28.03.1947
Sameinað þing: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (4692)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Pétur Ottesen:

Út af því, sem hér hefur komið fram, að varahugavert sé að veita hlutafélagi ríkisábyrgð, þótt sveitarfélag sé með í fyrirtækinu, þá vildi ég spyrja, hvort reksturinn væri ekki jafnöruggur í höndum hlutafélags og bæjarfélags. Skyldi áhættan vera meiri í fyrra tilfellinu? Ég get ekki gengið inn á það. Hitt atriðið, sem kom fram hjá hv. frsm., var það, að varhugavert væri út frá öðru sjónarmiði að veita hlutafélagi slíka ábyrgð, sökum þess að fleiri mundu fljótt koma á eftir, og þyrfti há að breyta ákvæðum hlutafélaganna. Ég get fallizt á það. En ég bendi á, að Alþ. hefur slíka lagabreyt. alveg í hendi sinni, ef á þarf að halda í sambandi við veitingu slíkrar ábyrgðar. Ég veit ekki betur en stuðningur ríkisins við atvinnuvegina og útvegun atvinnutækja miðist og eigi að miðast við það, að slík tæki verði til uppbyggingar fyrir þjóðfélagið og að þau geti þrifizt og borið sig og gefið beinan eða óbeinan arð. Og ef sá tilgangur næst með stuðningi ríkisins, þá sé ég ekki mun á, í hvaða höndum þau atvinnutæki eru, sem stuðningsins njóta. Eins bendi ég á það, sem hv. frsm. tók undir, að varhugavert væri gagnvart ríkissjóði, ef þessi atvinnurekstur hverfur yfir í bæjarútgerð eða bæjarrekstur, með tilliti til þess skattkerfis, er við búum við. En þá er þess að gæta, að Alþ. hefur einnig í hendi sér að breyta skattal., eins og það getur breytt hlutafélagal. Þetta hvort tveggja er jafnt á valdi Alþ., sem getur gert sínar ráðstafanir í samræmi við það, hvor þessi leið verður farin. En hin skrifl. brtt. markar sjónarmið okkar flm. hennar.