13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (4748)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Ég vil þakka þeim ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir góðar undirtektir við málið.

Út af þeim brtt., sem hv. þm. Barð. talaði um, þess efnis að sameina þessi tvö störf, eftirlit með skipum og það eftirlit, sem ræðir um í þessari þáltill., þá er ég alveg sammála hæstv. samgmrh., að ég tel það mjög hæpið. Hins vegar mun nánari athugun skera úr því, hvort slíkt er tiltækilegt. Hv. þm. Barð. sagðist ekki vita, hvort ummæli mín um þetta væru á rökum byggð. En þau ummæli mín er skjallega hægt að sanna, að t.d. á árinu 1945 fór fram skoðun á kolakrananum hér í Reykjavík og skoðunarmaðurinn var að enda við að skrifa undir það — og blekið varla orðið þurrt —, að þessi krani væri í ákjósanlegu ástandi, þegar hann slitnar niður. Orsökin fyrir því var sú, að lásar og skiptikrókar —.voru svo ryðgaðir. Árið 1945 var verið að gera við Jón Dan hjá skipasmíðastöð Magnúsar Guðmundssonar, og var búið að gera við vél skipsins með miklum tilkostnaði, en þegar verið var að lyfta vélinni, brotnaði bóman, sem notuð var til þess, svo að vélin eyðilagðist þannig, að útgerð bátsins var útilokuð þá vertíð. Augabolti, sem endi bómunnar var festur við, bilaði. Skoðunin var framkvæmd af Ásgeir Sigurðssyni, forstjóra landssmiðjunnar, og það kom í ljós við þá skoðun, að augaboltinn hafði ekki verið í lagi og lásinn ekki festur nema annars vegar, og þessi bóma hafði ekki verið skoðuð í 10 ár. Fleiri dæmi mætti nefna. Það hafa ekki alltaf orðið slys, en það er ekki að þakka eftirlitinu.

Það hefur verið rætt um það af ráðh., að þessir menn væru önnum kafnir og gætu þess vegna ekki sinnt þessum störfum eins og skyldi. Svo mun t.d. vera með Þórð Runólfsson, sem hefur verið tekinn af ríkinu til annarra starfa í þágu þess, til þess að vera við byggingu síldarverksmiðja ríkisins, og þess vegna hefði hann ekki getað sinnt starfi sínu sem eftirlitsmaður. Þá hefði einnig annar maður, sem átti að sinna þessu eftirliti, verið tekinn til annarra starfa, svo að hann hefði naumast komið að því starfi, sem ekki er að vísu undarlegt, því að hann er bæði kennari við sjómannaskólann og iðnskólann. Það má álíta, að þarna sé nokkur ástæða fyrir því, að þessi vanræksla hefur átt sér stað, vegna þess að þessir menn eru teknir í allt annað.

Ég held því fram, að aðalástæðan fyrir því, að eftirlitið er ekki eins og það á að vera, sé því fyrst og fremst að kenna, að verkalýðshreyfingin hefur ekki haft neina íhlutun um þessi mál, en hún á meira undir því, að þessi mál séu í lagi, en allir aðrir. Það er hennar líf, sem er þar í veði. Þess vegna á þessi hreyfing að hafa meiri íhlutun um þessi mál en verið hefur. Og það er þess vegna fyrst og fremst, sem þessi þáltill. er flutt.

Það hefur komið fram ósk um það, að þessi þáltill. fari til hv. allshn. Sþ., og ég óska þess fremur en að hún verði látin fara til fjvn., og ég vil mega vænta þess, að n. athugi hana fljótt.