05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (4753)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Allshn. var á eitt sátt um það, að rétt væri og eðlilegt, að sú endurskoðun færi fram á gildandi l. og reglugerðum um eftirlit með verksmiðjum og vélum, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Og einnig var n. á eitt sátt um það, að þessari endurskoðun bæri að hraða, eftir því sem verða mætti, þannig að árangur hennar yrði lagður fyrir næsta reglulegt Alþ. Hins vegar voru hv. nm. ekki með öllu sammála um það, hvernig bæri að haga þessari endurskoðun. Mér hefði fyrir mitt leyti fundizt eðlilegt, að til þess væri sett sérstök n. manna með líkum hætti og hv. flm. leggur til. En aðrir nm. litu svo á, að rétt væri, að hæstv. ríkisstj. hefði óbundnar hendur um það, hvernig hún framkvæmdi þessa endurskoðun, og væntanlega mundi hún leita samstarfs við samtök verkamanna og vinnuveitenda, eftir því sem hún teldi nauðsynlegt. Ég vildi ganga til samkomulags við n. á þessum grundvelli, þar sem aðalatriðið er að sjálfsögðu það, að endurskoðunin fari fram, en hitt atriðið, sem kemur í annarri röð, með hverjum hætti endurskoðunin skuli framkvæmd.

Ég sé, að komið hefur fram brtt. frá hv. þm. Barð., þar sem hann leggur til, að skipuð verði n. á líkan hátt og hv. flm. leggur til, en hv. flm. brtt. vill, að verkefni n. sé ákveðið nánar í þál. en gert er ráð fyrir í upphaflegu þáltill. Ég held, að það sé engin sérstök knýjandi þörf á að ákveða verkefni n. svo gjörla í þál. Ég held, að hæstv. ríkisstj. sé ljóst, hvernig haga þurfi þessari endurskoðun.

Ég vil svo aðeins fyrir hönd allshn. mæla með því, að þessi þáltill. verði samþ. í því formi, sem hún er birt, samkv. þskj. nr. 735.