28.03.1947
Sameinað þing: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (4687)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál kom til fjvn. þann 11. þ. m., en vegna annríkis vannst ekki tími til að afgreiða það fyrr, og er nú nauðsynlegt að hraða afgreiðslu þess sem mest. Eins og segir í grg. fyrir till., hefur Stykkishólmshreppi boðizt togarinn „Viðey“ fyrir 1200 þús. kr., hvar af 200 þús. kr. eiga að greiðast við afsal, en eftirstöðvar með jöfnum afborgunum á næstu fimm árum og 4% ársvöxtum. Skyldu fylgja með í kaupunum kol, veiðarfæri, ís og annað, sem nauðsynlegt er í eina veiðiför. Skipið hafði fengið klassaskoðun og víðtæka viðgerð á s.l. ári, er nam rúml. 1 millj., og er samkv. upplýsingum frá eftirlitsmönnum talið að vera í mjög góðu ásigkomulagi. Hreppnum höfðu einnig boðizt 3 aðrir togarar innlendir, tveir fyrir sama verð, en einn fyrir allt að þriðjungi lægra verð, en tilboð þau voru af ráðunaut hreppsins í þessu máli. talin mjög miklu óhagstæðari. Þá hafði hreppnum og boðizt nýr dieseltogari 133 feta fyrir £65,000, en með því að upplýst var, að nauðsynlegt mundi að gera víðtækar breytingar á því skipi, áður en það uppfyllti þær kröfur, sem gerðar eru samkv. fyrirmælum um eftirlit skipa, og vitað var, að það mundi kosta mikið fé og taka langan tíma, auk þess sem það skip rúmaði aðeins 70% af afla, borið saman við rúmmagn b/v Viðeyjar, vildi hreppurinn ekki sinna því tilboði. Þá er og upplýst fyrir n., að tekizt hefur að fá lánsvextina lækkaða úr 4% í 21/2% og jafnframt að tryggja, að sá arður, sem kann að verða af þeirri veiðiferð, sem skipið nú er í, fylgi með í kaupunum til hreppsins án verðhækkunar á fyrrnefndu söluverði. Á þessum grundvelli hefur málið síðan verið rætt við fjmrh., sem hefur tjáð n., að hann mundi nota heimildina, ef Alþ. samþykkir þáltill.

N. gerir ráð fyrir því, að sem trygging fyrir láninu verði ríkissjóði gefinn 1. veðréttur í skipinu og auk þess ábyrgð hreppsins. Gert er ráð fyrir í þáltill., að Stykkishólmshreppur eða hlutafélag, sem hreppurinn er aðalhluthafi í, kaupi togarann. En meiri hl. n. vildi, að skilyrðið fyrii ríkisábyrgð væri það, að hreppurinn einn keypti togarann, og leggur til breyt. samhljóða því áliti. Þrír af nm. hafa þó skrifað undir með fyrirvara. Einn þeirra, hv. 1. landsk., er hér ekki við, en fyrirvari hans mun aðallega hafa stafað af því, að hann vildi helzt, að nýtt skip yrði keypt. Í öðru lagi lagði hann áherzlu á, að hreppurinn einn keypti togarann. Hinir, er undirrituðu með fyrirvara, eru þeir hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf., og munu þeir gera grein fyrir sínum fyrirvara. Af misgáningi féll niður nafn eins nm., hv. 2. þm. Rang., er nál. var prentað. Þetta er mjög þýðingarmikið og aðkallandi mál, og vona ég því, að það nái afgreiðslu á þessum fundi.