17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (4740)

199. mál, siglingarlög og sjómannalög

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um endurskoðun siglingalaga er borin fram af hv. 1. landsk. þm., sem ekki hefur getað verið hér á fundi í dag, og hefur hann óskað eftir því, að ég fylgdi till. úr hlaði með nokkrum orðum.

Eins og hv. þm. er kunnugt, eru gildandi siglingalög og sjómannalög frá 1914 og 1930, en bæði þessi l. eru byggð á annars mjög gamalli löggjöf, erlendri, sem hefur verið tekin upp í íslenzka löggjöf, því að eins og kunnugt er, hafa siglinga- og sjómannal. hjá okkur að langmestu leyti verið þýdd úr erlendri löggjöf um sama efni, enda ber svo að vera, þar sem hér er um löggjöf að ræða, sem hefur áhrif langt út fyrir landsteinana og mikla þýðingu fyrir viðskipti okkar við aðrar þjóðir. Nú hagar hins vegar svo til, að á seinni árum hafa erlendar þjóðir, sem hafa haft sams konar löggjöf um þessi efni, tekið sína löggjöf um þessi efni til endurskoðunar, og er þeirri endurskoðun sumpart lokið og fer sumpart fram nú. Er því ekki nema eðlilegt, að sömu ráðstafanir séu gerðar einnig hér hjá okkur, þó að ekki væri til annars en athuga um samræmið á okkar l. við löggjöf annarra þjóða. Hér við bætist og, að í siglinga- og sjómannal. eru ýmis ákvæði, sem almennt eru talin orðin mjög úrelt nú og nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar og breyt. Ég skal ekki þreyta hv. þm. á því að rekja þau atriði, því að það er verkefni, sem endurskoðuninni er ætlað, leyfi mér að leggja til, að umr. verði að svo stöddu frestað og till. vísað til allshn. til athugunar.