05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (4758)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Gísli Jónsson:

Ég vil út af ræðu hæstv. ráðh. spyrja hann, hvort hann hafi fyrir framan sig þskj. 745, sem er brtt. frá mér um ágreiningsatriði í málinu. (EmJ: Jú, hér er það). Það, sem deilt var um, áður en hæstv. ráðh. kom inn í d., var það, hvort ástæða væri til að skipa sérstaka n. til að athuga málið eða afgreiða till. eins og lagt er til í nál., þar sem tekið er beint fram, að ekki sé sérstök ástæða til að setja sérstaka n. Nú hefur hæstv. ráðh. lýst yfir, að hann muni við framkvæmd málsins leita til þeirra aðila, sem hlut eiga að máli. Þegar sú yfirlýsing liggur fyrir, þá virðist mér, að hæstv. ráðh. ætti að geta gengið inn á að setja sérstaka n. manna til að athuga málið, eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni á þskj. 745, þar sem einmitt er lagt til, að í n. séu skipaðir menn frá þeim aðilum, sem bezt þekkja þessi mál, eins og Vinnuveitendafélagi Íslands, en í því er Félag íslenzkra iðnrekenda meðlimur, eins og ég ljóst tók fram, en það eru fleiri en iðnrekendur, sem hagsmuna hafa að gæta í þessu máli, það eru einnig m.a. allir eigendur frystihúsanna í landinu, en þau eru hvorki meira né minna en 70. Sé hins vegar fallizt á það, þá sé ég ekki, að neitt sé því til hindrunar, að n. manna svona skipuð skuli framkvæma athugunina. Það verður einfaldasta og heppilegasta lausnin á málinu. Um hitt má svo deila, hvort sé rétt að fyrirskipa eitthvert sérstakt verkefni fyrir þessa n. Ég hygg, að um það verði þó ekki deilt, að það verði að stefna að því, svo sem hægt er, að tryggja öryggi fólksins, sem í verksmiðjunum vinnur, og einnig hreinlæti, einkum þó þar, sem matvæli eru framleidd, en ég benti á það áðan, að sum iðjuver, sem framleiða matvæli, hafa ekki einu sinni salerni eða önnur hreinlætistæki, þó að þar vinni 50–60 menn. Þetta er stórt atriði um alla framleiðsluvöru, sem seld er á innlendum eða erlendum markaði. Þá þarf einnig að gæta þess, að íbúarnir á hverjum stað séu verndaðir gegn hávaða og óþef frá ýmsum iðjuverum, svo sem fiskimjölsverksmiðjum, síldarverksmiðjum og grútarbræðslum. Ég held, að enginn mæli á móti því, að þetta er nauðsyn. Um hitt má deila, hvort nauðsynlegt sé að sameina þetta skipaeftirlitinu. Ég hygg þó, að það sé nauðsynlegt að fá þessa rannsókn, hver sem niðurstaðan verður. Þegar á allt þetta er litið, þá er ekki aðeins ástæðulaust að fella till. mína, heldur óverjandi, því að þegar till. n. er skoðuð, þá fer hún sannarlega inn á að veikja kröfuna um þessa rannsókn frá því, sem hv. flm. gerir í sinni till. Að sjálfsögðu ber ég fullt traust til hæstv. ráðh., en ef hann lýsir yfir, að n. skuli skipuð svona eða svona, þá er ekkert mein að því að samþykkja till. mína. Sé hins vegar ætlun hans að láta þann, sem starfar við eftirlitið, rannsaka þetta mál, þá tel ég það enga lausn málsins, því að mér er kunnugt um allan gang þessara mála undir stjórn þeirra manna, sem þar eru, eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni, og ég ber fullt vantraust til þeirra manna um að bæta úr því, þar sem það virðist hafa verið aðalmarkmiðið að koma af sér á aðra menn að rukka inn gjöldin, til þess að þeir þyrftu ekki einu sinni að hafa fyrir því, hvað þá að framkvæma skoðun og eftirlit l. samkvæmt, því að ég veit, að í mörgum tilfellum hafa þeir ekki framkvæmt skoðun í sumum verksmiðjum allt að 8 ár og jafnvel ekki komið til að skoða nýjar verksmiðjur.