26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (4719)

53. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það, sem ég vildi segja, var í raun og veru eingöngu það, að ég vil láta hv. allshn. athuga þessa þáltill. nokkru betur. Held ég þó, að ekki skaði að segja nokkur orð um málið, enda þótt hv. flm. sé ekki viðstaddur. — Á þessu stigi skal ég aðeins benda á það, að bæði aðaltill. og eins brtt. gerir ráð fyrir því, að til grundvallar fyrir frv., sem bæði í aðaltill. og brtt. er gert ráð fyrir, að lagt verði fyrir þingið um meðferð opinberra mála, verði lagt frv. það, sem flutt hefur verið fyrr á hæstv. Alþ., þ.e.1939, um meðferð opinberra mála. Það frv. var á sínum tíma að vísu undirbúið af mjög hæfum mönnum, a.m.k. að nokkru leyti, en það frv. hefur ekki náð fram að ganga. Frv. þetta var undirbúið af sömu mönnum, sem höfðu undirbúið frv. um meðferð einkamála, og ég held, að þeim mönnum, sem kynnt hafa sér bæði þessi frv., blandist ekki hugur um, að á þeim er mjög verulegur munur, þannig að frv. um meðferð opinberra mála sé ekki eins vel undirbúið og hitt frv. var. Er ég ekki með því að halla á þessa menn, sem undirbjuggu frv., sem hér er minnzt á í þáltill., þann ágæta fræðimann, Einar Arnórsson, og hæstv. forsrh., Stefán Jóh. Stefánsson, og Berg Jónsson. En mönnum tekst misjafnlega vel upp með öll sín verk, og ég held, að Alþ. hafi litið alveg rétt á, er það vildi ekki lögfesta frv. um meðferð opinberra mála eins og það lá fyrir, og að þess vegna sé það ákaflega lítil framför frá því, sem er, að leggja til við ríkisstj., að þetta til tekna frv. verði lagt fyrir Alþ. Það getur að vísu hver hv. þm. tekið það upp og látið prenta það og útbýta því, ef það væri nóg, að það kæmi fram á Alþ. En eins efast ég um, að það væri nægileg aðgerð í þessu efni, þó að þetta frv. væri endurskoðað og lagt fram síðan sem stjfrv.

Ég tel nauðsyn á, að þessi þáttur réttarfarsins í heild sé endurskoðaður og um hann búinn til nýr lagabálkur, þar sem haft sé til hliðsjónar það frv., sem samið hefur verið um þetta efni, en ekki fengið afgreiðslu á Alþ. En að hæstv. Alþ. slái því föstu með samþykkt þessarar þáltill., og það í raun og veru að óathuguðu máli, að það frv. eigi að vera grundvöllur að þeirri lagasetningu, sem hér er um að ræða, það lízt mér ekki á. Mér finnst, að ég geti borið fram brtt. um þetta. Mér finnst eðlilegt, að hv. allshn. flytji till. um það, að ríkisstj. verði falið að undirbúa nýjan lagabálk um þetta efni, en þá einnig heimiluð nauðsynleg útgjöld úr ríkissjóði í því sambandi, sem væntanlega yrði til þess, að þá þyrfti tvær umr. um þessa þáltill. — Þar sem hv. allshn. hefur haft mál þetta til meðferðar, vil ég biðja hana að athuga málið í því ljósi að færa málið á þann grundvöll, sem ég talaði um. Ég er reiðubúinn að tala nánar um þetta mál, ef óskað er, en sé ekki að öðru leyti ástæðu til að ræða málið frekar á þessu stigi.