13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (4747)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að umr. um þessa till. verði frestað og henni verði vísað til n., svo að hún geti fengið þá athugun, sem æskilegt væri og nauðsynlegt er, að hún fái.

En um málið almennt talað er það að segja, að á því eru eins og reyndar mörgum öðrum tvær hliðar. Annars vegar þau lög og fyrirmæli, sem um þetta gilda, og hins vegar framkvæmd l. og fyrirmælanna. Ég býst við, að það sé rétt, að það skorti nokkuð á, að verksmiðju- og vélaeftirlitið hafi getað innt af hendi þau störf, sem því er ætlað, eins og þau l. gera ráð fyrir, sem nú eru í gildi. En það er af ýmsum ástæðum, sem eru mjög skiljanlegar. Í fyrsta lagi er það fé, sem þeirri stofnun er veitt, sem ætlað er að hafa með höndum eftirlitið, mjög skorið við nögl í fjárl., og í öðru lagi hefur aðalmaður þessarar stofnunar af ríkisstj. eða einstökum ráðh. hennar oft verið tekinn frá þessum störfum og yfir í allt önnur og óskyld störf, sem að vísu voru nauðsynleg, en hafa orðið til þess, að hann hefur ekki getað sinnt sínu aðalstarfi eins og vera bar og þurft hefði. En til þess að bót yrði ráðin á þessu, er nauðsynlegt, að þeir menn, sem störfuðu að þessu eftirliti, störfuðu fyrst og fremst að því, en ekki að öðrum óskyldum störfum, þó að slík störf væru kannske ekki síður nauðsynleg fyrir þjóðfélagið, sem ég skal ekkert um segja. Þau störf geta verið bæði jafnnauðsynleg, en hitt er víst, að þeir sömu menn geta ekki unnið að þessum störfum í einu. Nú held ég, að ýmis og kannske mörg af þeim ákvæðum, sem um þetta gilda, séu þannig, að það megi færa þar ýmislegt til betri vegar, án þess að l. sjálfum sé breytt, ef til vill væri það nægilegt að fá um þetta nýjar og endurskoðaðar reglugerðir, en allt þetta kemur nú í ljós, þegar málið verður athugað í n., sem ég vil gera ráð fyrir, að það fari til, hv. allshn. Sþ. (Forseti: Þetta hefur kostnað í för með sér, svo að það verður þá fjvn., sem hefur með það að gera.) Hæstv. forseti verður náttúrlega að úrskurða, til hvaða n. málið fer, en hitt hefði mér þótt fullt svo eðlilegt, að það færi til hv. allshn., en það er kannske ekki mikið atriði. En ég geri ráð fyrir, að þegar málið kemur til n., verði verksmiðju- og vélaeftirlitið beðið að koma þar til skrafs og ráðagerða, og þar falli síðan úrskurður um þetta. En það verður að athuga það um leið, að það er fyrst og fremst nauðsynlegt að hafa nægan mannafla, til þess að hægt sé að sinna því verkefni, sem gert er ráð fyrir í l., og ekki sízt, ef þessi störf verða aukin, verður að sjá fyrir nægilegum starfskröftum.

Hvað víðvíkur till. hv. þm. Barð. um það að fela skipaeftirlitinu þessi störf, þá tel ég það ekki heppilegt og reyndar mjög vafasamt. Ég veit, að þeir menn, sem þar eru, eru hlaðnir störfum, og þessi tvö störf eru að mörgu leyti mjög ólík og óskyld, og ég veit ekki til, að nokkurs staðar í heiminum sé þessum störfum blandað saman, þó að kannske þrátt fyrir það þurfi það ekki að vera útilokað, að það sé hægt. En að því leyti, sem ég þekki til þessara starfa, álít ég, að það sé ekki heppilegt hvorki fjárhagslega né tekniskt.

Ég vildi svo vænta þess, að þessari umr. verði frestað og málinu verði vísað til n.