11.03.1947
Sameinað þing: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (4681)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af því, sem hv. þm. V-Húnv. beindi til mín, leyfa mér að upplýsa einstök atriði í sambandi við þetta mál.

Fulltrúar frá Stykkishólmi, hreppstjórinn og kaupfélagsstjórinn, komu til mín um jólin og svo nokkru síðar til þess að ræða þessi mál við mig og fá leiðbeiningar frá mér sem tekniskum ráðunaut. Ég sendi þá bréf til útgerðarmanna til þess að vita, hvort þeir vildu selja nokkur skip. Við þessu komu aðeins 3 tilboð, 2 frá félögum, sem ég er meðeigandi að, og svo þetta hið þriðja. Það var langhagstæðast, og ráðlagði ég þeim að samþykkja það tilboð.

Hvað því viðvíkur, að þetta verð sé hærra en þegar skipið var selt frá Kveldúlfi, þá ber það að athuga, að á milli kom klassaskoðun og klassaviðgerð. Þá var árið 1946 framkvæmd viðgerð á því fyrir 1 millj. kr. Það var þá byggt upp, skrokkurinn og vélarnar, þó að það sé auðvitað ekki nýtt, því að gömul skip verða aldrei ný. Þá er og þess að gæta, að í þessari upphæð eru innifalin kol og veiðarfæri, og er mér tjáð, að tilboðið sé á þann veg, að greiða eigi strax 200 þús. kr. og afganginn með jöfnum afborgunum á 5 árum með 4% vöxtum. Ég hygg, að ekki muni hægt að fá betra tilboð innanlands, þar sem skipið er byggt 1925, en ný vél sett í það 1929, og má segja, að það sé í góðu ástandi.

Það er ekki hægt að bera þetta skip saman við þau, sem seld hafa verið til útlanda, því að þau hafa flest verið í mjög lélegu ásigkomulagi. Því til sönnunar má geta þess, að fyrrv. atvmrh. leyfði alls ekki útflutning skipa nema þeirra, sem voru í föllnum klassa eða mjög lélegu ástandi. Sem dæmi upp á þau skip, sem seld hafa verið út, má nefna Kára ásamt fleirum. Slík skip standast að sjálfsögðu engan samanburð við það, sem hér er um að ræða. Aths. hv. þm. V-Húnv. varðandi verðið eru því á misskilningi byggðar og sennilega fram komnar vegna ónógra upplýsinga í málinu.

Þá vil ég geta þess, að dieseltogaratilboðið frá mér lá ekki fyrir, þegar málið var rætt. Það skip er byggt í Beverry 1946. Ég hef sent umboðsmanni mínum fyrirspurn um það, hvernig skipið hafi reynzt í reynsluför sinni, og spurði sérstaklega um eitt atriði, sem ég var ekki ánægður með. Nú hefur mér borizt svar þess efnis, að skipið hafi reynzt í alla staði vel, en fæ síðar nánari skýrslu um reynsluförina. Ég tel það athugandi fyrir Stykkishólm, hvort tilboðið sé heppilegra fyrir staðinn. Þetta skip er allmiklu minna, eða 133 fet í stað 140 á hinu skipinu, og lestatalan mun vera um 100 tonnum minni, en burðarmagnið tiltölulega meira, en fiskirúmið tæplega eins mikið og í Viðey. Ég mun nú ræða þetta mál nánar við flm. og í fullu trausti gefa mínar beztu upplýsingar. Þá lofa ég líka að taka málið fyrir til athugunar og afgreiðslu í fjvn. eins fljótt og mögulegt er.