13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (4710)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gunnar Thoroddsen:

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi ræða um. Hv. flm. leggur á það mikla áherzlu í grg. till. sinnar, að stofna beri embætti opinbers ákæranda, er taki síðan að sér dómsmálin, og hv. þm. Str. lagði einnig ríka áherzlu á þetta og sagði, að ófært væri, að ákæruvaldið væri í höndum pólitískra ráðh. Ég tek undir þetta, þegar þessi skoðun verður sýnd í verki. Þessu máli var fyrst hreyft hér 1934. Það var fyrsta verk mitt á þingi. Ég flutti um það fyrsta frv. mitt. Löngu áður höfðu heyrzt raddir um það, að ákæruvaldinu væri misbeitt, og höfðu víst allir dómsmrh. orðið fyrir ádeilum í því efni. Ég taldi þetta þá þegar mikið nauðsynjamál. Hv. þm. Str. var þá dómsmrh. og taldi ekki þurfa að sinna þessu máli. Ég flutti það hér ár eftir ár, en hann lagðist alltaf á móti því. Það gleður mig, að hann hefur nú skipt um skoðun, og virðist þá sem hann telji ákæruvaldinu vel borgið í höndum dómsmrh., meðan hann gegnir sjálfur því starfi, en ófært, að það sé í höndum annarra dómsmrh. Ég tek það aftur fram, að þetta mál er hvorki nýtt né nú fyrst á döfinni. Ásakanir um misbeitingu ákæruvaldsins hafa oft heyrzt áður og verið á rökum reistar.

Ég tek undir það með hv. flm., að full þörf er á því að setja samræmda löggjöf um meðferð opinberra mála, þar sem gengið sé frá því, að sjálft ákæruvaldið sé í höndum hlutlauss ákæranda. Með því frv., er hér um ræðir, er sú breyt. fyrirhuguð, að rannsókn mála verði opinber eða að mestu leyti í heyranda hljóði. Enn fremur er sú breyt., að skipaður verði sérstakur sækjandi, í stað þess að sami maður sé bæði sækjandi og dómari. Nokkur atriði eru það, sem orka tvímælis, eins og t.d., hvort dómurinn skuli vera fjölskipaður, hvort þar séu ólöglærðir meðdómendur o.s.frv., og væri æskilegt, að frv. þetta yrði lagt fyrir þingið að nýju.

Hv. þm. Str. virðist nú hafa mikinn áhuga fyrir þessu máli, þótt þess áhuga gætti ekki, á meðan hann var sjálfur ráðh., og ekki hefur hann sjálfur hirt um að hreyfa því hin síðustu ár. Ég mæli þetta af því, að tónninn í ræðu hans gaf tilefni til þessara orða. En það er mála sannast, að hver sem dómsmrh. væri, er hætt við misbeitingu ákæruvaldsins, hve mikils álits sem ráðh. nyti, enda er það svo í öllum nágrannalöndum vorum, að ákæruvaldið er í höndum hlutlausra embættismanna.