farið inn á sömu braut, hvað snertir Stykkishólm. Stykkishólmur sótti um togara, en fékk hann ekki vegna þess, að þeir treystu sér ekki til þess að borga þau 15%, sem tilskilið var, sem þá var búizt við að yrði 450000 kr.

Ég held, að það sé nauðsynlegt, að þegar ríkið ætlar sér að hjálpa, þá geri það það myndarlega, svo að lagður sé varanlegur grundvöllur að atvinnurekstri, sem beri þá staði uppi, eins og það hefur borið Reykjavík uppi. N. ætti því að athuga, hvort ekki eru tök á að tryggja Stykkishólmi nýjan togara.

Ef Stykkishólmur keypti nýjan togara, t.d. dieseltogara, sem er minni togari en Viðey, og ef þeir ættu að greiða 15%, sem gerir 1/4 lægra en þeir þurfa nú að borga, ef þeir kaupa Viðey, þá er augljóst, að það er engin frágangssök. Þegar Alþ. ætlar sér að koma stóratvinnutækjum út á land, þýðir ekki að fara eftir neinum venjulegum fjármálaleiðum eða duttlungum fjármálaspekinga í Reykjavík, það verður að koma tækjunum út á land og hætta á það, því að ríkið yrði að lána þessi 100%. Þetta verður að gerast. Það verður að stíga stór spor, ef ekki á að drepa nýsköpunina, og til þess verður ríkið og bankarnir að leggja fram meir en 85%.

Þeir bæir, sem fengið hafa loforð fyrir skipum, eiga að borga þau á 20 árum með 21/2% vöxtum. Í till. um ríkisábyrgð var gert ráð fyrir, að ríkið greiddi 10%, en bæirnir hafa ekki enn fengið þessa greiðslu hjá Landsbankanum. Og hvað þýðir þá fyrir Alþ. að gera ráðstafanir til að koma upp stóratvinnurekstri úti um landið, ef bankarnir neita að hlýða? En þetta er nauðsynlegt og hefur eins mikið að segja fyrir bæina úti um landið, eins og var fyrir Reykjavík, þegar togararnir komu hér fyrst.

En það verður að tryggja, að þetta sé gert. Bankarnir eru ekki enn búnir að gera skyldu sína, og ég skil ekki, hvaða vald Alþ. hefur, ef það getur ekki skipað bönkunum að hlýða. Ég get ekki skilið það, að þegar búið er að velta af sér dönsku embættismannavaldi, að þá sé ekki hægt að láta innlenda embættismenn hlýða Það er ekki nóg að gera samþykktir um framkvæmdir. Það verður að láta bankana hlýða.

Þegar bæjarfélögin eru búin að fá þessa samþykkt í hendur, verða þau að gera út menn til þess að reyna að ná þessu fé, þessum 10%. Svona ástand getur ekki gengið. Svona nokkuð væri skiljanlegt, ef bankarnir væru einkaeign, en þegar þeir eru eign þjóðarinnar, er þeirra að hlýða vilja Alþ. Ég vil því nota þetta tækifæri til að spyrja um það, hvort bankarnir fari ekki bráðlega að greiða þetta fé. Það er nauðsynlegt að fá þetta upplýst sem fyrst, því að það er gengið út frá, að svona samþykktir séu framkvæmdar, en þær eru nú að stranda á bönkunum.

Ég vænti svo, að fjvn. taki málið til vandlegrar athugunar, svo að málið komi sem fyrst fyrir þingið aftur, svo að það komi í ljós, hvort Alþ. hefur vald til þessara framkvæmda.