13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (4750)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þær upplýsingar, sem fram hafa komið, staðfesta það, sem ég hef sagt áður. Mér virðist þetta ástand vera fullt svo mikið því að kenna, hvernig þessi störf hafa verið leyst af hendi, eins og því, að það skorti löggjafarákvæði um þetta. Og ég verð að skýra frá því, hvers vegna það er að sumu leyti eðlilegt, að það skorti eftirlit. Það er í fyrsta lagi vegna þess, að forstöðumanninum hefur verið falið starf, sem hindrar hann í að gegna þessu starfi, sem hann átti að gegna. Það er ekki gott fyrir samgmrn., sem þetta mál heyrir undir, að hafa á móti því, þegar annað ráðuneyti telur sér nauðsyn að fá manninn um ákveðið tímabil í sína þjónustu. Ég var að vísu ekki fús til þessa, en lét kyrrt liggja vegna þess, hve þau verkefni voru nauðsynleg, er forstöðumanninum voru falin. Það má að vísu segja, að það hafi verið vanræksla að hálfu samgmrn. að taka ekki fyrir þetta, en eins og málin lágu þá fyrir, taldi ég ekki ástæðu til að neita um þetta. Hins vegar er ég eindregið þeirrar skoðunar, að þetta eftirlit með vélum í verksmiðjum sé ekki líklegt til að verða vel samræmanlegt við skipaeftirlitið. Ræða hv. þm. Barð. sannfærði mig ekki um það gagnstæða. Þar sem ég þekki til erlendis, eru það tvær stofnanir, sem hafa þessi verkefni með höndum, og það er vegna þess, að störfin eru ólík. Það er ekki alltaf um það að ræða, að einhver ákveðinn bolti eða lás sé nægilega stæltur. Þetta er í grundvallaratriðum ólíkt. Í verksmiðjum er um heilsugæzlu og vinnuvernd að ræða og margar kemiskar hliðar, sem skipaskoðunin ber ekkert skyn á, og fjöldamargt annað má nefna, sem er ólíkt. Það er rétt, að einstaka hlutir eru líkir, eins og þegar hefur verið bent á, en í aðalatriðum er þetta tvennt mjög ólíkt. Báðar þessar stofnanir munu hafa næg verkefni, og þess vegna sparar það ekkert mannahald, þótt þær væru sameinaðar. Ég skal svo á þessu stigi málsins ekki ræða það nánar, en vænti hins vegar, að ég fái tækifæri til að ræða málið við hv. allshn. Mun ég þá ef til vill leggja eitthvað til málsins þar.