06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (4715)

53. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Allshn. er sammála um, að æskilegt sé, að löggjöf um meðferð opinberra mála verði heldur fyrr en síðar tekin til endurskoðunar. þau lagaákvæði, sem nú gilda um meðferð opinberra mála, eru mörg hver úrelt orðin, auk þess sem þau eru mjög dreifð og eiga sum aldur sinn að rekja mjög langt aftur í tímann. Meginákvæðin er að finna í dönsku lögum Kristjáns V. og fjölda af tilskipunum og konungsbréfum frá ýmsum árum.

Árið 1936 var sett heildarlöggjöf um meðferð einkamála í héraði. Var þá öll löggjöf um það efni samræmd og sett í einn bálk. En þegar því starfi var lokið, var haldið áfram, eins og ætlunin hefur verið, að vinna að því að undirbúa nýja löggjöf um meðferð opinberra mála, og vann lögfræðinganefnd að því máli, og fyrir frumkvæði þáverandi ríkisstj. var frv., sem þessi n. hafði samið, lagt fyrir Alþ. 1939 af allshn. Ed. Það frv. varð þá ekki útrætt. Áður en þetta frv. lögfræðingan. hafði verið flutt, hafði, að því er ég hygg, oftar en einu sinni verið flutt frv. um eitt mikilvægt atriði þessarar löggjafar, þ.e.a.s. hversu ákæruvaldinu skuli fyrir komið. Ákæruvaldið var þá og er nú í höndum pólitísks ráðh. Þá hafði sem sagt verið flutt frv. um opinberan ákæranda, en það hafði heldur ekki orðið útrætt.

Nú felur till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 79, það í sér, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að frv. það um meðferð opinberra mála, sem flutt var 1939 af allshn. Ed., en varð eigi útrætt, verði lagt fyrir Alþ. Allshn. hefur rætt þessa till. allýtarlega og leitað um hana álits fyrrv. dómsmrh., sem enn fremur hefur leitað um hana umsagnar hæstaréttardómara.

Eins og sést af umsögn dómsmrh., sér hann sér ekki fært að mæla með því, að till. verði samþ. óbreytt, og telur ýmsar ástæður til þess. En ráðh. hefur samt talið rétt að mæla með því, að horfið verði að því ráði að fá setta löggjöf um þessi efni og að frv. það, sem hér um ræðir, yrði endurskoðað. Ég hirði ekki að rekja þau atriði, sem bæði dómsmrh. og sakadómarinn í Reykjavík taka til meðferðar í umsögnum sínum. Þm. gefst tækifæri til að kynna sér það í fskj. með nál. En n. hefur komizt að þeirri niðurstöðu að mæla með því, að till. verði samþ., þó með nokkrum breyt. og fyrst og fremst þeirri, að Alþ. skori ekki beint á ríkisstj. að leggja fram frv. sjálft frá 1939, heldur láta fara fram athugun og endurskoðun á þeim till., og skuli stjórninni heimilt að leita aðstoðar sérfróðra manna við þá endurskoðun. Að endurskoðun lokinni leggi stjórnin frv. fyrir Alþ. N. taldi formlegra og réttara að hafa þennan hátt á og breyta till. í þetta form. Í samræmi við þessa breyt. leggur svo n. til, að fyrirsögn till. verði breytt þannig, að hún verði till. til þál. um endurskoðun á löggjöf um meðferð opinberra mála.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till. fyrir hönd n. Það er aðalatriðið í áliti n., að hún telur nauðsyn bera til þess, að núgildandi löggjöf um meðferð opinberra mála verði endurskoðuð og ný löggjöf sett, og í þeim efnum er hún sammála flm. þessarar till., þannig að ég held, að ekki beri efnislega mikið á milli n. og hv. flm.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að benda hæstv. forseta á það, að eins og till. hefur nú verið breytt, virðist bera nauðsyn til þess, að tvær umr. fari fram um hana, þar sem upphaflega var aðeins gert ráð fyrir einni umr. En eftir brtt. n. skilst mér, að það sé nauðsynlegt, að fram fari tvær umr. um till., og mætti þá líta á þessa umr. sem fyrri umr.