17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (4727)

53. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég ætla ekki að fara að ræða mikið við hv. þm. um þetta efni. Hann er auðsjáanlega mjög margorður um efni, sem honum er ekki kunnugt og skortir forsendur til að hafa skynsamlegt vit á, um afstöðu dóma og með hverjum hætti hæstiréttur lætur áminningar sínar í ljós. Ég er ekki að ásaka hv. þm. fyrir þetta. Hann hefur ekki sérþekkingu á þeim efnum, þó að hann hafi þekkingu á fjárhagslegum efnum, og lýsti það sér mjög í orðum hans, að hann hefur ekki þekkingu á dómstólum. Þar við bætist, að hv. þm. er að vissu leyti sjálfur undir ákæru í þessum efnum. Það er um það að ræða, hvort verðlagsráð, sem mér skilst, að hann sjálfur eigi sæti í, hafi vanrækt starf sitt eða ekki, og mundi hann átta sig á því, ef hann þekkti meira til þeirra mála, að sá, sem sjálfur er undir ákæru, er ekki bezti dómarinn í því, hvort vanræksla hafi átt sér stað. En ég minntist á þetta atriði áðan vegna þess, að það eru glögg dæmi þess, hvernig fer fyrir þeim, sem eru ósparir á ásakanir til annarra og oft og tíðum til einstakra embættismanna, eins og kemur fram í grg. hjá þessum hv. þm., og jafnvel í þeim efnum, sem þeir ásaka aðra fyrir, vill svo til, að í þeim sömu efnum hafa þeir, að svo miklu leyti sem undir þeirra starfssvið kom, sýnt tilsvarandi vanrækslu. Um þetta verður ekki villzt.

Um þann embættismann, sem hv. þm. ásakar harðast í grg., vill svo til, að hann er þegar búinn að biðja um lausn, og skal ég ekki ræða frekar um hann eða hans embættisfærslu, en um það verður ekki villzt, að það eru ásakanir á þann embættismann fyrir embættisvanrækslu, sem þarna koma fram, en ekki ásakanir á starfskerfið út af fyrir sig. Þessu mundi hv. þm. hafa gert sér gleggri grein fyrir, ef hann væri lögfræðingur. Hitt var svo misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi ekki kynnt mér það efni, sem ég vitnaði hér í. Ég hef einmitt lesið skjöl þessa máls, sem þar um fjalla, að verulegu leyti með hliðsjón af þeirri ásökun, sem hjá hæstarétti kom fram á verðlagsráð. Mér sýndist sú ásökun vera eðli sínu samkvæmt svo alvarleg, að það væri ábyrgðarhluti af mér að kynna mér hana ekki. Ég hef þess vegna ekki aðeins kynnt mér forsendur dómsins, heldur ýmist kynnt mér sjálfur eða látið yfirfara önnur hliðstæð mál til þess að athuga, á hvern veg framkvæmdum verðlagseftirlitsins í þessu máli hefur verið háttað, og það er til athugunar í ráðuneyti mínu, hverjar aðgerðir út af því skuli hafa. Ég segi ekki, að ég geri það að mínum orðum, að verðlagseftirlitið hafi í þessu framið neitt refsivert brot, en hitt verður ekki deilt um, að verðlagseftirlitið hefur gert sig sekt eftir þeim gögnum, sem fram komu um vanrækslu, sem sjálfsagt er að full gögn liggi fyrir um, og þess vegna þykir mér hugsanlegt að gera ráð fyrir, að ég fái fullkomnar upplýsingar verðlagseftirlitsins um þetta atriði. Hv. þm. gerði hér nokkra grein fyrir þessu og var því auðvitað kunnugur, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að hann er einn af þeim, sem til athugunar koma í þessu sambandi, hvort vanrækslu hafi framið eða ekki. Hitt þarf ekki um að ræða, að þegar hæstiréttur beinlínis léttir refsingu stórlega á manni, sem er dæmdur fyrir brot, vegna þess að sá, sem átti að koma brotinu upp, lét dragast í nærri heilt ár að kæra brotið og faldi það á meðan, að brotið væri áfram framið, þá er þar um stórkostlega áminningu af hálfu hæstaréttar að ræða til þess aðila, sem þannig er vikið að. Það er rétt, að refsingin er rökstudd með vanrækslu af hálfu verðlagseftirlitsins. Skal ég ekki hafa um það mörg orð, það er svo augljóst sem nokkuð getur verið. Hitt er annað mál, að hæstiréttur fór ekki að fara hörðum orðum um verðlagseftirlitið í þessum efnum, og hv. þm. mundi vita það, ef hann væri kunnugri dómsstörfum en hann er, að þó að hæstiréttur hafi oft í frammi áminningar í dómum sínum, þá er það til undirdómara og þess, sem með rannsóknina fer, en ekki til óstefnds þriðja aðila. Meginreglan í dómsstörfum er sú, að sá, sem ekki hefur verið stefnt í máli, á þar ekki við sök að koma, og vegna þess að verðlagseftirlitið í þessu tilfelli lá ekki undir ákæru og var ekki rannsóknaraðili, þá var ekki hægt að koma við berum orðum framsettum í áminningu. Áminningin var sett fram á þann greinilegasta hátt, sem hægt var, sem sagt í því, að brot, sem var talið sannað, var talið refsiminna en lagaákvæði stóðu til, af því að embættisvanræksla hjá viðkomandi stofnun hafði átt sér stað. Ég er ekki að segja, hvort einhverja afsökun megi færa fram fyrir þessu eða ekki. Samkvæmt því, sem hv. þm. sagði hér áðan, þá voru ekki afsakanir fyrir hendi, vegna þess að brotið var játað, um leið og þessi vitneskja kom til verðlagseftirlitsins. Enda byggist afstaða hæstaréttar á því, að verðlagseftirlitið gat gert upp hug sinn um það, hvort þarna var um ólöglegan verknað að ræða, í heilt ár án þess að hefjast handa og án þess að aðvara viðkomandi fyrirtæki um það, að þarna væru ólög framin. Afstaða hæstaréttar byggðist á þessu, og því er áminningin sett fram í þessu formi, byggðist á því, að hin málin lágu ekki eins skýrt fyrir strax á fyrsta stigi og þetta eina mál. Hins varð að krefjast, að verðlagseftirlitið vissi þegar í stað, hver réttarákvæði það væru, sem um það ættu að gilda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en taldi rétt að láta þetta koma fram, af því að þessi hv. þm. hefur mjög haft hér í frammi ásakanir í garð embættismanna, sem ekki áttu þess kost á þessum vettvangi að bera hönd fyrir höfuð sér, en er sjálfur þannig flæktur í þetta mál, að sú stofnun, sem hann starfar við, hefur fengið áminningu frá hæstarétti. Vildi ég benda á, að ástæða er fyrir hv. þm., sem aðra, að fara varlega í slíkum ásökunum. Þær geta hitt sjálfan mann, áður en varir.

Hitt, að hann skuli koma hér og setja sig sem dómara um það, hvort hæstiréttur hafi í þessu haft rétt fyrir sér, það lýsir þeirri afstöðu til dómsvalds, að ég sé ekki, að ástæða sé til þess að hafa um það mörg orð.