11.03.1947
Sameinað þing: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (4682)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Jónas Jónsson:

Ég heyrði 2. þm. Reykv. tala með hávaða um vonda veröld og að Landsbankinn vildi ekki hlýða Alþ. Ég geri ráð fyrir, að þessi þm. verði ekki ánægður, fyrr en þessi stofnun lægi í rústum, sem honum vonandi ekki gefst, þó að skemmdarstarfsemi hans hafi mikið eyðilagt. Honum brást sú von að fá áfram að leika sér að verðmætum þjóðarinnar og sú ósk að ná undir sig og sitt fylgdarlið seðlaútgáfunni til fjármálaskemmtana. Í þess stað verður hann að láta sér nægja að sitja hér hjá okkur hinum niðri á jafnsléttu og hrópar bara um, hvað veröldin sé vond. Það er svo sem engin launung, hvað þessi þm. vill. Hann vill fá skipulag eins og í Rússíá, en til þess að koma þessu skipulagi á ætlar hann fyrst að leggja allt í rústir. Á meðan þessi þm. sat í stjórn, komst hann vel áleiðis með þessa skemmdarstarfsemi sína, en þó var það ein stofnun, sem honum tókst ekki að eyðileggja, og það var Landsbankinn. Nú gerir þessi þm. líka allt, sem í hans valdi stendur, til að breyta skipulagi þessarar stofnunar, sem var honum ofvaxin í eyðileggingarstarfseminni. Það má líkja þessum ofsóknum kommúnista á Landsbankann við það, þegar Eggert Gunnarsson fór upp á strompinn og leit yfir byggðina, en sá aðeins hálft annað kot óveðsett. Landsbankinn er nefnilega eins og þetta eina og hálfa kot, sem fyrrv. stjórn tókst ekki að koma fyrir kattarnef. Skipulagningu Landsbankans er nú þann veg farið, að fyrst eru yfir honum þrír bankastjórar, þá fimm manna bankaráð og síðan sextán menn í landsbankanefnd, svo að það virðist vera sæmilegur hópur stjórnenda. En svo kemur þessi þm. með þá vitleysu að bæta við 52 þm. til þess að stjórna þessu fyrirtæki og ákveða starfsemi þess. Það er fullvíst, að með því móti yrði fljótt gert út af við þessa stofnun, a.m.k. ef flokksbræður 2. þm. Reykv. réðu einhverju í þessum hóp, enda er það markmið þeirra. Skoðanir þessa þm. eru heldur ekki bornar fram nema af fíflum og fábjánum, að Landsbankinn eigi að vera háður duttlungum þingsins. Menn, sem halda slíku fram, ættu að vera þingrækir. 2. þm. Reykv. ætti því að halda sér saman, því að hann má vita, að gjamm hans verður að engu haft.