03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Síðan umr. var frestað, hef ég átt tal við nokkra menn, sem framarlega hafa staðið í fjárpestamálunum, og hafa þau viðtöl leitt til brtt., sem ég flyt á þskj. 476. Kunnáttumenn í þessum málum benda á, að heimild bresti fyrir því að reyna lækningar gegn sjúkdómunum og kosta þær. Það er aðeins talað um að verjast sjúkdómunum, en ekki lækna þá. Fengi þá t.d. Guðmundur Gíslason heimild til að halda áfram að framleiða læknislyf sitt, sem sumir telja til nokkurra bóta. Enn fremur segja þeir, að ef síðari partur 2. gr. falli niður, þá sé engin heimild til að flytja sæði og sæða. Vegna þess flyt ég brtt. á þskj. 476 og breyti 45. gr. og legg til, að hún orðist svo: „Landbúnaðarráðherra er heimilt, eftir till. sauðfjársjúkdómanefndar, að gera hverja þá ráðstöfun, er hann álítur nauðsynlega til að hindra útbreiðslu fjársóttanna, reyna að finna læknisráð við þeim og útrýma þeim. — Einnig er honum heimilt að láta útbreiða minna næma fjárstofna, innlenda og erlenda, með sæðingu á þeim svæðum, sem fjárskipti eiga ekki að fara fram á næstu tvö árin.“

Séu þessar breyt. ekki samþ., þá er heimildarleysi til að reyna að lækna sjúkdómana og einnig að láta útbreiða minna næma stofna, innlenda og útlenda. Þá er engin heimild fyrir Guðmund Gíslason að keyra út um sveitirnar um fengitímann til þess að sæða ær. Þessi sæðingarheimild, sem lögð er til á þskj. 476. er þó bundin við þau svæði, þar sem fjárskipti eru ekki áætluð næstu tvö árin. Sumir munu ekki vilja samþykkja brtt. við 2. gr. og þá líklega ekki heldur brtt. um að feila niður 7. kafla. Því ber ég fram varatill. á þskj. 476, um að orðið „innanlands“ falli burt, því að engum dettur í hug að gera fjárskipti hjá öðrum. Enn fremur legg ég til, að í stað „tæknifrjóvgunar“ komi orðið „sæðing“, enda er orðið „sæðing“ komið inn í ritmál fagmanna í þessum efnum. Sæðing og frjóvgun eru hugtök, sem segja sitt hvað.

Ég vil leggja áherzlu á nauðsyn þess, að á þessu þingi komi l. um sóttvarnir á innfluttu fé, því að það nær engri átt, að Pétur og Páll geti flutt inn fé eftir vild, en það er hægt eins og frv. nú er. Að lokum vildi ég óska þess, að hv. 3. landsk. geti sætt sig við orðið „sæðing“ og taki því til baka till. sína á þskj. 472.