05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (4762)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Gísli Jónsson:

Ég vil út af ummælum frá hv. þm. V-Húnv. í sambandi við það, að þetta fyrirtæki hafi verið rekið eins og einkafyrirtæki, benda á, að í fjárl. er ávallt tekin upp ákveðin upphæð og á móti ákveðnar tekjur. Þetta hefur verið gert þannig vegna þess, að fjvn. hefur ekki fundið svo mjög athugavert við fjárhagslegu hliðina sjálfa. En fyrirtækið hefur verið rekið — það er enginn vafi —eins og það væri einkafyrirtæki. Ég hygg, að það sé ekki hægt að benda á nokkurt annað dæmi um það, að stofnun, sem á að hafa þannig eftirlit, geti látið aðra menn innkalla gjöldin, án þess að eftirlitið hafi verið framkvæmt í viðkomandi verksmiðju árum saman, en það veit ég, að hefur verið gert. Ég veit, að það hafa verið tekin hundruð króna á hverju ári fyrir eftirlit í verksmiðjum, þar sem eftirlitsmaður hefur ekki komið árum saman. Þetta vil ég laga.

Í sambandi við ræðu hæstv. ráðh. þá skilst mér, að hann fallist á að skipa n. Hann lýsir því yfir, að það komi ekki til mála, að sá maður, sem stjórnar þessari stofnun, komi til með að hafa með rannsóknina að gera nema að gefa upplýsingar, sem er eðlilegt. En úr því að hann er kominn svo langt, að hann viðurkennir, að hann ætli að setja n., þá sé ég ekki, hv að getur verið á móti því, að n. sé skipuð eins og ég legg til, sem sé að þau félagasamtök, sem sameina þá aðila, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, tilnefni menn í n. Alþýðusamband Íslands sameinar verkamennina og þá, sem hafa þar hagsmuna að gæta, og þó að hægt sé að finna einstaka vinnuveitanda, sem er ekki í Vinnuveitendafélagi Íslands, eins og S.Í.S., eins og hv. þm. V- Húnv. benti á, þá vil ég benda honum á t.d. í sambandi við sláturhús, sem koma undir þetta, að þau eiga hvorki meira né minna en einn mann í stjórn Vinnuveitendafélags Íslands, og ég hygg, að hann hafi einnig áhrif í sambandi við mjólkurbúin. Ég sé því ekki ástæðu, að af þeim sökum þurfi að mótmæla því, að þessir aðilar tilnefni menn, auk þess sem ráðh. á að tilnefna þriðja manninn og getur þá tekið hann sem samnefnara fyrir aðra aðila, sem ættu að koma til frekar en þessir tveir. Þetta þykir mér rétt, að komi fram.

Hæstv. ráðh. hefur ekki heldur fært fram nein rök fyrir, að ekki sé rétt að haga rannsókninni eins og lagt er til í brtt. á þskj. 745. Hann hefur ekki gert neina tilraun til að sýna fram á, að ekki sé þörf á að haga rannsókninni þannig. En sé það viðurkennt, þá sé ég enga skynsamlega ástæðu til að samþykkja ekki till. eins og hún er, af því að það er miklu sterkara, nema hæstv. ráðh. vilji ráða því einn, hvaða menn hann útnefnir í n. Það væri eina ástæðan. Ég tel því, að eigi að stíga sporið til fulls og samþykkja mína till. á þskj. 745 til marks um þá stefnu, sem þarf að taka í þessu máli, og koma því í það horf, sem sé ekki til vansa fyrir stofnanirnar í landinu og fyrir landið sjálft.