28.03.1947
Sameinað þing: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (4691)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef gert fyrirvara í máli því, sem nú er til umr. Efnislega hef ég getað fallizt á afgreiðslu málsins með þeim skilyrðum, sem sennilega má reikna með, að felist í till. En ég tel varhugavert, að Alþ. fari inn á þá braut að veita ríkisábyrgð til kaupa á gömlum skipum. Hingað til hefur slík ábyrgð miðazt við ný skip, og ég hefði óskað, að hún yrði eins og áður miðuð við nýbyggð skip. Nú hefur þetta hins vegar ekki verið talið hagkvæmt í þessu tilfelli, og eru þær ástæður tilgreindar, að kauptúnið ráði ekki við nýtt skip. Þótt ég telji þetta ekki frágangssök í þetta skipti, eins og á stendur og um hnútana er búið, þá vil ég benda á, að mitt atkv. er þó bundið því, að það komi skýrt fram, sem væntanlega má nú skilja af till. sjálfri, að ábyrgðin sé til handa hreppsfélaginu einu, sem reki þetta fyrirtæki. Ef út á þá braut væri farið, að ríkið ábyrgðist slík lán til hlutafélaga, þá vil ég engan þátt taka í því, það hefur ekki tíðkazt hér á Alþ., slíkar ábyrgðir hafa eingöngu verið miðaðar við bæjarfélög. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram, mín afstaða í málinu, mitt atkv. er bundið við hreina bæjarútgerð, en mér skilst, að hinir tveir nm., sem gert hafa fyrirvara, séu á gagnstæðri skoðun. Ég mun síðan greiða atkv. með till. á þskj. 594 eftir að hafa látið í ljós þessa sérskoðun mína.