17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (4723)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, að ég get fellt mig við þá afgreiðslu á þessari till., sem allshn. stingur upp á. Ég hef upphaflega lagt til, að ályktað væri að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að frv. um meðferð opinberra mála 1939, samið af stjórnskipaðri n., yrði flutt á þessu þingi að nýju. Það var fundið að því við fyrri hluta þessarar umr., að Alþ. skoraði á ríkisstj. að flytja frv., ég hefði eins getað flutt frv. sjálfur. Ég get ekki enn fallizt á þetta sjónarmið. Hér er um að ræða lagabálk, sem saminn var af stjórnskipaðri n., og tel ég óeðlilegt, að einstakir þm. taki að sér að flytja sem þmfrv. slík mál, og tel æskilegt, að þau komi frá ríkisstj. eða séu flutt af n. að hennar tilhlutun, því að allshn. gerði fyrst þá breyt. að láta endurskoða þetta frv., og hef ég ekkert við það að athuga, ef n. óskar heldur að láta samþ. till. á þann máta. Nú hefur n. aftur óskað að gera breyt. á fyrri afstöðu sinni og leggur nú til, að þetta frv. verði ekki endurskoðað, heldur gildandi löggjöf og með hliðsjón af þessu frv., sem flutt var í Ed. 1939.

Ég hef talið nauðsynlegt að athuga tvennt í sambandi við þetta mál, annars vegar lagaákvæði í þessu efni, en þau tel ég svo gömul og úrelt, að ekki sé viðunandi, og hins vegar meðferð opinberra mála, sem sé svo léleg, að hún sé ekki nálægt því að vera á þann hátt, sem skyldi Dóms- og kirkjumrn. hefur ekki viljað fallast á það, að rekstur opinberra mála væri lélegur, og sama máli gegnir með hæstv. dómsmrh. Nú vill svo vel til, að ég hef mikil kynni að einni hlið þessara mála, þ.e.a.s. verðlagsmálunum, og mér er vel kunnugt um það, að rekstur þessara mála er afar slælegur, bæði hér og úti á landi. Ég hef getið þess áður t.d., að rannsókn hinna svo kölluðu heildsalamála hafi tekið 8 mánuði, og allan þann tíma, á meðan dómur var ekki upp kveðinn, gátu þeir haldið áfram að brjóta verðlagsákvæði. Mér kemur það mjög svo á óvart, að hæstv. dómsmrn. skuli mótmæla þessu. Jafnvel fyrir hæstarétti dregst oft of lengi að dæma í málum. Fyrirtæki á Austurlandi var kært í sept. 1943, dæmt í undirrétti í apríl 1944. Málinu var áfrýjað til hæstaréttar, en það er ódæmt í því enn. Annað fyrirtæki var kært í des. 1944. Það var dæmt í undirrétti og áfrýjað til hæstaréttar. Enginn dómur enn. Fyrirtæki var kært 27. nóv. 1942 og vísað til hæstaréttar, en ódæmt enn þá. Þetta var að vísu smávægilegt mál, en engu að síður er það vítavert, að á fimmta ár skuli ekki hafa fallið dómur í málinu. Matstofa ein var kærð í nóv. 1946, en hún hefur ekki heldur verið dæmd enn. Hún var aftur kærð í jan. 1947. Enginn dómur fallinn. Þessi sama matstofa var síðar kærð fyrir brot á verðlagsákvæðum. Listi þessi er því miður nokkuð miklu lengri, þó að ég hirði ekki um að lesa meira.

Að öðru leyti er ástæða til umkvörtunar yfir meðferð þessara mála, þ.e.a.s., hversu vægilega sektarákvæðum verðlagslaganna er beitt af héraðsdómum og jafnvel hæstarétti. T.d. var fyrirtæki hér í Reykjavík dæmt í jan. 1942 fyrir verðlagsbrot og fékk þá 50 kr. sekt fyrir smávægilegt brot að vísu. 31. marz sama ár fékk það 100 kr. sekt, kært í þriðja sinn í des. 1942, fékk það 500 kr. sekt. Í fjórða sinn var sama fyrirtæki kært í maí 1945, fékk þá 3000 kr. sekt. Í fimmta sinn í nóv. 1945 var það enn kært og fékk þá 866 kr. sekt. Í ágúst 1946 fær það svo rúmlega 900 kr. sekt. Í sjöunda sinn kært í des. 1946 og fékk þá 2000 kr. sekt. Þó að þetta um sektarupphæðir komi ekki við hraða málarekstrar, þá gat ég ekki annað en lesið þetta upp, því að dómsvaldið virðist hér ekki eins árvakurt og vissulega væri ástæða til, að það væri.

Ég get engan veginn fallizt á, að það sé rétt hjá dómsmrn., sem það heldur fram, að það sé tilhæfulaust, sem haldið er fram í grg. þáltill. minnar, sem sagt að það eigi sér stað vítaverður dráttur hjá héraðsdómurum og jafnvel hjá hæstarétti í meðferð a.m.k. þessa flokks opinberra mála. Dómsmrn. heldur því fram, að þetta mundi ekki lagfært með því að endurskoða l. um meðferð opinberra mála, en ég álít, að ráðin væri bót á þessu með því að samþykkja lagaákvæði um opinberan saksóknara. Ef þetta væri gert, væri sérstaklega um að ræða meira aðhald hjá héraðsdómunum til þess að hraða meira rekstri opinberra mála en nú á sér stað, og sannleikurinn er sá, að það virðist vera um skort á aðhaldi að ræða af hálfu dómsmrn. gagnvart héraðsdómunum. Að vissu leyti má segja, að dómsmrn. beri ábyrgð á því, að opinber mál, sem fyrir héraðsdómunum liggja, séu rekin með forsvaranlegum hraða, og dæmin, sem ég nefndi, sýna, að það virðist nokkur skortur á, að dómsmrn. gegni þessari skyldu sinni.

Ég réðst í að flytja þessa till., sem er efnislega um að skipaður yrði opinber saksóknari, og mundi það hafa þá þýðingu, að minna yrði um vítaverðan drátt á rekstri opinberra mála, því að ég tel rétt, að l. um meðferð opinberra mála verði endurskoðuð. Ég verð því að halda því fram, að ástæður mínar fyrir þáltill., sem getið er í grg. og ég gat um í frumræðu minni, standi óhaggaðar.