13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (4745)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að þessi þáltill. er flutt, er, að l. þau, sem nú eru í gildi um þetta efni, eru orðin gömul og margt komið í ljós við framkvæmd þeirra á síðari árum, sem sýnir, að þau fullnægja ekki því, sem tímarnir krefjast. Það er þá sérstaklega eitt atriði þeirra, eftirlitið, sem er ekki í því ástandi, sem því ber að vera. Á fjöldamörgum vinnustöðum hafa komið fyrir atvik, sem sýna, að þessu eftirliti er mjög ábótavant, og hafa mörg tæki og vélar verið þannig á vinnustöðum, að legið hefur við stórslysum, en sem betur fer hafa þau ekki orðið, og er það þá hrein tilviljun. Það er því ekki óeðlilegt, að ýmis verklýðsfélög hafa látið sig þetta skipta, og er þá fyrst að nefna Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík, sem hefur gengið fram fyrir skjöldu í þessu efni, sem heldur er ekki að ástæðulausu, þar sem þeir vinna í verksmiðjum, þar sem mikið er um vélar. Sömuleiðis hefur Dagsbrún einnig látið sig þetta skipta. Og nú á síðasta hausti, þegar haldið var 19. þing Alþýðusambands Íslands, komu fram háværar raddir um það, að bæði þyrfti eftirlit og öryggi hjá verkafólki á vinnustöðum, bæði á sjó og landi, að komast í betra horf, og var á þessu þingi samþ. einróma till. þess efnis, að endurskoðun verði látin fara fram á þessum l. um eftirlit og því verði komið í betra horf.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mörgum orðum. Það er gert ráð fyrir því, ef þessi þáltill. verður samþ., að ríkisstj. skipi 3 manna n. til þess að endurskoða gildandi l., og verði hún þannig skipuð, að ráðh. skipi einn mann án tilnefningar og hinir tveir verði skipaðir af Alþýðusambandi Íslands og Félagi íslenzkra iðnrekenda.

Það má vera, að einhverjum hv. þm. finnist ekki vera brýn nauðsyn til þess að framkvæma það eftirlit, sem hér er gert ráð fyrir. En það er fullkominn og ákveðinn vilji fyrir því hjá verklýðsfélögunum í landinu, sem líka eiga mest undir því, að þessi endurskoðun fari fram, og eins og ég gat um, þá liggur fyrir ákveðin ítrekun frá þeim um, að slíkt eftirlit komist í betra horf.

Vitaskuld tekur það tíma að endurskoða l. sem þessi, og tíminn frá því, að þessi þáltill. er samþ., ef hún verður það, þangað til næsta reglulegt Alþ. kemur saman, ætti að vera nægilegur tími, miðað við, að í það starf væru settir menn, sem eru ágætlega kunnugir þessu. En á meðan væri beðið eftir niðurstöðum þessarar n. og eftir, að sú n. skili áliti, verði eins og hægt er aukið eftirlit til þess að svipuð atvik, sem komið hafa fyrir, þar sem legið hefur við stórslysum, komi ekki fyrir. Og vil ég beina því til þess hæstv. ráðh., sem með þessi mál hefur að gera, að hann hlutist til um, að þar til þessari athugun n. er lokið, verði reynt að hafa þetta eftirlit í betra horfi en verið hefur til þessa.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta að sinni, nema ástæða gefist til. Ég vil vænta þess, að hv. Alþ. samþykki þessa þáltill.