05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (4754)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 745 borið fram brtt. við till. þá til þál., sem hér liggur fyrir. Eins og þáltill. kemur frá allshn. á þskj. 735, þá er sérstaklega tekið fram á því þskj., sú n. telur ekki nauðsynlegt að skipa sérstaka n. til þess að framkvæma þessa endurskoðun. Ég geri ráð fyrir, að ef ekki verður gerð breyt. á þessu hér, telji hæstv. ráðh. ekki skylt og heldur ekki þörf á að setja upp slíka n., ef það er ekki tekið beint fram í þál. Og þá er ljóst, að undirbúningur þessi fer þannig fram, að forstjóra fyrir núverandi eftirliti í þessum greinum verður falin endurskoðunin. Hann hefur sjálfur byggt upp þetta kerfi, sem gildir í sambandi við þetta eftirlit, og barizt fyrir því með oddi og egg, að því væri komið í það horf, sem það nú er í, að lögreglustjórar landsins skuli innkalla öll gjöld fyrir þetta eftirlit, svo að hann þurfi ekki að hafa fyrir því að láta skrifstofu sína gera það eða hafa fyrir því að gera það sjálfur. Nú hefur reynslan hins vegar sýnt, að víða á landinu hefur sú skoðun á vélum, sem þessi maður á að sjá um, ekki farið fram 8 árin síðustu — en alltaf hefur gjaldanna fyrir það samt sem áður verið krafizt af sýslumönnum og öðrum lögreglustjórum og gjöldin greidd. Ég veit um tvö tilfelli, þar sem eftirlitsmaður hefur ekki komið í nýjar verksmiðjur, sem eru þó búnar að starfa í mörg ár, þar sem það slys vildi til í annarri verksmiðjunni, að stúlka fór í vél, þannig að það var guðs mildi, að ekki tók af henni höfuðið. Samt sem áður hefur vélaeftirlitið ekki komið í þessa verksmiðju. Svona eftirlit er aðeins einkastofnun ákveðins manns, sem hefur fengið lögfestingu fyrir því að fá allverulegt fé til þess að greiða sér og sínu starfsfólki góð laun án þess að koma að nokkru starfi. — Og þetta hefur verið liðið af þeim ráðh., sem með þetta hefur farið, um mörg undanfarin ár. Ég treysti því ekki til neins árangurs, ef endurskoðun á þessum l. á að vera undir slíkum mönnum komin.

Ég legg mjög mikla áherzlu á það annars vegar, að n. verði sett til þess að undirbúa þetta mál, og hins vegar, að ákveðið verði í þál., hvað gera eigi til úrbóta. Ég hefði álitið, að ef samþ. væri þáltill., eins og hv. allshn. vill hafa hana, þá hefði alveg eins mátt svæfa málið. Ég held því og fram, að mjög eðlilegt væri að sameina eftirlitið með verksmiðjum og vélum og skipaeftirlitið, og það hafa engin rök komið fram, sem sannfæri mig um, að það sé ekki heppilegt. Það eru komin upp um 70 hraðfrystihús úti um land, sem framleiða mat, þannig að full þörf er á, að með þeim sé haft sérstaklega gott eftirlit, til þess að fullkomins hreinlætis sé gætt í sambandi við slíkar framkvæmdir. Í því frv., sem ætlað er að verða að l. um eftirlit með skipum, er gert ráð fyrir því, að settir verði sérstakir skoðunar- og eftirlitsmenn svo að segja hvar á landinu sem nokkur útgerð er. Ég tel, að rétt sé að láta sömu skoðunarmenn, sem eiga að skoða skip og báta, einnig skoða vélar og verksmiðjur á sömu stöðum. Ég tel, að það sé hægt að fá betri menn á þann hátt til að gera þetta: Hér gæti skipaskoðunarstjóri haft yfireftirlit með öllum þessum málum, en tekið til starfa sérfræðinga til þess að hafa með verk. smiðjueftirlitið að gera. En það er það, sem fyrst og fremst forstjóri eftirlits með verksmiðjum og vélum berst fyrir með hnúum og hnefum, að hans aðstaða, sem ég hef lýst, verði ekki skert. Hann vill ekki, að þeirri aðstöðu sé spillt, að hann geti verið á nærri 30 þús. kr. launum hjá ríkinu á þann hátt, að hann þurfi aldrei neitt fyrir störfunum að hafa, og geti síðan haft tvöföld eða þreföld laun frá ríkinu fyrir önnur störf.

Ég vildi óska, að málið verði tekið af dagskrá í dag til þess að taka til athugunar, áður en lengra er gengið með afgreiðslu þess, hvort ekki sýnist rétt að fara eftir mínum brtt. á þskj. 745. Það er nauðsynlegt að gera umbætur í þessum eftirlitsmálum, en það er ekki hægt að mínu áliti að koma þeim fram, ef samþ. er þáltill., eins og hv. allshn. vill hafa hana samkv. þskj. 735, sem mundi leiða af sér, að manni væri falin þessi endurskoðun, sem fyrst og fremst hugsar um það að fá sér tryggðar tekjur, án þess að nokkuð komi á móti.