13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (4704)

53. mál, meðferð opinberra mála

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins vegna þess, að þetta mál er lagt hér fram í nokkuð óvenjulegu formi, að ég vil fara um það nokkrum orðum. Meginefni till. er það, að skora á ríkisstj. að flytja þetta ákveðna mál, um meðferð opinberra mála, hér á Alþ. og í því formi, sem það hefur legið fyrir áður. Nú er svo högum háttað, eins og hv. flm. veit, að hæstv. dómsmrh. er ekki á landi hér, og mér er ekki kunnugt um, hvaða undirbúning hann hefur haft í þessu máli, og þó að ég gegni störfum fyrir hann um stuttan tíma, þá tel ég ekki rétt að fara út í að flytja þetta mál nema í samráði við hann og án þess að ég viti, hvaða hug hann hefur haft um framkvæmd þessa verks. Þess vegna geri ég ráð fyrir því, hvað þessa þál. snertir, að ég mundi varla treysta mér til að framkvæma hana, nema því aðeins að hafa um það samráð við hann. En að öðru leyti virðist liggja fyrir, ef hv. flm. þykir mikið við liggja að flýta málinu, að hann eða einhver annar taki málið upp til flutnings. Það er auðveld aðferð og kemur eins vel til greina eins og að ríkisstj. flytji málið. Efni málsins að öðru leyti skal ég ekki ræða. Það er þekkt frá fyrri þingum, og það er vitað, að það er áhugi fyrir því hjá ýmsum mönnum og stéttum, að það gangi fram, og ég tel sjálfsagt, að það komi fram, en þessari málsmeðferð, sem hv. flm. leggur til, að ríkisstj. flytji málið nú á þessu þingi, vil ég heldur mælast undan, án þess að haft sé um það samráð við hæstv. dómsmrh.