17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (4729)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Viðvíkjandi niðurlagsorðum í ræðu hæstv. dómsmrh. vildi ég segja það, að hann gerði sér gaman að því að snúa út úr orðum mínum. Ég hafði sagt það eitt um dóm hæstaréttar, að það bar engan veginn að skilja þannig, að ég væri að véfengja hann, og þóttist ekki sýna með því minnsta yfirlæti, heldur þvert á móti tók það fram, að þótt ég gerði ýmsar aths. að því er snerti meðferð málsins, þá snertu þær aths. engan veginn dóm hæstaréttar, sem ég hef að sjálfsögðu ekkert við að athuga. Annars virtist mér öll ræða hæstv. dómsmrh. bera þess vitni, að hann væri þessu máli hvergi nærri nógu kunnugur, og mér fannst hún engan veginn geta borið þess vott, að hann hefði kynnt sér skjöl þessa máls, sem hann þó segist hafa gert að nokkru leyti. Ef hann hefði kynnt sér öll gögn málsins, þá trúi ég ekki, að hann héldi því fram hér í alvöru, að í þessu máli hefði verið um nokkra vítaverða vanrækslu að ræða af hálfu verðlagseftirlitsins. Af þessu tilefni er rétt að rifja upp með örfáum orðum það, sem gerzt hefur í þessu máli.

Um áramótin 1943–1944 barst verðlagseftirlitinu í hendur verðreikningur frá umboðsmanni fyrirtækisins G. Helgason & Melsted, sem gat bent til þess, að fyrirtækið í New York hefði lagt á vöruna vestan hafs. Verðlagseftirlitið gerði athugun á því, hvort hér gæti verið um rétta álagningu að ræða, og stefndi á sinn fund fulltrúa fyrirtækisins í Reykjavík og spurði hann, hvort lagt hefði verið ,á vöruna í Reykjavík. Fulltrúi fyrirtækisins sagði: „Þessi tiltekni umboðsmaður vestan hafs leggur fyrst á vöruna, sem fyrirtæki okkar flytur til landsins. Þetta getur ekki talizt saknæmt, þar sem þessi maður rekur heimsþekkt fyrirtæki, sem starfar samkvæmt amerískum l., er skráð sem amerískt verzlunarfyrirtæki og hefur allar skyldur í því landi. Það getur því ekki heyrt undir íslenzk l.

Þetta atriði var rætt í viðskiptaráði, og var ekki talið fært að taka fyrirtækið hér, meðan það væri ekki ljóst, hvort líta bæri á umboðsmanninn vestan hafs sem íslenzkt eða amerískt fyrirtæki. Til þess að hægt væri að fá úr því skorið, var nauðsynlegt að fá upplýsingar aðalræðismannsins í New York, og var hann beðinn að afla þeirra upplýsinga. Það dróst í 4 mánuði að fá upplýsingar um það, hvort fyrirtækið fyrir vestan skyldi teljast íslenzkt eða amerískt. Eftir að málið hafði verið rækilega athugað hér af sakadómara og ríkisstj., þá ákvað viðskiptaráð að líta þannig á, að umboðsmaðurinn fyrir vestan heyrði undir íslenzka lögsögu, en fyrirtæki hans væri amerískt. Allur drátturinn, sem varð á því að nefnt fyrirtæki væri kært fyrir þetta brot, orsakaðist af því, að það var verið að fá úr því skorið, hvort hægt væri að kæra fyrir verknaðinn eða ekki, sökum þess að líta mætti þannig á, að umboðsmaðurinn vestan hafs heyrði undir amerísk l., en ekki íslenzk, og þar sem grunur lék á, að um hliðstæðan verknað væri að ræða hjá mörgum öðrum fyrirtækjum, og rannsóknin var látin ná til þeirra líka, þá hefur þetta kannske tekið lengri tíma en það ella hefði þurft að taka. En tveim dögum eftir að viðskiptaráði barst vitneskja um það, hvort fyrirtækið væri íslenzkt eða amerískt, þá gerði það sínar ráðstafanir gagnvart sakadómaranum í Reykjavík um það, hvort kæra skyldi send eða ekki. Sakadómarinn óskaði eftir, að kæran yrði ekki send þegar í stað, sökum þess að frumgögn vantaði, og það var mál, sem viðskiptaráð var óbundið um.

Ég hygg nú að þessi fáu orð nægi til að sýna, að það er misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., að verðlagseftirlitið sé sérstaklega ámælisvert í þessu máli. Hitt er svo allt annað mál, sem hæstiréttur hefur lagt áherzlu á í dómi sínum, að það er mildandi fyrir þetta fyrirtæki að hafa strax, þegar það er spurt, sagt já. Öll hin fyrirtækin báru á móti því, þegar þau voru um það spurð. Þetta eina fyrirtæki játaði þegar í stað, að um þennan verknað væri að ræða, þótt það vildi halda því fram, að verknaðurinn væri ekki saknæmur. Hæstv. dómsmrh. ætti að geta gert sér ljósa þessa staðreynd, án þess að jafnfáfróður maður og ég þurfi að benda honum á þetta.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að þessi dómur hæstaréttar er ekki byggður á því, að um vanrækslu verðlagseftirlitsins hafi verið að ræða, heldur á hinu, að það lá fyrir gömul játning frá fyrirtækinu á verknaðinum, það játaði strax, meðan ógerningur var fyrir verðlagseftirlitið að mynda sér skoðun um það, hvort verknaðurinn væri saknæmur eða ekki. Enginn getur haldið því fram, ekki einu sinni hæstv. dómsmrh., svo mikilhæfur lögfræðingur sem hann er, að opinberum valdsmanni beri að kæra fyrir verknað, áður en þessi aðili getur myndað sér skoðun á því, hvort hann sé saknæmur eða ekki. Það eina, sem vítavert er, er það, ef verðlagsyfirvöldin hefðu dregið að kæra, eftir að þeim var kunnugt um, að um saknæman verknað væri að ræða. En kært var þegar í stað, þegar nægar upplýsingar lágu fyrir um, að um saknæman verknað væri að ræða.